Heilbrigt og óheilbrigt?

Ég er ekki bara heilbrigður (reyndar 2. flokks heilbrigður skv. fluglæknum Flugmálastjórnar) heldur er ég líka saklaus!  Fór í dag og fékk heilbrigðisvottorð útgefið af Flugmálastjórn fyrir litlar 16.000 kr. (opna munn, segja "aaaahhhh", standa á vigt, hlusta, blóðþrýstingur og sjónpróf).  Ekki var ég bara látinn pissa í svona einnota drykkjarmál (ekki þessi steríliseruðu plastglös með loki), sem líklega verður aldrei rannsakað, heldur var ég líka látinn koma sérstaklega með gleraugnarecept áður en ég var svo sjónprófaður hjá lækninum.  Ég get bara huggað mig við að ég þarf ekki að fara í próf aftur fyrr en að 5 árum liðnum.  Halelúja. Svo fékk ég staðfestingu hins tindháa embættis Lögreglunnar í Reykjavík að ég væri saklaus maður með öllu og hefði aldrei gert svo mikið sem flugu mein.  Þetta var prentað á hið laglegasta A4 blað fyrir 1.350 kr. staðgreitt (ekki hægt að borga með kreditkorti).  En hey, hvað gerir maður ekki fyrir frelsið?!

Ég er semsagt heilbrigður en ég held að sú einmana sál sem nennti að setja saman hljómsveit úr standlömpum og tæknilegókubbum sé það ekki:

Kveð að sinni.


Úttekt á fisvél

Í dag var enn einum áfanganum náð í fisfluginu hjá mér.  Ég var tekinn út af Hálfdáni flugstjóra, testflugmanni, flugkennara, fisflugmanni, o.s.frv. og það merkir að ég fæ núna skírteini fisflugmanns frá FMS (Flugmálastjórn) og get því farið að "logga" næstu 25 klst. af flugi sem gefa mér réttindi til farþegaflugs.  Þetta færir vissulega nýtt og spennandi líf í sportið og skemmtilegt að fá að upplifa flugið með öðrum en flugmönnum í framhaldinu.  Ég semsagt má fljúga með farþega í dag en sá farþegi verður að vera flugmaður með farþegaréttindi. 

Prófið var með þægilegra móti. Flugum frá Grund á TF-134 og að Hafravatni og fórum í um 2000 feta hæð þar sem Hálfdán lét mig taka nokkrar æfingar, fljúga í hringi hægt og hratt, halda hæð, æfðum viðbrögð við mótorstoppi, stolluðum dálítið og enduðum á að æfa aðflug í hliðarvindslendingu og lentum svo á styttri brautinni á Grund.  Gekk semsagt vel og Hálfdán, sem er "by the way" ekkert hálfdán neitt, tók í spaðann á kallinum og óskaði mér til hamingju með prófið.  Svona var það þá bara.  Reyndar verður að segjast að ég sé búinn að vanda til verks, enda með rúma 50 tíma í heildarflugreynslu, þar af um 27 í sóló.  Flestir taka um 10 og 10 tíma í þetta m.v. að flýta sér. 

Já ekkert stress hér en spenningur að fá að taka fyrsta alvöru farþegann þegar allt verður frágengið, klappað og klárt.

Sökum slæmrar veðurspár ákvað ég að fljúga austur og geyma vélina í skýlinu á Selfossi og gekk það flug fínt.  Eva keyrði austur og sótti mig og dekraði svo við mig heima með kjúklingapítu og með'ví.  Meira síðar.


Allir komnir heim

Jæja, þá er mín elsku ektafrú komin heim frá Vín, sólbrún og sæt, en þreytt eftir langt ferðalag.  Hún og tengdamamma flugu nefnilega frá Munchen, en til þess að komast þangað urðu þær að ferðast fyrst með lest og þaðan með flugi til Íslands.  Ferðin hjá þeim var hin ágætasta, þrjátíuog ex margar gráður og ansi heitt fyrir víkingahúðina heiman af Fróni.  Við hin, ég, Viktoría og Mummi, erum við ágæta heilsu þrátt fyrir vikulanga dvöl án fimmstjörnukokksins og heimasætunnar og berum okkur nokkuð vel miðað við aðstæður ;)

IMG 2306Við fórum hinsvegar 3 á tónleika SigurRósar og Bjarkar í Laugardalinn og skemmtum okkur ágætlega, fengum ofsa fínt grillkjöt hjá Kristínu systur og Bjarna á Laugarásveginum á undan og röltum svo á tónleikana heiman frá þeim. En hey... þetta er ekkert spennandi saga.  Ég uppgötvaði náttúrulega þegar ég var kominn á tónleikasvæðið að ég hafði strax týnt Viktoríu.  Alveg hreint týpískt!  Reyndar kom það svo á daginn að ég hafði ekki týnt henni, neiii... gleymt! Já ég gleymdi henni á Laugarásveginum og þegar ég svo hringdi í gemsann hennar, þá svaraði hún, þessi elska, á kurteisislegan máta og spurði mig hvenær ég ætlaði að sækja hana FootinMouth.  Glæsilegur ég. Ég sótti hana svo og við tókum stöðuna á SigurRós áður en við stungum af og tókum spólu fyrir kvöldið.  Góður dagur í dag.

IMG 2289Myndin þessi er af ömmu minni, Sigríði Helgadóttur, betur þekktri sem Ömmu Siggu, á tónleikum SigurRósar.  Hún er ein af þeim merkilegri ef ekki sú merkilegasta sem ég hef kynnst.  Á hverjum miðvikudegi er hádegismatur hjá henni fyrir þá sem vilja, grjónagrautur eins klassískur og hann getur orðið og allskyns góðgæti með, súrmatur, harðfiskur, slátur, rúgbrauð, síld o.s.frv.  85 ára gömul færi hún létt með að klifra fjöll með mér eða ganga Laugaveginn (fjallaleiðina þ.e.a.s.) en það sem tengir hana við þessa tilteknu tónleika er að hun lék nýverið í tónlistarmyndbandi SigurRósar, Hoppípolla. Já, stórstjarna víðar en með áhugaleikhúsunum sem hún starfar svo ötullega við.

Hér á YouTube má sjá þessa frábæru manneskju, ömmu mína, ljá SigurRós hæfileika sína:

Flugskýrsla:  Fór reyndar í stutt flug á föstudaginn, flaug yfir nýju brautina okkar þar sem vökvun var í gangi og stóðst ekki mátið og lenti við hliðina á henni á mölinni, ansi gott bara.  Flaug svo upp að Úlfarsfelli aftur og æfði uppstreymisflug sem er baaara gaman.  Sveif meira og minna með eyðslumælinn í ca. 5 ltr. á klukkustund, ekki slæmt það.  Skil alltaf betur og vetur hvernig þessir fýlar fara að við að koma sér án erfiðsins upp eftir heilu fjallshlíðunum - ekkert mál!  Fékk ansi gott kikk út úr því að vera fugl í klukkustund eða svo.  

Nú snúast áhyggjurnar helst um að hafa vélina bundna upp við flugskýlið að Grund, enda ekki veðurvænt þessa stundina.  Hún er reyndar svo vel niðurbundin að ég á meira von á að flugskýlin fjúki en að vélin fari nokkuð, gæti helst skemmst ef flugskýlið flýgur á hana :).  Ætla að freista þess að fljúga um miðnætti á morgun eða um það bil austur á Selfoss og koma þessari elsku fyrir í skýli fyrir veður næstu daga.


Pylsur var það heillin...

Ég fékk einhvern daginn vitundarvakningu um að ég þyrfti að hreyfa mig og koma í form og ákvað að fara í eróbikktíma í WorldClass þegar það var í Fellsmúlanum.  Reyndar var á þeim tíma þegar þar var klettaklifurveggur og ástæða til að heimsækja staðinn án þess að vera að ólíubera mig sérstaklega og horfa á sjálfan mig engjast í keppni við næsta sólbekkjaalkann við hliðina á mér. Þennan sem tók alltaf 20 kg. of þung lóð og rembdist svo eins og karfi í framan við að sanna tilverurétt sinn í þessu gúmmídýnuklædda svitabæli.  Já einhvern veginn var spinning og taebo og allt það ekki orðið vinsælt og því var eróbikk málið!  Ég kann alveg að halda takti þegar músík er annarsvegar en að hreyfa mig fram aftur, hliðar saman hliðar, einn og tveir o.s.frv. og telja taktinn á sama tíma... jeeeesús!  Ég er bara ekki týpan í þetta.  Í fimmtanda skpiti komst ég enn og aftur að þeirri niðurstöðu að sund er mín íþrótt - hver á sínum hraða, svona eins og húsbílar. 

IMG 2247Ehemm... já, ég og Siggi Hall erum greinilega ekki skyldir.  Kvöldmatur handa gríslingunum!  Viktoría fékk 3ja mínútna "instant Yum Yum núðlur" úr Bónus og Mummi fékk pylsur og Engjaþykkni.  Já, það er börnum mínum til happs að ég er svona vel kvæntur að þau munu ekki hrjást lengi af næringarskorti.  Eva kemur heim eftir nokkra daga.  Heyrði í henni áfram þar sem hún er í Vín(i) og þrjátíuogeitthvað stiga hita.  Ýmist of eða van.

IMG 2266Nema hvað... dagurinn heima var yndislegur, 16-17 stiga hiti í garðinum sem sannast af myndunum þar sem Viktoría var að leika sér með vinkonu sinni léttklædd að hlaupa í gegnum ískalt vatnið sem er núna í gangi nánast allan sólarhringinn til að halda lífi í grasinu.  Ótrulegt að eiga við svona "vandamál" á Íslandi.  Setti vatn í pottinn og þau léku sér þar á meðan ég fékk að setjast niður og slappa af.  

Fréttir!  Ég fór ekki að fljúga í dag!  Magnað!  Fer á morgun.  Strákarnir í Fisfélaginu stóðu sig samt eins og hetjur og lögðu vatnslögn frá Langavatni upp á braut og nú vonandi von um að grasið nái í sig lífi aftur.  Þetta verður að lagast fyrir haustið.  Jæja, sendi inn myndir á picasa og bið að heilsa í bili.


Fjölgar í heimili hægt og bítandi...

Já, Viktoría mín er komin heim úr sumarbúðunum sólbrún og sæt.  Vistin var víst ekki svona slæm þegar allt er athugað og svo virðist sem þetta hafi meira og minna verið stutt heimþrárskot um kvöld og reyndar einnig við matartimana, hehe... held að það orsakist af 5 stjörnu kokknum móður hennar sem eldar nánast alltaf ofaní okkur hin.  Svo góð er hún að ég get lítið státað mig af öðru en að kunna að grilla.  Matseðill vikunnar er líka í samræmi við það:

  • Laugardagur: Eva heima og því gúrmei gúllas með kartöflumús o.fl. á boðstólnum. 
  • Sunnudagur: Eva farin til Vínar.  Fór í heimsókn með Mumma til Kristínar systur - fengum mat þar.
  • Mánudagur: Fórum austur í bústað og fengum pylsur í boði afa Heimis.
  • Þriðjudagur: Pizza (frosin beint í pizzaofninn) 
  • Í dag:  Líklega pylsur, gæti hugsanlega galdrað fram hamborgara.

Það sést því líklega á þessari stuttu upptalningu að það eru sumir hæfari til eldamennsku en aðrir.  

Annars eru þau svo sæt saman þessi systkini, ótrúlegt hvað þau eru góðir vinir.  Mummi var náttúrulega búinn að spyrja mig á 10 mínútna fresti síðustu daga hvenær systir hans kæmi heim.  Hann skilur ekkert afhverju það þarf að skilja hana eftir í "sumum búðum" eins og hann sagði það.  

Needless to say, þá fór ég að fljúga í gær og fyrradag.  Æfði "svifflug" með fýlunum við Úlfarsfell og upplifið hversu rosalegir kraftar eru í uppstreymisvindunum og hafgolunni og var að horfa á vélina klifra í láréttri stöðu um 1000-1500 fet á mínútu í mesta streyminu.  Ótrúlegt að upplifa þetta en útskýrir hversvegna þessir fuglar geta svifið nánast endalaust í uppstreyminu án þess að þurfa að hafa fyrir nokkrum sköpuðum hlut.  Fór svo í gær á Selfoss og fyllti á vélina.  Ansi kröftugir túrbúlansar við Kambana og nánast vandamál að koma vélinni niður á Sandskeiði til snertilendingar vegna uppstreymis.  Svo heldur sumt fólk að flugvélar séu alltaf að hrapa.  En hey, það er jafn vitlaust og að stunda fallhlífarstökk.  Myndu menn t.d. stunda það að blása út líknarbelgi á bílum sínum eða henda sér eftir hraðbrautum, leður- og hjálmvarðir þó, á 100 km/h.?  Nei held ekki.  Fallhlífar notar maður þegar allt annað klikkar!  


Ok, gott er orðið gott!

Eva og tengdó farin til Vínar og ég og Mummi einir eftir í kotinu.  Tómlegt verður að segjast en þó aðeins í nokkra daga, Viktoría heim á miðvikudag og Eva aftur á sunnudaginn.  Vona að það verði frábært hjá þeim úti, alltaf svo gaman að bregða sér í smá afslöppun við og við. 

Hvað haldið þið annars?  Ég fór að fljúga í dag!  Reyndar er þetta ekki hefðbundið, enda var mér boðið af Jóa vini mínum í TF-KAR, gamla Stinson vél frá Kafteinaklúbbnum (Þyt).  Þessi vél er feiknaskemmtileg og minnir á gamla tíma, soldið eins og að setjast upp í gamlan Buick sem hefur verið haldið vel við í gegnum árin og tíðina.  Flugum frá BIRK inn í Borgarfjörð og lentum á Húsafelli þar sem við vorum sóttir í kaffi hjá yfirmanni Jóa í glænýjan og glæsilegan bústað yst í Húsafelli.  Enginn hefðbundinn bústaður þar, bárujárnsklæddur kassi með risagluggum og viðarklæðningu að hluta.  Harðviðspallur allt um kring í bland við dökkgráar steinflísar gerðu þetta að glæsilegasta húsi og líklega ögn skynsamlegra þegar kemur að viðhaldi í framtiðinni.  Glæsilegasta hús semsagt.  Jæja, ekki er þetta spennandi hjal fyrir flugáhugamenn þannig að hér kemur smá rúsína fyrir ykkur.  Jói var nefnilega að safna í PPLið sitt, þ.e.a.s. til að halda teininu gildu og þurfti því að taka lendingar á leiðinni.  Það ætluðum við að gera m.a. á Stóra-Kroppi en þar stóð vindurinn þvert á braut og því var verkið ekki hið auðveldasta (enda Stinsoninn taildragger vél, ekki það þægilegasta í hliðarvindi).  Jói hefur líklega komið inn aðeins of hratt því vélin skoppaði upp og aftur upp nokkrum sinnum og vildi bara ekki hætta að fljúga.  Á sama tíma var vindurinn iðinn við að feykja henni til vinstri og út af braut.  Jói sá hvert stefndi og ákvað að stýra henni út af brautinni út á melinn til að forða þvi að lenda á brautarbaujunum sem marka hana og geta farið illa með vélar sé ekið á þær, tala nú ekki um proppinn.  Þetta tókst semsagt ágætlega og vélin staðnæmdist nokkru utan brautar, dálítið niðurímóti en á fínum stað.  Jói fær 9,5 í einkunn fyrir snar handtök og flotta reddingu og verður að segjast pollrólegur við þessar aðstæður enda heyrði ég hann fyrst segja "Hættu nú að fljúga" nokkrum sinnum, eða ca. í hverju skoppi og svo "Heyrðu, ég ætla bara að skella mér út fyrir braut" um leið og hann fór á milli tveggja bauja.  0,5 er dregið frá þar sem hann ætlaði ekki upphaflega að lenda utan brautar!  Merkilegast fannst mér að ég kippti mér ekki einu sinni upp við þetta, treysti Jóa líklega bara svona vel og nýt næstum 50 tíma "flugreynslu" minnar.  Jæja, ljúft flug heim, upp eftir Skorradalsvatni og yfir Esjuna til Reykjavíkur.  Gott flug í góðum félagsskap.

Í kvöld skrapp ég svo kvöldrúnt og ætlaði bara rétt að kasta kveðju á Guðna kunningja minn sem hafði nýlent Úlfinum á Tungubökkum.  Eftir stutt spjall fór Storkurinn minn í fýlu og startaði ekki, hafði yfirfyllt blöndungana og við tók viðgerð á staðnum (kertin úr, þurrka, raspa, loka, ræsa, etc.)  Guðni reddaði þessu með mér og ég komst í loftið klukkustund síðar.  Vegna pössunarmála þurfti ég því að fara aftur á Grund og tjóðra vélina.  Fer vonandi aftur á morgun eða hinn.

Eitt í þessu.  Ok, ég er enginn leðurklæddur mótorhjólatöffari með neflokk og magasítt skegg, en ég er að óttast það dálitið hvað konur eru hrifnar af vélinni minni og segja mér óspart hvað hún er "dömuleg" og "gvööð hvað hún er lekker" og allt þetta.  Sjáið fyrir ykkur ofangreindan mótorhjólatöffara koma gleiðfætt töltandi að 1500 cc Harley hjólinu sinu, setja upp sólgleraugun, hrækja í hlaðið og hlamma sér svo á hjólið, kickstarta og bruna með látum út í sólarlagið.  Mér líður ekki þannig! 

Eitt svo enn.  Í gærkvöldi flugum við miðnæturflugið, ég og nokkrir drekaflugmenn, austur á Sandskeið og svo til baka með einhverjum ranghölum og útúrdúrum.  Flaug t.d. á ca 60-70 km/h yfir suðurlandsvegi í 700 fetum eða svo og virti fyrir mér traffíkina.  Skoðuðum líka Enduro-keppnina sem var á mótorhjólabrautinni í Jósefsdalnum - mjög skemmtilegt.  Hætti ekki að fljúga fyrr en í morgun :), þ.e.a.s. upp úr kl. 1 og því flaug ég tæknilega í tvo daga ;).  

Ég er svolítið fyrir að fljúga, finnst ykkur það? 


4 tímar af flugi í dag!

Flaug ansi vel og mikið í dag.  Lagði af stað frá Grund um hádegisbilið og lagði leið mína inn í Borgarfjörð þar sem ég prófaði völlinn á Stóra-Kroppi (sem er by the way mjög góður) og flaug þaðan lágflug yfir Kleppjárnsreyki þar sem Viktoría mín er á sumarbúðum.  Flaug svo þaðan yfir á Þingvelli og svo á Selfoss þar sem ég tankaði vélina.  Flaug svo á Flúðir milli regnskýja þar sem Flúðamenn héldu flugkomu og mikil stemning á vellinum.  Stoppaði stutt við og fékk mér pylsu og ræddi við nokkra flugmenn á svæðinu.  Brunaði svo í bæinn með stuttri viðkomu á Sandskeiði.  Er núna að biða eftir barnapíunni svo ég komist í Miðnæturflug Fisfélagsins þar sem markmiðið er afar einfalt og ómerkilegt að vera í loftinu yfir miðnættið, logga semsagt flugtak 21. júní og lendingu 22. júní.  Setti inn myndir á Picasavefinn minn og tek líklega einhverjar í kvöld og set inn um leið og færi gefst. 


Flug í dag ... mmmmm...

Jæja, fór á TF-134 frá Selfossi í dag og böggaði Þóri dálítið með yfirflugi yfir Úlfljótsvatn þar sem hann er í tjaldferðalagi með fjölskyldunni.  Stoppaði við á Sandskeiði, kíkti í klúbbhúsið og kastaði kveðju á svifflugsmenn áður en ég hélt aftur af stað og lenti svo á Grund með glæsibrag, þótt ég segi sjálfur frá.  Gott flug og skemmtilegt, sérstaklega þar sem ég lét verða af því að lenda á Grund enda brautin aðeins um 150 metrar brúkleg.  Vélin er náttúrulega ofboðslega þægileg fyrir stuttar lendingar þar sem hún getur auðveldlega flogið aðflugið á 50-60 km hraða og þ.a.l. er lending einfalt mál. 

Ætla að skella mér vestur á Snæfellsnes á morgun, lenda við Fróðá og veiða eða spila golf en umfram allt heimsækja fjölskylduna sem þar dvelur þessa stundina.  Segi betur frá eftir það flug. 


Sumardvöl eða sumarkvöl?

Viktoría okkar fór með vinkonu sinni í Ævintýraland, sumarbúðir í Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði.  Þetta er nú ekki frásögum færandi nema hvað að hún hefur verið ansi heimakær þessi elska og á erfitt með að venja sig við að vera langt frá mömmu sinni (og líklega pabba líka).  Síðustu tvö skipti hafa einmitt verið símtöl gráts og ekka og merkilegt nokk, ekki varð mikil breyting á, meira að segja var gamalt met slegið og símtalið barst ca. 4 klst. eftir að stelpan lagði af stað ;)

Jæja, við fengum svo símtal eftir kvöldmat til að taka betri stöðu á henni og það hljómaði næstum eins; "Þið getið ekki skilið mig eftir hérna!", "...ég skal meira að segja taka til í herberginu mínu!", "...allt annað en þetta!!" o.s.frv.  Auðvitað verður fullhraustur karlmaður eins og hnoðleir við svona fullyrðingar en ég hugga mig nú við að börn koma almennt ósködduð frá svona búðum og rifja svo upp mína æsku en ég var í 2 mánuði í senn í 7 ár á sömu sumarbúðunum og aldrei kom pabbi að sækja mig!  Pabbi Evu náði náttúrulega í hana við fyrsta símtal í "den" - drap þar með röksemdafærslu mína um að börn séu bara almennt ekki sótt á sumarbúðir.

Jæja, sjáum hvað símtalið í kvöld gerir fyrir okkur hjónin sem finnum náttúrulega óstjórnlega til með þessari elsku en vitum um leið hvað það er í senn asnalegt enda ekki eins og að barnið hafi verið flutt nauðugt með hervaldi í Camp Guantanamo.  Nei, lífið er nú betra en það.   

Hey já, fór austur í gær og lagaði talstöðvartakkann á vélinni (hann hafði sokkið ofaní "joystick"-ið.  Gat svo náttúrulega ekki stillt mig um að prófa smá hring og flaug inn í Grímsnes.  Ekkert sérstaklega gaman í termíkinni og vindunum en gott samt.  Maður segir eins og Geir Haarde; "Ekki sætasta stelpan á ballinu en gerir sama gagn!".  Vonast nú til að veðrið verði skaplegra um helgina - langar að fljúga hátt og langt! 


17. júní allur

Jæja, þá er sá 17. allur.  Við fjölskyldan skruppum í Hljómskálagarðinn og krakkarnir komu sér fyrir á fremsta bekk við Brúðubílinn klassíska.  Við hjónin komum okkur fyrir utan traðaksins og létum fara vel um okkur í grasinu og 17 stiga hita þar til Eva fór að ókyrrast og fylgjast með hvort börnin væru ekki örugglega að horfa á Dúsk töfratrúð og tríó en það leið ekki á löngu þar til hún kom til mín alvarleg og tjáði mér að "Mummi væri týndur".  Ég var náttúrulega hinn pollrólegasti og stóð upp og átti von á að sjá drenginn sitjandi stjarfan við undraverk Helgu Steffensen sjálfrar sem skemmti mér líklega á svipuðu reiki fyrir mööörgum árum síðan.  Onei... systir hans, þessi líka frábæra barnapía, sat stjörf en Mummi var hvergi sjáanlegur og ég hljóp um svæðið eins og að drengnum hefði verið rænt af skáeygðum karatemönnum úr bíómynd og rauk náttúrulega niður að tjörn eins og konan mín hafði varað börnin við eins og 30 sinnum á leiðinni í garðinn.  En fljótlega fann ég þó hjörðina mína, Mummi hafði fljótlega komið því á framfæri við einhverja velviljaða konu á svæðinu að hann væri týndur og hún við það að kalla okkur upp... væri það ekki týpískt?!  Nema hvað, þessi garður óttans var snarlega yfirgefinn og berjandi bumbuslagarar og blásarar færðir sem fórnir annars ágætrar byrjunar hátíðarhaldanna í miðbænum.

Við snöruðum okkur þvínæst í Hafnarfjörðinn þar sem Hafnfirðingar héldu ekki bara 17. júní hátíðlegan heldur einnig upp á 100 ára afmælið sitt.  Pólitískari gleðiræðu hef ég líklega ekki heyrt áður en Lúðvík bæjarstjóri var í essinu sínu og hugðist sækja endurkjör sitt með góðum fyrirvara og bryddaði upp á meira blómamáli en Þorvarður skólastjóri Verslunarskólans hefur nokkurn tíma gert og segir það meira en nokkur orð um blómlega málgleði mannsins.  Þeir vita hvað ég meina sem þekkja.

Eftir að hafa beðið of lengi eftir að koma drengnum í hoppkastala og hlusta á Mána og Birgittu trylla lýðinn stakk ég af austur á Selfoss og hugðist nú fljúga eins og fuglinn um loftin blá og gaf skít í smá vindaspá sem svosum er ekki stóra málið þegar kemur að flugi.  Það sem heftir för í svona veðri er miklu frekar termik sem er í raun hitauppstreymi sem kemur upp úr landinu eins og ímyndaðar risastórar loftbólur og henda flugvélum til og frá, einkum og sér í lagi þessum fisvélum sem ég er að fljúga.  Ég þurfti því að fljúga með einni og halda mér í með hinni á nokkrum stöðum en náði þó að lenda fljótlega og ákvað að segja þetta gott hvað þetta flug snerti.  

Ég kom því í bæinn og fór með krakkana á tónleika á Ingólfstorgi þar sem við hlustuðum á hana "æ hvað hún heitir Idol stjarnan með frjálslega vöxtinn og norðlenska yfirbragðið" og svo hina geðþekku Veðurguði frá ekki hverju en Selfossi.  Við náðum reyndar ekki að tóra svo lengi að heyra Bahamas  lagið góða sem er í sérstöku uppáhaldi hjá krökkunum en ballið var gott.  Heima beið mín svo thailensk veisla sem Eva og mamma hennar höfðu snarað saman af einhverjum skyndibitastaðnum og dagurinn því ágætis "success" - allir glaðir vona ég.

Ætla að skutla Viktoríu minni í sumarbúðir á morgun og skjótast svo austur og sjá hvort mér takist ekki að fljúga eitthvað meira en í dag, enda væri nánast skömm að kalla það flug sem fram fór í dag.  Reyni að taka myndir úr því flugi enda sveitin hin fallegasta núna í þessu veðri og litum sem í boði eru þessa dagana.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband