Aðhald á krepputímum

Það var í dimmu og drungalegu herbergi þar sem 12 eða 14 manns sátu í hring með svona rússneska ljósakrónu dinglandi í miðjunni, svo skæra að ekkert sást fyrir aftan hringinn.  Allir sátum við á ólíkum stólum, klappstólum, plaststólum (þið vitið, þessir hvítu lífshættulegu úr Rúmfatalagernum), og gömlum úthjöskuðum smámöskva netastólum með mislitum málningarblettum (úr einhverju '84 módeli af viðarlögðu eldhúsi í Seljahverfinu.  Í fjarska heyrðist í einhverskonar dælubúnaði og lyktin minnti á gamla vélageymslu í sveitinni.  Allt í einu stend ég upp, dæsi og ræski mig svo svolítið áður en ég segi með trega...."Hæ, ég heiti Frosti... og ég er feitabolla".

Ég þarf varla að taka það fram að þetta var einn af þessum súrealísku draumum mínum, en þeir eiga það til að blanda saman öllum lífsins viðburðum gærdagsins í eina undarlega skrítlu sem ég aulast svo til að taka þátt í alla nóttina.   Þarna var semsagt kominn saman kokteill af Prison Break, Little Britain, einhverri mafíósamynd og svo bláköldum raunveruleikanum... Aðhaldi 2009!  Ójá, þú áttir kollgátuna! Frosti er að hefja hina árlegu aðhaldsmegrun ásamt því að keyra sjálfsprófið (svona eins og bílar gera þegar maður svissar á... öll ljós á... eitt og eitt hverfur... þar til bara hæfilega mörg sitja eftir og maður segir bara "fokkit... þetta sleppur".  

Af því verður ekki skafið að ég er of feitur... já, skv. nýjustu upplýsingum er ég á grafarbakkanum.  Ég sem hélt að BMI væri skali fyrir velmegun, komst að því að það er víst slæmt að hafa háa tölu á því einkunnaspjaldi. 30 er víst ekkert til að hrópa húrra fyrir... 5 er víst alveg hreint súper ofsalega æðislega frábært... og gulrót í verðlaun!  Ekki nóg með það, þá er ég með háan blóðþrýsting (sem maður hefði vissulega talið til hraustleikamerkja), rísandi kólestról, sem er víst ekki gott heldur... en annars ágætis púls. 

Ég semsagt hóf aðhaldsaðgerðir á nýju ári.  Hluti af því er að vikta sjálfan mig á adamsklæðunum einum saman (og meðfæddu ullarpeysunni) og synda svo 5-600 metra, gufa, pottur, 1 l af vatni, sturta, uppúr.  Og svo var gert... 1. mæling: 95,7 (eins og FM957)... 2. mæling: 96,7 (já... ehrrm... eins og Létt)... og 3. mæling í morgun: 97,7.  Nei, þetta blogg er eitt af því fáa sem Jón Ásgeir á ekki (ennþá).  Ég er semsagt búinn að bæta á mig 1 kg. á dag undanfarna 3 mælingardaga.  Hvað veldur?  Jú, örvæntið ekki lesendur góðir... svona er þetta bara þegar ég byrja að hreyfa mig, þyngist um 3-4 kg. og svo léttist maður.  Maður verður víst að búa til eitthvað til að brenna þessum kreppuforða.

En semsagt.  Nú er þetta opinbert fyrir alþjóð og ég berskjaldaður fyrir óþægilegum athugasemdum spurningum og kröfum um framgangssögur þessa nýársævintýris offitubollunnar í Einarsnesi.   Ég hef ákveðið að flokka þessa færslu undir flokkinn "Lífsstíll", en þá geta þeir sem ennþá eru að naga kalkúnabeinin síðan um áramótin með aðra lúkuna í Nóa-konfektkassanum og hina í smákökukrukkunni, kosið að sveigja framhjá þessum ósköpum þegar þeir líta inn á bloggið.  

Hinum samferðamönnum mínum (þ.m.t. konunni minni) óska ég góðs gengis í átakinu og segi "Game on!".  Mig vantar reyndar nafn á þetta átak mitt og kalla eftir tillögum frá lesendum en fyrir konurnar hef ég þegar fengið ágæta tillögu sem er afsprengi lummulegu línunnar "Í kjólinn fyrir jólin" en þessa aðhaldsaðgerð kvenna kýs ég að kalla "Í mussu fyrir hlussu".

Gleðilegt ár!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað varð um "sjáðu tólin fyrir jólin"? hehe

Gangi þér vel!

Ragnheiður (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 23:36

2 Smámynd: Frosti Heimisson

Góð!

Frosti Heimisson, 7.1.2009 kl. 00:01

3 identicon

"Betri er lykt en vigt!- " Betra er að fitna en svitna" -Verra er bull en sull"-"Af misjöfnu þrífast burar best"-"Öl er ekkert böl"- "Verri er vísdómur en barlómur"-Oft kemur góður matur,þá getið er"...

Mummi senior (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 00:44

4 identicon

Það var mikið!!   Svo þrættir þú bara þegar ég var að segja þér hvað flugvélin hallaði!

Þórir T (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 12:45

5 Smámynd: Frosti Heimisson

Neinei... þú varst bara of léttur.  Sjáðu til... menn eins og ég eru bara í rangri kjörhæð... annað er vandamálið ekki.

Frosti Heimisson, 7.1.2009 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband