Aðhald á krepputímum

Það var í dimmu og drungalegu herbergi þar sem 12 eða 14 manns sátu í hring með svona rússneska ljósakrónu dinglandi í miðjunni, svo skæra að ekkert sást fyrir aftan hringinn.  Allir sátum við á ólíkum stólum, klappstólum, plaststólum (þið vitið, þessir hvítu lífshættulegu úr Rúmfatalagernum), og gömlum úthjöskuðum smámöskva netastólum með mislitum málningarblettum (úr einhverju '84 módeli af viðarlögðu eldhúsi í Seljahverfinu.  Í fjarska heyrðist í einhverskonar dælubúnaði og lyktin minnti á gamla vélageymslu í sveitinni.  Allt í einu stend ég upp, dæsi og ræski mig svo svolítið áður en ég segi með trega...."Hæ, ég heiti Frosti... og ég er feitabolla".

Ég þarf varla að taka það fram að þetta var einn af þessum súrealísku draumum mínum, en þeir eiga það til að blanda saman öllum lífsins viðburðum gærdagsins í eina undarlega skrítlu sem ég aulast svo til að taka þátt í alla nóttina.   Þarna var semsagt kominn saman kokteill af Prison Break, Little Britain, einhverri mafíósamynd og svo bláköldum raunveruleikanum... Aðhaldi 2009!  Ójá, þú áttir kollgátuna! Frosti er að hefja hina árlegu aðhaldsmegrun ásamt því að keyra sjálfsprófið (svona eins og bílar gera þegar maður svissar á... öll ljós á... eitt og eitt hverfur... þar til bara hæfilega mörg sitja eftir og maður segir bara "fokkit... þetta sleppur".  

Af því verður ekki skafið að ég er of feitur... já, skv. nýjustu upplýsingum er ég á grafarbakkanum.  Ég sem hélt að BMI væri skali fyrir velmegun, komst að því að það er víst slæmt að hafa háa tölu á því einkunnaspjaldi. 30 er víst ekkert til að hrópa húrra fyrir... 5 er víst alveg hreint súper ofsalega æðislega frábært... og gulrót í verðlaun!  Ekki nóg með það, þá er ég með háan blóðþrýsting (sem maður hefði vissulega talið til hraustleikamerkja), rísandi kólestról, sem er víst ekki gott heldur... en annars ágætis púls. 

Ég semsagt hóf aðhaldsaðgerðir á nýju ári.  Hluti af því er að vikta sjálfan mig á adamsklæðunum einum saman (og meðfæddu ullarpeysunni) og synda svo 5-600 metra, gufa, pottur, 1 l af vatni, sturta, uppúr.  Og svo var gert... 1. mæling: 95,7 (eins og FM957)... 2. mæling: 96,7 (já... ehrrm... eins og Létt)... og 3. mæling í morgun: 97,7.  Nei, þetta blogg er eitt af því fáa sem Jón Ásgeir á ekki (ennþá).  Ég er semsagt búinn að bæta á mig 1 kg. á dag undanfarna 3 mælingardaga.  Hvað veldur?  Jú, örvæntið ekki lesendur góðir... svona er þetta bara þegar ég byrja að hreyfa mig, þyngist um 3-4 kg. og svo léttist maður.  Maður verður víst að búa til eitthvað til að brenna þessum kreppuforða.

En semsagt.  Nú er þetta opinbert fyrir alþjóð og ég berskjaldaður fyrir óþægilegum athugasemdum spurningum og kröfum um framgangssögur þessa nýársævintýris offitubollunnar í Einarsnesi.   Ég hef ákveðið að flokka þessa færslu undir flokkinn "Lífsstíll", en þá geta þeir sem ennþá eru að naga kalkúnabeinin síðan um áramótin með aðra lúkuna í Nóa-konfektkassanum og hina í smákökukrukkunni, kosið að sveigja framhjá þessum ósköpum þegar þeir líta inn á bloggið.  

Hinum samferðamönnum mínum (þ.m.t. konunni minni) óska ég góðs gengis í átakinu og segi "Game on!".  Mig vantar reyndar nafn á þetta átak mitt og kalla eftir tillögum frá lesendum en fyrir konurnar hef ég þegar fengið ágæta tillögu sem er afsprengi lummulegu línunnar "Í kjólinn fyrir jólin" en þessa aðhaldsaðgerð kvenna kýs ég að kalla "Í mussu fyrir hlussu".

Gleðilegt ár!


Jólakveðja 2008

Jæja bloggvinir, langur tími enginn sjór.  Við hjónin sendum út jólakveðju í stað jólakorta þetta árið en fyrir þá sem ekki voru á póstlistanum okkar, þá læt ég hana fylgja hér:

Árið 2008 í máli og myndum hjá fjölskyldunni Einarsnesi 56a.

Það má segja að árið 2008 hafi verið með þeim viðburðarríkustu hjá okkur fjölskyldunni þrátt fyrir að við höfum ekki aukið við barnakvótann, keypt okkur Range Rover, einkaþotu né þyrlu.  Né heldur klifum við fjallstinda, hlupum heilt maraþon né kepptum í þríþraut.

En að ala upp tvo skæruliða, verandi einn og kvæntur öðrum, er þríþraut út af fyrir sig.  Maður hleypur á eftir börnunum, hjólar í vandamálin og svo verður maður með einhverju móti að synda í gegnum straum hindrana og tækifæra eftir því sem við á hverju sinni.  Við hjónin leyfðum okkur því að taka pásu frá þríþrautinni í febrúar þegar við skelltum okkur á skíði í Austurríki og nutum þess að anda að okkur fjallaloftinu og létum dekra við okkur þess á milli.  Hér ber að taka fram að heimilisfaðirinn og eiginmaðurinn, hafði reynt látlaust frá kynnum okkar hjónanna að fá hana í skíðaferð, en allt kom fyrir ekki.  Alltaf var stefnan tekin á sólarströnd, með sand í öllum krikum, lesandi sömu myndamatseðlana, og eyðandi ógrynni fjár í að kaupa vindsængur, skóflur, fötur og annað sem fylgir þessum merkilega strandbúskap.  Það er skemmst frá því að segja, að nú eru Portúgal og Spánn staðsett í miðausturlöndum fjær fyrir Evu og skíðafrí er nú það eina sem heldur lifandi von í henni um að krónan jafni sig áður en snjórinn hverfur úr fjöllunum í Salz.  Þegar hér er við sögu komið, er fyrsti stórsigur ársins unninn og staðan orðin 1-0 fyrir Frosta.

Við komum að þessari stigagjöf síðar en það tengist þeim áfanga sem lauk í apríl þegar að Frosti lauk flugprófi á fisflugvél, en hann hafði stefnt lengi að þeim áfanga, reyndar látið sig dreyma um að læra flug í yfir 10 ár.  Þar sem Eva er líklega ein sú flughræddasta manneskja sem þekkist, mega lesendur gera sér í hugarlund hvað hún var ánægð með farþegaréttindi bóndans en það var nokkuð ljóst að það myndi líða einhver tími að hún settist inn í slíka vítisvél og tæki á loft... þ.e.a.s. með Kaftein Heimisson undir stýri.  Meira um það síðar.

Það væri líklega einfalt mál ef það dygði okkur hjónunum að fara utan einu sinni á ári ef við Íslendingar værum ekki svona fjári internasjónal og að helmingur fjölskyldu okkar byggi ekki utan landsteinanna.  Þetta kallaði því á fleiri ferðir utan og þrátt fyrir að jörð skylfi á Íslandi skruppu þær mæðgurnar, Eva og Stína, ásamt Mumma eldri og Þórsteini, til Einars og Katarinu í Vín og áttu þar frábærar stundir með þeim hjónum og nutu góða veðursins og hagstæðs gengis evrunnar, eherm...

Það var svo hápunktur ársins þegar við fjölskyldan brugðum landi undir fót og fórum í Skandinavíureisu og gistum í sumarhúsi í Svíþjóð í glampandi sól og sumaryl í mánaðarfríi.  Þar heimsóttum við Siggu og Davíð í Malmö og fengum að berja augum nýfæddan glæsilegan fjölskyldumeðlim, Bjarka Reyni, þeirra Rakelar og Badda í Danmörku.  Legoland, Tívolí, dýragarðar og sólstrandir gerðu þessa ferð ógleymanlega.  Ekki skemmdu fyrir heimsóknir fjölskyldu, ættingja og vina.

Lífið gekk að öðru leiti sinn vanagang þetta sumarið eins og áður.  Við ferðuðumst um landið með fellihýsið og nutum okkar í sumarbústaðnum þess á milli.  Frosti líklega meira úr lofti og Eva og börnin á jörðu niðri.  Ekki var það til að skemma fyrir sumrinu í Einarsnesinu að nýi pallurinn var tekinn í notkun og þrátt fyrir rysjótta tíð voru öll möguleg tækifæri notuð til að njóta ímyndaðrar veðurblíðu og hálf broslegt að horfa á krakkana skottast um á sundfötunum í garðinum í 8 gráðum og hálfskýjuðu.

Það er af börnunum að segja að Viktoría unir sér vel í skólanum, stundar skátastarf af krafti, er KR-ingur í fótbolta (eins og sönnum vesturbæingum sæmir) og syngur með barnakór Neskirkju auk þess að æfa jassballett og golf. Ekki tóm dagskráin hjá þeirri skottu.  Þessi eldmóður hefur svo fært okkur fjölskyldunni ófáar ánægjustundirnar og þar ber kannski helst að nefna Pæjumót á Siglufirði í sumar, jassballetsýningar og ófáa kirkjutónleikana.  Mummi okkar er að nálgast fjórða árið og er hinn allra sprækasti, búinn að gata á sér hausinn nokkrum sinnum, klára úr lyfjaglasi og skila því aftur á bráðamóttökunni, semsagt; eins og pabbinn á þessum aldri, í einu og öllu.

Stórsigur 2 var svo unninn í lok sumars þegar Eva tók þá undarlegu ákvörðun að fljúga með bóndanum á fisflugvélinni.  Þessi flugferð breytti áráttu eiginmannsins í fjölskyldusport og nú hafa Eva og Viktoría báðar fengið bráðabirgðaskírteini til fisflugs (sem farþegar að sjálfsögðu) og vilja ólmar halda áfram.

Það kom því lítið á óvart eftir þetta viðburðaríka ár að sjá heilt bankakerfi hrynja og heimskreppu skella á, enda hver hefði átt von á þessum sigrum sem á þessu ári voru unnir.  Megi næstu ár færa okkur aðra og enn frekari (sigra þ.e.a.s.).

Við fjölskyldan óskum ykkur gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi árum.  Við vonum að komandi ár megi verða jafn viðburðarrík og að samverustundir verði ennþá fleiri á þeim komandi sem fyrr. 

Kær jólakveðja frá fjölskyldunni í Einarsnesi 56a.

Þessu fylgdu svo myndir sem ég reyni að setja inn síðar.  Lifið heil.

Rannsóknarblaðamennska

Það er eins gott að þeir fækki ekki á fréttastofu Morgunblaðsins.  Greinilegt að þar er fólk að vinna fyrir kaupinu sínu! 

Spurningin er kannski helst þessi; Hver fékk þetta verkefni í morgun? 

Sé fyrir mér svona hávaðasama fréttastofu eins og í bíómyndunum, með hringjandi símum og vindilreykjandi, ofsastressuðum, sveittum og sköllóttum fréttastjóra, gargandi yfir hópinn; "Hvar er fréttin um Bankok?!, hver er með fréttina um gallaða gjaldeyrisfrumvarpið?" o.s.frv.  Svo vindur hann sér ofursnöggt að stjörnufréttamanni blaðsins, hallar sér fram á borðið, horfir örstutt í kringum sig og segir: "Jón, ég þarf að treysta þér fyrir mjög mikilvægri frétt sem ég var að fá nafnlausa vísbendingu um."  Jón horfir stíft í augun á fréttastjóranum og sjá má svitaperlurnar spretta fram á enni hans.  "Ég á bágt með að trúa þessu Jón, en þeir hjá AFA JCDecaux eru að pæla í að fella niður 10 króna gjaldið á almenningsklósettin í borginni til reynslu í nóvember!  Þú verður að finna út hvað veldur þessu, þetta getur ekki átt sér eðlilegar skýringar í þessu árferði!".  Jón, sem ætlar sér ekki að bregðast yfirmanni sínum í dag frekar en fyrri daginn svarar snarlega "Rægt avei tsjíff!" og það næsta sem við sjáum er í bakið á rykfrakkanum um leið og Jón hverfur út í drungalegt morgunmistrið með penna og skrifblokk að vopni.  Hvert ætli næsta fréttaefni verði?  Bíðum spennt!

 


mbl.is Notkun sjálfvirkra salerna eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppuþróunin... eða bara lélegur bissness?

koka219_740683.jpgFór í 10-11 í dag til að redda suðusúkkulaði handa frúnni þar sem hún var í óða önn við að baka jólasmákökur.  Ég hef oft haft á orði hvað sú verslun er fáránlega dýr en ég held að það sem blasti við mér í dag hafi toppað skalann.  Jú, eins og ég hef áður nefnt, þá kostaði bjór í vínbúð minna en 1/2 l. af Coke í 10-11 þegar hún var á 195 en í dag kostar þessi flaska 215 kr.  Gosflaskan er meira og minna öll framleidd hér heima og það litla sem þarf að kaupa að er sykur og bragðefni og ber líklega nálægt 10% af framleiðslukostnaði.  Já, þetta er eins og með þá sem fara á bensínstöðina á Ártúnshöðfa, bölva lítraverði af bensíni, en kaupa svo 1/2 líter af kolsýrðu vatni sem framleitt er 15 metrum ofar í götunni á 175 kr.  1/2 líter af bensíni sem framleitt er hinum megin á hnettinum, flutt með skipum norður í Atlantshaf, ekið á bílum að þessum mannvirkjum sem kosta gott meira en hornsjoppa á Grettisgötu, dælt í gegnum hátæknibúnar bensíndælur og knýja að lokum áfram bifreiðar og önnur ökutæki, kostar um 75 kr.  100 krónum minna en vatnsflaskan sem viðkomandi keypti án athugasemda.

Því spyr ég hvort dæmið snúist um kreppu eða lélegan bissness.  Ég man þá tíma þegar Eiríkur átti og rak 10-11 búðirnar en þá voru biðraðir við alla kassa, verslanirnar voru ódýrari en Bónus í verðum og kepptu á samkeppnismarkaði.  Þá var gaman að versla í 10-11.  Núna er oftast 1 manneskja við vinnu, tyggjósmjattandi með skítugt hár og lesandi DV á kassanum.  Eitthvað sem Eiríkur hefði ekki sætt sig við.  Ég efast um að það dugi að skrúfa upp verðið nema ákveðið lengi og fyrir minn smekk var markinu náð nú þegar 1/2 líter af kók náði 200 kr. markinu. 

Hingað og ekki lengra.  Ég færi minn bissness annað.


Mikilvægi þess að skoða heimavinnu barnanna...

Misskilin teikning...Meðfylgjandi mynd sem ég fékk senda undirstrikar mikilvægi þess að við yfirförum heimavinnu barnanna okkar.  Þessi stúlka í USA var að teikna móður sína, sem vinnur í HomeDepot (Húsasmiðjunni) og er að selja skóflu.  Myndin er góð en hætt er við að kennarinn eða aðrir sem myndina börðu augum hafi skilið hana rétt. 

Hvernig væri...

...að byrja á að segja upp þulunum?  Er það virkilega eins mikilvægt og fréttastofa RÚV?  Ég er allur á móti uppsögnum og niðurskurði en ég er allur fylgjandi því að skorið sé niður á réttum stöðum!
mbl.is „Kemur á versta tíma“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynlegt!

Það er gott að VG skuli hafa fókusinn á réttum stað í ástandinu nú þegar Alþingi sendir út á tveimur sjónvarpsstöðvum, er með vefsíðu og sendir reyndar út á netinu líka.  Um að gera að bæta við útvarpsrás líka, jafnvel dagblaði líka.  Eða leigja gerfihnött?!
mbl.is Enn reynt við útvarp frá Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á að borga?

Nú er ég einn af þeim sem tel notkun nagladekkja óþarfa fyrir innanbæjarakstur og reyndar skrepp ég gjarnan austur fyrir fjall og jafnvel lengra á fallegum vetrardögum.  Það er að mínu mati óverjandi að ég skuli greiða sömu gatnagerðagjöld og þeir sem aka um á nöglum og eyða upp malbiki.  Á sama hátt er olíugjald ákvarðað o.fl. 

Rök FÍB eru ágæt en undirstrika þó tvennt; Að flest ónegld vetrardekk veiti sama öryggi og nagladekk í langflestum aðstæðum en á móti að rannsóknir (sem þeir vitna í) sýni fram á að sáralítill munur sé á sliti nagladekkja og annarra.  Ég hef lesið annað og í huga mínum leikur enginn vafi á að hér sé um að ræða slit af völdum nagladekkja langt umfram hin.  Að auki kemur ekki fram að í sumum tilfellum eru naglar hreinlega verri en vetrardekkin, aðstæður sem eru mun tíðari í Reykjavík en glærahálkan sem vísað er í.


mbl.is Leggjast gegn nagladekkjaskatti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smart banking?

Sit hérna á "lánsinum" á Keflavíkurflugvelli þar sem fáa er að sjá.  Hingað til, þegar ég hef setið hérna og borðað morgunmatinn, hefur iðulega verið lifandi líf af útrásarfólki ýmisskonar.  Í dag er landslagið annað; nokkrir erlendir ferðamenn og örfáir þögulir Íslendingar.  Engir nýstroknir og gljáfægðir bankamenn eða atvinnufjárfestar(lántakar).  Þetta er svolítið lýsandi fyrir stöðuna í dag.  Svo lít ég á flotta "veraldarklukku" á veggnum sem líklega hefur kostað nokkra hundraðþúsundkallana og merkt Glitni í bak og fyrir.  Ekki bara Glitni... heldur "Glitnir - smart banking".  Dæmi nú hver fyrir sig.

En ég er á leið til Osló þar sem ég mun eiga fundi með afar áhugaverðum aðilum í mínum geira.  Þar sem flug hittir illa á verð ég að eyða deginum þar áður en fundirnir hefjast á morgun.  Þá hefði nú verið gott að hafa Rakel og Badda í "dávntávn Osló".  Norska krónan í 18 ... það er eins gott að hamstra smurbrauðið á lánsinum áður en honum verður lokað ;)

Jæja... ætla að fá mér eitt djúsglas til og svo er stefnan sett á 30þús fetin.


Mikill léttir...

... að einhverjir skuli hreinlega vilja lána okkur eitthvað þessa dagana.

Annars að öllu gríni slepptu er afar áhugavert að fylgjast með þessu því meiri líkur en minni eru að þarna gjósi í ljósi þróunarinnar.  Hvernig væri að færa Kötlumyndavélina þangað eða koma upp nýrri sem myndi gera mögulegt að fylgjast með umhverfinu "live"?


mbl.is Skjálftahrina við Upptyppinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband