Færsluflokkur: Bloggar

Ætli þeir viti af þessu?

Þarf ekki einhver að segja olíufélögunum af þessu?  Þeir verða örugglega voðalega glaðir!
mbl.is Olíuverð undir 89 dali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skreppitúr í kringum Selfoss

P1070300

Skrapp í gær smá rúnt um Selfoss til að prófa vélina mína eftir að hafa sett í hana höfuðrofa og aðrar smávægilegar viðbætur... þ.m.t. bílflautu :).  Vélin var hin ljúfasta og skemmtilegt að skutlast milli regnskúranna eins og í þrautabraut.  Tók nokkrar myndir og setti á vefinn og reyndar 3 vídeó (aftast í listanum).  Ómerkileg videó til þess að gera en bara til að prófa myndavélina.  Njótið.

Myndirnar hér.


og í þetta eyða fjölmiðlar tímanum...

Með fullri virðingu fyrir Ásdísi og hennar hrakningum þá finnst mér margt eiga plássið meira skilið.  T.a.m. þessi hetja hérna sem berst fyrir lífi sínu.  Alveg er ég viss um að hún og fleiri hafi oftar en Ásdís verið "nokkrum klukkustundum" frá bráðri lífshættu. Ég held meira að segja að ég hafi margoft verið "nokkrum klukkustundum" frá bráðri lífshættu!

En hinum get ég verið sammála að loksins eigum við svona Paris Hilton sem við getum slúðrað um þegar ekkert annað er fréttnæmt.

Og áður en einhver fer að gagga í mér, þá vona ég náttúrulega eins og ég óska flestum að Ásdís nái fullum bata.  


mbl.is Ásdís Rán í bráðri lífshættu í Búlgaríu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Feisbúkk og Skotar

Í tvö ár líklega hafa menn og konur spurt mig um Facebook... ýmist afhverju ég sé ekki "á Facebook" og/eða hvað þetta snúist allt saman um.  Facebook er eitt af fjölmörgum "tengslanetum" á netinu en ég hef notað eitt þeira mjög mikið í minni vinnu en það er LinkedIn (www.linkedin.com).  Þar skrá menn (og konur) sig inn, leita uppi vini og vandamenn og tengjast og skiptast þannig á myndum, upplýsingum, allskonar óþörfum hugleiðingum og skoðunum en umfram allt eiga kost á að endurvekja tengsl við gamla skólafélaga, skátafélaga, íþróttafélaga... eða m.ö.o. flesta félaga úr fyrndinni. 

Munurinn á Facebook og LinkedIn er hinsvegar sá að sá síðarnefndi er eingöngu tengslanet viðskipta og þar getur maður oft fundið innsta tengilið í stærstu fyrirtækjum í gegnum tengingar sínar þar.  Facebook hinsvegar er að mínu mati undarlegur tímaþjófur með skammarlega lítinn tilgang.  Ég tengist þér og þú ert tengd/ur 3 öðrum.  Þannig sé ég hvað þessir 3 aðrir eru að gera þessa og þá stundina, hvaða vini þeir eiga o.s.frv. og þeir sjá myndirnar mínar á netinu, hvað ég er að gera og mínir vinir.  Eitthvað í þá áttina.  Nokkuð sem ég sé ekki fram á að nenna að stunda nema að eitthvað stórkostlegt gerist.  Mest finnst mér gaman að fylgjast með öllum hinum eyða tímanum sínum... gefur eiginelga góða mynd af hve lítið er að gera hjá viðkomandi.  Fyrir þá sem þekkja Facebook er hérna ágætis myndband sem að mínu mati útskýrir vel um hvað þetta snýst væri internetið ekki til staðar:

Já og varðandi Skotana.  Ef ég er ekki skoti... er ég þá andskoti?


Hvernig verður maður Gissur Sigurðsson?

Ég hef alltaf haft gaman af helíuminnöndun en þetta er sjálfsagt eitthvað tengt barnahúmor mínum úr æsku þar sem dugði að skipta strump út fyrir prump, eins og áður hefur verið bloggaðu um.  Ég hinsvegar uppgötvaði að andstæða helíums er til og nefnist Sulfur Hexaklóríð og er 6 sinnum þéttara en andrúmsloft líkt og helíum er 6 sinnum þynnra.  Sjáið hér fyrir neðan hvað lofttegundin gerir fyrir þá sem anda henni að sér:

Magnað alveg hreint og klárt mál að maður verður að verða sér út um svona innan tíðar.

Hvernig væri svo að kvitta í athugasemdir?  Eða er enginn að lesa þetta?!


Árbókarmyndir...

Fann þetta stórskemmtilega tól á netinu til að búa til árbókarmyndir eins og þær hefðu litið út frá árinu 1950 - 2000.  Nokkur sýnishorn hér fyrir neðan:

1984 1980 1972 1958 1954

Mana ykkur náttúrulega til að gera slíkt hið sama og leyfa mér að njóta árangursins.

http://yearbookyourself.com/


Flughelgi að baki, og viðburðarík.

Já sorry sorry... búinn að vera upptekinn.  En hér kemur helgarskýrsla þótt seint sé.

Ég fór nefnilega að fljúga á laugardaginn en ég hef lítið flogið undanfarið þar sem ég er búinn að vera með mótorinn úr vélinni í "overhaul" þar sem skipt var um kveikjubúnað.  Vélin hafði nefnilega verið afspyrnuleiðinleg í að starta undanfarið og ekki verjandi að fljúga henni mikið meira í því ástandi jafnvel þótt hún væri gjörsamlega til friðs á flugi.

Ég hafði líka lengi ætlað að bjóða bræðrum Evu í flug og við það var staðið.  Tómas var fyrsti farþeginn og stefnan var tekin á Kjalarnes og þaðan yfir fjörð og inn í Borgarnes þar sem við snerum við.  Ég hafði tekið eftir því að stöku sinnum hægðist örlítið á snúningi vélarinnar, sem er ekki venjuleg hegðun, en loftskilyrði voru ansi hliðholl svokallaðri blöndungsísingu.  Blöndungsísing verður þegar raki í lofti er yfir 50% og hiti undir 10°C.  Við þessi skilyrði getur langvarandi keyrsla á föstum snúningi valdið uppsöfnun íss í blöndungunum og þar með teppt loftflæði, eða sem verra er, skotið inn ísbrotum sem valda gangtruflunum.

Ég var svo heppinn að hafa lært skilyrðin, einkennin og viðbrögðin í flugnámi mínu og því var ég ekkert óöruggur þegar þetta var að koma upp á.  Ég vissulega gerði meira ráð fyrir hugsanlegum truflunum eða jafnvel mótorstoppi og flaug samkvæmt því.  Það er svosum ekkert nýtt fyrir mig en lágflug var a.m.k. úr myndinni.  Tómas tók við vélinni snemma á leiðinni og stóð sig vel en þótti lítið til sýnikennslu minnar í þyngdarleysisflugi og veltingi koma.  

Stefán var öllu óheppnari greyið.  Ekki var hann aðeins búinn að bíða í 1,5 klst eftir okkur, heldur er hann öllu óöruggari þegar kemur að svona sporti... held ég.  Hann var a.m.k. passlega rólegur við hliðina á mér brjálæðingnum en var frekar snöggur að ná fyrstu hreyfingunum.  Við flugum yfir Kjalarnesið og þaðan yfir fjörðinn og út á Skaga.  Þar tókum við nokkra hringi og Stefán fékk að leika sér þar til við hugðumst fljúga til baka.  Það var þá sem Stefán missti áhugann á flugi (held ég) :)  Vélin var í um 600 fetum þegar hún sló hressilega af allt í einu og Stefán með stjórn á vélinni.  Það beinlínis birti inni í vélinni þegar Stefán hvítnaði eins og E.T. þegar hann var sem veikastur. Ég greip stýrið strax, dróg úr inngjöfinni og byrjaði að jafna út flugið og mótorinn fór aftur að virka sem skyldi.  Stefán spurði náttúrulega strax "Hvað var þetta?" og... "Er þetta ok?" o.s.frv.  Spurningar sem ég gat auðveldlega svarað játandi og reyndi að útskýra fyrir honum að þetta væri nú ekki það alvarlegasta í heimi.  Við værum með fullt af túnum fyrir neðan okkur, vegi og flatlendi sem allt væri nógu gott til að lenda á ef við lentum í einhverri neyð.  Ég sagði honum líka að við gætum haft samband við Flugturninn í Reykjavík og spurt hvort það væri ekki flugvöllur nálægt sem hægt væri að lenda á til að jafna mótorinn.  Setningu minni var ekki lokið þegar albínóinn í farþegasætinu svaraði samstundis "Viltu ekki bara kalla í þennan turn og spyrja þá hvað við eigum að gera".  Ég gat nú ekki annað en brosað en ég veit innst inni að ég hefði líklega migið á mig ef ég hefði lent í þessu með einhverjum "mági mínum" í fyrsta flugi á fisvél.  Ég kallaði vissulega í turninn og sagði þeim að við værum að eiga við smá gangtruflanir og lét vita af staðsetningu minni.  Ég fann að þetta róaði farþegann minn en á næstu 3 mínútum á lágum snúningi virtumst við hafa náð að hreinsa þetta út og gátum aftur tekið hæð og flogið til baka.  "Já eigum við ekki bara að gera það" var eina samþykkið sem ég þurfti frá Stefáni þegar ég spurði hann hvort hann vildi snúa við.  Það tók hann nokkrar mínútur að ná púlsinum niður úr 150 slaga svæðinu en hægt og bítandi komst litur í andlitið á þessum óheppna tvíburabróður sem hafði líklega gert sér aðrar hugmyndir um fisflug en þetta bauð upp á.

Þegar við nálguðumst Grund sá ég tengdapabba við brautina en ég hugsa að sál Stefáns hafi heimsótt pabba sinn í smá stund á meðan hún forðaði sér ofan af Skaga eitt augnablik 30 mínútum áður.  Hann fylgdist með okkur koma inn í duglegum vindi en lendingin gekk vel, enda ekki í fyrsta skipti sem ég lendi í vindi en ég hef ákveðið gaman af því að æfa vindlendingar, bæði á hlið og framan.  Ég svitnaði nú samt örlítið hugsandi um hvernig ég ætti nú að matreiða þetta sem rólegast, enda var ekki nema liðið um hálft ár frá því að ég var næstum búinn að fokka upp ágætu sambandi við tengdaforeldra mína þegar ég lánaði honum fjórhjól til prufu og drengnum tókst náttúrulega að aka því á vegg.  Og næstum drepa sig!  Og ekki bætti úr skák að fyrir nokkrum árum hafði Einar, elsti bróðirinn, lent á Nesjavallavegi með frænda sínum þar sem þeir lentu í bensínstíflu.  Hefði það verið týpískt ef ég hefði lent í því sama?  Kræst.

Jæja.  Eftir að hafa látið vélina bíða í um 15 mínútur og kíkt undir vélarhlífina til að ganga úr skugga um að ísingin væri horfin, hélt ég svo austur á Selfoss þar sem ég kom vélinni fyrir í skýlinu góða.  Ég tek það fram að ég hefði aldrei flogið henni austur hefði ég verið í minnsta vafa um að ekki væri allt með felldu og ég tek það líka fram að blöndungsísing sem þessi er alls ekki sjaldgæf, þót sjaldnast valdi hún mótorstoppi.  Viðbrögðin skipta miklu máli í þessu tilfelli. Þetta er engu að síður óþægilegt og því er ég búinn að finna blöndungshitunarbúnað á netinu sem er einfalt að koma fyrir og kemur í veg fyrir svona uppákomur.  

Annars fórum við svo í heimsókn til Gunnu og Kristjáns, góðvinafólks okkar sem nú nýverið flutti á Hvanneyri.  Ég veit ekki hvort ég gæti flutt í sveit en á móti kemur að þau fluttu af Álftanesi þannig að viðbrigðin eru líklega ekki eins mikil og að flytja úr 101.  Djók.  Þar búa þau í rúmgóðu húsi sem er mjög vel útlátið með flottu útsýni yfir fjallgarðinn í suður.  Við komum kannski ekki í besta veðri (25m/sek og rigning) en hlökkum til að koma í meiri blíðu og eyða þar hugsanlega einni nóttu.  

Jæja, nóg í bili. 

 


Ég er í lagi!

... eða öllu heldur flugvélin mín.  En,  þar með talið ég!  Ég er líka búinn að fljúga síðan... hehe... nánast má segja.  Nú er hún heil og ég nýt þess.  Þessi færsla er náttúrulega ætluð flugvinum mínum sem vilja vita statusinn á vélinni minni.

Annars fór ég í flug í dag, flögraði um allt, Sandskeið, Grund, Kjalarnes... og endaði á Tungubökkum.  Hitti Guðna vin minn og fór með hann í loftið og honum líkaði vel.  Sem er í kontrast við það sem aðrir hafa sagt og vélinni hafa flogið - ekki slæmt að eiga svo fína vél. 

Jæja, flug um helgina, engin spurning - þeir sem vilja þurfa bara að hafa samband ;) 


Krafa borgarbúa (og landsbyggðarinnar)

Það er augljóst að vilji kjósenda skv. könnunum er að hafa völlinn áfram í Reykjavík og það í Vatnsmýrinni.  Þetta kom bersýnilega í ljós í síðustu könnun sem framkvæmd var og þó var reynt að halda hana á meðan flugdagur stóð yfir á Reykjavíkurflugvelli.  Þrátt fyrir þá tilraun voru yfir 60% borgarbúa fylgjandi áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýri.  Og tæp 90% landsbyggðarfólks sem ég tel að hafi a.m.k. jafn mikinn rétt á að kjósa um þetta málefni ef ekki meiri vilja hafa völlinn áfram!  Þarfnast þetta frekari sönnunar? 

Sem fyrr kasta ég svo þeirri spurningu til þeirra sem vilja kjósa völlinn burt;  Hvað ef Sandgerðisbúar myndu nú ákveða að Keflavíkurflugvöllur væri fyrir verðmætu byggingarlandi?  Hver ræður för?


mbl.is Vill láta kjósa á ný um Reykjavíkurflugvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Æ hættu bara núna, ég vil fara að sofa"

... sagði 3ja ára sonur minn núna fyrir nokkrum mínútum og ég rétt hálfnaður með seinna erindi "Ó Jesú bróðir besti".  Já, þau eru hreinskilin þessi börn!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband