Færsluflokkur: Bloggar

Icelandair (og elskulegir Íslandsdanir) að gera góða hluti...

Ferðaðist vegna ráðstefnu til Barcelona um daginn og þurfti að fljúga með Icelandair til Köben og þaðan til Barcelona með Spanair, flugfélagi sem fór nánast á hausinn um daginn og var komið á góða leið með að draga SAS með sér í svaðið.  Þetta er svosum ekki frásögum færandi út af fyrir sig, en ég má til með að hrósa Icelandair, þá sjaldan sem maður hrósar í stað þess að lasta öllu sem er ekki nákvæmlega eins og maður vill hafa það.

Maður er nefnilega orðinn svo góðu vanur.  Ég las t.d. í bók Þorsteins Jónssonar flugstjóra þegar hann segir frá því hvernig þeir voru að koma á einum hreyfli inn til lendingar án þess að það væri tiltökumál, hvernig reykfylltar vélarnar rétt drusluðust á áfangastað eftir margar milliendingar, vélarbilanir, bensínleysi o.fl.  Nú á dögum þurfa vélarnar að bjóða upp á heimsklassahámenningu og það þarf gjörsamlega að dekra við afturendann á okkur svo við hótum nú ekki lögsóknum vegna vanrækslu og brota á alþjóðlegum reglum um heilsufarsdekur... og þar fram eftir götunum.

Ég hef lengi vel sett út á tilgangslausar eggjahrærur og baunasalöt um borð í 2ja-3ja tíma ferðalögum frá t.d. Íslandi til Skandinavíu og hvað þá einhverja undarlega framkreista stéttarskiptingu í farþegarými vélanna, en kann þó vel að meta að fólk hafi valmöguleika og geti kosið að borða ommelettu eða bara samloku um borð, getað jafnvel hugsað sér að sitja án matar í 3ja manna sæti fyrir aftan væng?!!  Nú eða nuddað á sér afturendann upp úr leðurklæddu 2ja sæta sófasettisígildi og nánast fundið rakspíralyktina af flugstjóranum um leið og að viðkomandi dreypir á 3ja klassa kampavíni úr plastflösku við klassíska tónlist úr lánsheyrnartólum viðskiptafarrýmisins.  

En þetta er flug.  Fluglífstíll má segja.  Lífstíll sem hefur hægt og rólega, eins og hótellífstíllinn, gert kröfur sem eru á fáránlegum mælikvarða.  Menn fá snert af móðursýkiskasti fái þeir ekki drykkina á undan matnum, klaka í kókið, frítt snakk, litabækur fyrir börnin, og tala ég nú ekki um (og hér er ég fremstur í flokki) blauttissjú í hnífaparaservéttupakkningunni sem kemur með þríupphituðu regnblautu eggjahrærunni sem hér var áður nefnd. 

En samt sem áður er hér verið að koma okkur, 200 manneskjum, yfir Atlantshafið, til fjarlægra landa, á nokkrum klst. og það fljúgandi... eins og að það skipti engu máli?!  Halló?!

En punkturinn er þessi.  Þrátt fyrir að hafa flogið með einu flugvél Icelandair sem ekki hefur enn fengið andlitslyftingu og nýja innréttingu, naut ég flugsins alla leið og kom mér svo í tengiflugið með Spanair.  Þar beið Airbus 320 flugvél, með svo þröngt á milli sæta að meira að segja ég og mínir annars ekkert svo sérstöku 182 sentimetrar, þurftu að krumpast í þessu þrönga og ómerkilega sæti og vonlaust nema að saga hak í sköflungana að geta rétt úr fótunum til að gera flugferðina bærilegri.  Og þrátt fyrir að vera búinn ferðatölvu gat ég ekki einu sinni komið henni fyrir til að horfa á eitthvað á leiðinni, enda var ekkert sýnt nema staðsetning vélarinnar alla leiðina suður.  Flugfreyjurnar komu loksins eftir um 2ja tíma flug með hálftóman veitingavagninn og áttu til eina tegund af samlokum og hlandvolgt kók og mig langaði eiginlega (en athugið... eiginlega) í gömlu þríupphituðu regnblautu ommelettuna frá Keflvíska veislueldhúsinu aftur.  En ég náði að dotta þetta af mér og uppskar bakverki og aðra fylgifiska fyrir stuðning minn við þetta einnar evru flugfélag suðursins.

Þegar ég kom aftur til Danmerkur síðar í vikunni, beið mín ekki aðeins dýrindis Lasagne og kaldur öl hjá elskulegri mágkonu minni og svila í kóngsins Köben, heldur flaug ég svo til baka með (núna einu af mínu uppáhaldsflugfélögum) Icelandair.  Félagi sem hefur tekið ábendingum farþega sinna með svo skírum hætti að búið er að henda út regnsveittu ommelettunni og baunasallatinu fyrir öllu nútímalegri skyndibita sem er umfram allt í boði fyrir þá sem vilja.  Sætin eru þægileg og svo býður félagið upp á afþreyingu um borð sem höfðar til allra farþega.  Menn geta keypt sér þann íburð sem þeir kjósa... líklega enda þeir á að selja tánudd um borð. 

Margir hafa bölvað því að nú þurfi að borga fyrir teppi, kodda mat og drykk, en hafa ber í huga að þetta eru allt hlutir sem menn hafa hingað til tekið með sér í flest ferðalög og geta það enn.  Fyrir hina sem geta ekki hugsað sér slíka meðhöndlun er hægt að kaupa sér næsta klassa fyrir ofan, fá passlega mikið dekur og betri sæti, nú eða skottast um á SagaClass og sjá heiminn með augum alvöru viðskiptajöfra.  En mestu skiptir að þetta er allt valkvæmt.  Það þýðir í raun að maður getur sjálfum sér um kennt finnist manni ekki nógu dekrað við sig.  Mestu máli skiptir að með Icelandair getur maður a.m.k. verið viss um að það versta er sko alveg nógu gott og rúmlega það.  Þið hin getið bara "öppgreidað"!

En nú er búið að endurnýja flotann, innréttingarnar, afþreyingarkerfið og búningana... en ég kemst ekki hjá því að hafa tekið eftir að menn hafa gleymt að "öppdeita" flugfreyjurnar.  Held að það sé ekki flugfreyja undir fimmtugu lengur í Icelandair vélunum (nema Ásta nágrannakona mín auðvitað).  Hvað veldur er víst kreppan og starfsaldurinn...

Conan O'Brien fékk til sín ágætis karakter um daginn sem heitir Louis CK.  Hann hefur svipaða sýn á nútímann og ég.  Horfið á þetta, allt svo rétt:

Góðar stundir fólk... í 30þús fetunum eða á jörðu niðri.


Flugmenn og freyjur...

Hvað er þetta með flugstjóra sem kynna sig? Ég er ekkert viss um að það hjálpi neitt að vita að Stefan Konráðsson sitji við stýrið... nú hvað þá að honum til aðstoðar sé Herbert Þráinsson flugmaður.  Þetta er vissulega voða virðulegt... en fyrir hvern er þetta gert?!  Svo kemur flugfreyjan í radíóið og tilkynnir hátíðlega að menn verði að fara í röð ef vélin brotlendir, blása í vestin o.s.frv. en byrjar þetta allt á að tilkynna að hún heiti Geirþrúður Sörensen og sé yfirflugfreyja um borð í ferðinni.  Jahá... það var nú gott að vita. 

Semsagt... það minnisstæðasta úr ferð minni til Köben í morgun var að nafngreindir voru þrír einstaklingar sem komu mér heilum yfir Atlantshafið.  Ég get ekki beðið eftir að fá að vita hverjir það verða hjá Spainair sem koma mér yfir til Barcelona eftir 40 mínútur!  Sendi ykkur skýrslu!


90kg múrinn rofinn (í rétta átt)

Jæja, sá 89,9kg á vigtinni góðu í WorldClass í morgun.  Það þýðir að 7,8 kg. eru horfin síðan 2. janúar s.l.  7.8 kg. eru slatti satt best að segja.  Það eru 10 lítrar af bensíni, sem er um klst. aukaflugtími á fisvélinni minni (fróðleikspunktur dagsins: Bensín er 25% eðlisléttara en vatn). 

thyngdarthroun.pngÁ þyngdarþróunarritinu hér til hliðar má glögglega sjá hve fljótt það hefur áhrif að breyta einungis mataræðinu og hreyfa sig daglega.  Ég ætla ekki að halda einhvern klappfyrirlestur um þetta og trúið mér að mér finnst ennþá bölvanlegt að sleppa stöku sælgætisstykki hér og þar, minnka bjór- og gosdrykkju, en árangurinn lætur ekki á sér standa.  Og ég ætla heldur ekki að segja að mér líði eins og nýslegnum túskildingi (hvernig sem þeim líður annars almennt) en mér líður a.m.k. ekki verr en fyrir átakið og líklega er ég að gera líkamanum gott með þessu öllu saman og þ.a.l. er markmiðinu náð.  Reyndar er markmiðið að ná niður fyrir 80 kg. á 3 mánuðum (rúmlega 1 búinn), og því er besta mál að auka pressuna aðeins með því að tilkynna það hér. 

Jæja... ég er farinn að hljóma eins og Jónína Ben með rasskolsboðskapinn sinn... farinn að vinna!


Mánuður liðinn og ég kominn á Mótel Venus (en búinn að klífa Everest)...

Já, eins og hægt er að fylgjast með hér á síðunni er undirritaður í aðhaldsaðgerðum eins og ríkisstjórnin.  Þetta þýðir auðvitað óhjákvæmilegur niðurskurður og árangurinn virðist ekki láta á sér standa (eins og er).  Janúar byrjaði með sundferðum á hverjum morgni virka daga en svo keyptum við hjónin okkur líkamsræktarkort í WorldClass um miðjan mánuðinn.  6 sinnum í viku og ekkert slegið af (ennþá). 

Og þar sem ég hef haldið úti nákvæmum skráningum og tölfræði get ég sagt ykkur að á þessum tíma er ég búinn að synda og hlaupa sem nemur vegalengdinni frá Reykjavík inn í Borgarfjörð, eða um 70km og reiknast mér til að það sé ca. við Mótel Venus, sem stendur sunnan megin við fjörðinn áður en farið er yfir hann.  Að auki reiknar þessi maskína sem ég púla á á hverjum degi hækkun eða klif.  Skv. henni hef ég nú þegar klifið Everesttind einu sinni og er kominn langleiðina upp aftur.  Sherpar hvað!

En það sem mestu máli skiptir er að ég er frískur og 6kg léttari, á einum mánuði.


16 skoðanir Jóhönnu...

Horfði á Kastljós á mánudagskvöldið og fannst hún nýorðnir forsætisráðherrann okkar Jóhanna vera farin að segja "skoðanir" sínar fulloft á 10 mínútum.  Ákvað því að taka saman það helsta úr viðtalinu og þetta varð niðurstaðan:

 

Ég er ansi hræddur um að margt verði skoðað en fátt verði gert næstu 80 dagana.  Því miður.


Arnar minn!

Greinin slæmaFaðir minn sendi inn lag í Eurovision sem fer fram þessa og næstu helgar.  Það er svosum ekki frásögum færandi en í morgun byrjuðu nákomnir ættingjar að hringja í mig og hughreysta af einhverjum ógefnum ástæðum.  Hið rétta kom svo í ljós þegar faðir minn hringdi loksins og spurði mig hvort ég hefði lesið dóminn um lagið hans í Mogganum í dag.  Nei, sagði ég, enda búinn að segja upp áskriftinni í kreppunni og fékk því að heyra hana "live" frá kallinum sjálfum.  Og þetta var ekki beint það sem hann vildi heyra á keppnisdaginn, en hann lét sem þetta hefði ekki nokkur áhrif á sig og bar sig vel.  Ég sagði honum að hafa ekki nokkrar áhyggjur, því ég mæti sjónvarpsáhorfendur svo að þeir færu ekki að láta einhvern Arnar á Mogganum kjósa fyrir sig og að líklega væru það ófá ár síðan undirritaður hefði lesið plötudóm sem þennan síðast.  Ég dæmi músikina frá því sem ég heyri... ekki Arnar. 

Í kvöld fórum við svo feðginin, ég og Viktoría ásamt Sirrý vinkonu hennar í sjónvarpssal til að hvetja áfram kallinn og fylgifiska hans, og auðvitað Edgar Smára sem kom laginu glæsilega á framfæri og ætlaður rembingur Arnars hefur víst skilað sér betur en ómerkileg greinarskrif hans í Mogganum.  Það verður samt að láta úrslit kvöldsins segja dóm hlustenda, og svo virðist vera sem Arnar hafi lélegra tóneyra en meirihlutinn.  Spurningin er að þessu sinni hvort gagnrýnandi sem hefur svona rækilega rangt fyrir sér, þótt hann hafi að sjálfsögðu rétt á sinni skoðun, eigi erindi sem gagnrýnandi fyrir hönd allra lesenda Morgunblaðsins, eða hafi yfir höfuð eitthvert vit á tónlist.  Mér er bara spurn.

En engu að síður skemmtum við okkur öll vel í sjónvarpssal, vel var tekið á móti gestum og góð stemning var meðal fólks allan tímann.  Dóttir mín hafði vissulega mesta skemmtun af þessu öllu saman, fékk að fara á sviðið, mynd með Ragnhildi og Evu Maríu, og svo mætti lengi telja.  En mestu skiptir að lag karlsins komst áfram og spennandi að sjá hvernig næstu kvöld þróast fyrir úrslitakeppnina.


Ég er dótakall...

Já, ég á flest sem mig langar í, ég fæ mér flest sem mig langar að prófa, en þetta hérna er dæmi um hvað ég hefði gert, hefði ég aðstöðuna til þess:

Þetta kallar maður að hámarka arðsemi fjárfestingar fyrirtækisins!


Ást og hatur aðhaldsaðgerða...

Jæja, lítið að frétta úr útrýmingarbúðunum annað en að nú er þessi sveiflukennda þróun að "kikka inn".  Eins og ég sagði, þá byrja ég alltaf að þyngjast og svo léttist ég í framhaldinu.  Þar sem ég nenni ekki að blogga um þetta ætla að ég að vísa á þessa síðu þar sem heilsudagbókin verður uppfærð ásamt metratölu sunds og hver veit nema að ég bæti inn einhverri óþarfa tölfræði í kjölfarið.  Engu að síður er hægt að sjá þyngdarþróunina mjög greinilega (allt mælt á sama  stað). 

Hér er skjalið: http://spreadsheets.google.com/ccc?key=pMbbZZZQPvlPnGvjniXuDBA

Hitt sem ég vildi ræða eru þessir árans skokkarar.  Ég er núna í þrígang á jafn mörgun dögum næstum búinn að aka niður eitthvað spandexklætt himpigimpi sem getur ekki, frekar en aðrir skokkarar, notað gangstéttir og hlaupabrautir sem liggja um alla borg.  Hvað er það?!  Það er eitt að klæða sig í smágerð nylonundirföt, setja á sig svona vatsnsbrúsabyssubelti, neongula loftpúðaskó og vaða svo út meðal almennings, en að bjóða ökumönnum borgarinnar að þurfa að þræða gangstéttarkanta til að komast leiðar sinnar er allt annað!  Hafa þessir menn ekki heyrt talað um hlaupabretti (sé þetta undirlag svona afskaplega ójafnt) ?!

Þetta er kannski landlægur fjandi í flestum íþróttagreinum... sitt sýnist hverjum.  Ég veit ekki betur en að það hafi nýlega að það þurfti að stöðva slagsmál tveggja sundmanna í Vesturbæjarlauginni, en sökum tímabundinnar lokunar Seltjarnarneslaugar, höfðu heimamenn þar gert sér ferð í Vesturbæinn.  Reglan í Seltjarnarneslauginn er nefnilega að þar synda menn fram og til baka (eftir eigin línu), en í Vesturbænum synda menn í hringi (þ.e.a.s. fram með hægri brún brautar og til baka eftir þeirri vinstri).  Þetta endaði því auðvitað með að Seltirningur synti beint í fangið á Vesturbæingi, og þau faðmlög urðu ekki ástríðukennd.

Já, hún er merkileg pólitíkin! Allavega finnst mér þetta miklu merkilegri pólitík en að Guðmundur Steingrímsson skuli vera genginn í Framsókn. Hverjum í veröldinni er ekki sama um hvar sá maður er staddur í pólitík?!


Jólakveðja 2008

Jæja bloggvinir, langur tími enginn sjór.  Við hjónin sendum út jólakveðju í stað jólakorta þetta árið en fyrir þá sem ekki voru á póstlistanum okkar, þá læt ég hana fylgja hér:

Árið 2008 í máli og myndum hjá fjölskyldunni Einarsnesi 56a.

Það má segja að árið 2008 hafi verið með þeim viðburðarríkustu hjá okkur fjölskyldunni þrátt fyrir að við höfum ekki aukið við barnakvótann, keypt okkur Range Rover, einkaþotu né þyrlu.  Né heldur klifum við fjallstinda, hlupum heilt maraþon né kepptum í þríþraut.

En að ala upp tvo skæruliða, verandi einn og kvæntur öðrum, er þríþraut út af fyrir sig.  Maður hleypur á eftir börnunum, hjólar í vandamálin og svo verður maður með einhverju móti að synda í gegnum straum hindrana og tækifæra eftir því sem við á hverju sinni.  Við hjónin leyfðum okkur því að taka pásu frá þríþrautinni í febrúar þegar við skelltum okkur á skíði í Austurríki og nutum þess að anda að okkur fjallaloftinu og létum dekra við okkur þess á milli.  Hér ber að taka fram að heimilisfaðirinn og eiginmaðurinn, hafði reynt látlaust frá kynnum okkar hjónanna að fá hana í skíðaferð, en allt kom fyrir ekki.  Alltaf var stefnan tekin á sólarströnd, með sand í öllum krikum, lesandi sömu myndamatseðlana, og eyðandi ógrynni fjár í að kaupa vindsængur, skóflur, fötur og annað sem fylgir þessum merkilega strandbúskap.  Það er skemmst frá því að segja, að nú eru Portúgal og Spánn staðsett í miðausturlöndum fjær fyrir Evu og skíðafrí er nú það eina sem heldur lifandi von í henni um að krónan jafni sig áður en snjórinn hverfur úr fjöllunum í Salz.  Þegar hér er við sögu komið, er fyrsti stórsigur ársins unninn og staðan orðin 1-0 fyrir Frosta.

Við komum að þessari stigagjöf síðar en það tengist þeim áfanga sem lauk í apríl þegar að Frosti lauk flugprófi á fisflugvél, en hann hafði stefnt lengi að þeim áfanga, reyndar látið sig dreyma um að læra flug í yfir 10 ár.  Þar sem Eva er líklega ein sú flughræddasta manneskja sem þekkist, mega lesendur gera sér í hugarlund hvað hún var ánægð með farþegaréttindi bóndans en það var nokkuð ljóst að það myndi líða einhver tími að hún settist inn í slíka vítisvél og tæki á loft... þ.e.a.s. með Kaftein Heimisson undir stýri.  Meira um það síðar.

Það væri líklega einfalt mál ef það dygði okkur hjónunum að fara utan einu sinni á ári ef við Íslendingar værum ekki svona fjári internasjónal og að helmingur fjölskyldu okkar byggi ekki utan landsteinanna.  Þetta kallaði því á fleiri ferðir utan og þrátt fyrir að jörð skylfi á Íslandi skruppu þær mæðgurnar, Eva og Stína, ásamt Mumma eldri og Þórsteini, til Einars og Katarinu í Vín og áttu þar frábærar stundir með þeim hjónum og nutu góða veðursins og hagstæðs gengis evrunnar, eherm...

Það var svo hápunktur ársins þegar við fjölskyldan brugðum landi undir fót og fórum í Skandinavíureisu og gistum í sumarhúsi í Svíþjóð í glampandi sól og sumaryl í mánaðarfríi.  Þar heimsóttum við Siggu og Davíð í Malmö og fengum að berja augum nýfæddan glæsilegan fjölskyldumeðlim, Bjarka Reyni, þeirra Rakelar og Badda í Danmörku.  Legoland, Tívolí, dýragarðar og sólstrandir gerðu þessa ferð ógleymanlega.  Ekki skemmdu fyrir heimsóknir fjölskyldu, ættingja og vina.

Lífið gekk að öðru leiti sinn vanagang þetta sumarið eins og áður.  Við ferðuðumst um landið með fellihýsið og nutum okkar í sumarbústaðnum þess á milli.  Frosti líklega meira úr lofti og Eva og börnin á jörðu niðri.  Ekki var það til að skemma fyrir sumrinu í Einarsnesinu að nýi pallurinn var tekinn í notkun og þrátt fyrir rysjótta tíð voru öll möguleg tækifæri notuð til að njóta ímyndaðrar veðurblíðu og hálf broslegt að horfa á krakkana skottast um á sundfötunum í garðinum í 8 gráðum og hálfskýjuðu.

Það er af börnunum að segja að Viktoría unir sér vel í skólanum, stundar skátastarf af krafti, er KR-ingur í fótbolta (eins og sönnum vesturbæingum sæmir) og syngur með barnakór Neskirkju auk þess að æfa jassballett og golf. Ekki tóm dagskráin hjá þeirri skottu.  Þessi eldmóður hefur svo fært okkur fjölskyldunni ófáar ánægjustundirnar og þar ber kannski helst að nefna Pæjumót á Siglufirði í sumar, jassballetsýningar og ófáa kirkjutónleikana.  Mummi okkar er að nálgast fjórða árið og er hinn allra sprækasti, búinn að gata á sér hausinn nokkrum sinnum, klára úr lyfjaglasi og skila því aftur á bráðamóttökunni, semsagt; eins og pabbinn á þessum aldri, í einu og öllu.

Stórsigur 2 var svo unninn í lok sumars þegar Eva tók þá undarlegu ákvörðun að fljúga með bóndanum á fisflugvélinni.  Þessi flugferð breytti áráttu eiginmannsins í fjölskyldusport og nú hafa Eva og Viktoría báðar fengið bráðabirgðaskírteini til fisflugs (sem farþegar að sjálfsögðu) og vilja ólmar halda áfram.

Það kom því lítið á óvart eftir þetta viðburðaríka ár að sjá heilt bankakerfi hrynja og heimskreppu skella á, enda hver hefði átt von á þessum sigrum sem á þessu ári voru unnir.  Megi næstu ár færa okkur aðra og enn frekari (sigra þ.e.a.s.).

Við fjölskyldan óskum ykkur gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi árum.  Við vonum að komandi ár megi verða jafn viðburðarrík og að samverustundir verði ennþá fleiri á þeim komandi sem fyrr. 

Kær jólakveðja frá fjölskyldunni í Einarsnesi 56a.

Þessu fylgdu svo myndir sem ég reyni að setja inn síðar.  Lifið heil.

Rannsóknarblaðamennska

Það er eins gott að þeir fækki ekki á fréttastofu Morgunblaðsins.  Greinilegt að þar er fólk að vinna fyrir kaupinu sínu! 

Spurningin er kannski helst þessi; Hver fékk þetta verkefni í morgun? 

Sé fyrir mér svona hávaðasama fréttastofu eins og í bíómyndunum, með hringjandi símum og vindilreykjandi, ofsastressuðum, sveittum og sköllóttum fréttastjóra, gargandi yfir hópinn; "Hvar er fréttin um Bankok?!, hver er með fréttina um gallaða gjaldeyrisfrumvarpið?" o.s.frv.  Svo vindur hann sér ofursnöggt að stjörnufréttamanni blaðsins, hallar sér fram á borðið, horfir örstutt í kringum sig og segir: "Jón, ég þarf að treysta þér fyrir mjög mikilvægri frétt sem ég var að fá nafnlausa vísbendingu um."  Jón horfir stíft í augun á fréttastjóranum og sjá má svitaperlurnar spretta fram á enni hans.  "Ég á bágt með að trúa þessu Jón, en þeir hjá AFA JCDecaux eru að pæla í að fella niður 10 króna gjaldið á almenningsklósettin í borginni til reynslu í nóvember!  Þú verður að finna út hvað veldur þessu, þetta getur ekki átt sér eðlilegar skýringar í þessu árferði!".  Jón, sem ætlar sér ekki að bregðast yfirmanni sínum í dag frekar en fyrri daginn svarar snarlega "Rægt avei tsjíff!" og það næsta sem við sjáum er í bakið á rykfrakkanum um leið og Jón hverfur út í drungalegt morgunmistrið með penna og skrifblokk að vopni.  Hvert ætli næsta fréttaefni verði?  Bíðum spennt!

 


mbl.is Notkun sjálfvirkra salerna eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband