20.8.2008 | 09:53
Bjór eða kók
Það hlaut að koma að því að bjór yrði ódýr á Íslandi. Vissuð þið að 1/2 líter af Coke í 10-11 Austurstræti kostar 195 kr. en 1/2 líter af Lager (bjór) í Vínbúðinni nokkrum metrum frá kostar 182 kr. Þetta er náttúrulega ekki heilbrigt en yfirleitt kaupi ég svona flöskur í Bónus á vel undir 100 kr. Ég veit ekki hvað réttlætir svona verðlagningu en ég get fullyrt að nú sé tími "Kaupmannsins á horninu" kominn á ný því ég get ekki ímyndað mér annað en að honum yrði tekið fagnandi ef hann byði þó ekki væri nema sama verð og þessir glæpamenn.
Hitt sem ég verð að spyrja um; Hvað er þetta með Ísland og blæjubíla? Sá tvo í morgun á leiðinni í vinnuna í 11°C hita með galopna blæjuna í dúnúlpu. Ég er farinn að hallast að því að það verði fljótlega hægt að opna svona strandverslun í Lækjargötunni, svona spænska með vindsængum og sandölum. Menn sætu svo í fjörunni við Ægissíðuna í flotvinnugöllum og mokuðu svartan sand innan um skólpið, í sandölunum... svona bara fyrir lúkkið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.8.2008 | 09:40
Helgarferð og flugveiki
Helgin síðasta var hin skemmtilegasta en við fjölskyldan skruppum austur fyrir Kirkjubæjarklaustur, nánar tiltekið 25 km austar, ásamt hjúkkuklúbb Evu að Maríubakka þar sem Auja vinkona Evu og Bjarki maður hennar búa á sveitabæ. Tilefnið var það sama og flestir saumaklúbbar og uppákomur þessa hóps ganga út á; koma saman, hafa gaman, skála... og uppskera svo bara eftir því sem niður var sett. Og niður var jú sett... og upp var jú skorið.
En áður en ég útskýri það mikið frekar er gaman að segja frá staðarháttum, en Maríubakki stendur eins og áður segir um 25km austur af Klaustri og stendur á 1.400 hektara jörð sem nær að ég held frá fjallgarði niður að sjó og langt í vestur (og þá líklega jafnlangt í austur, þ.e.a.s. frá vestri... ehemm ). Þrátt fyrir þungskýjað og ómerkilegt veður lét Hvannadalshnjúkur sjá í sig af og til með stórfenglegum sólstöfum að ofan, okkur til aðdáunar. Það er nokkuð klárt mál að þangað verðum við að koma aftur í betra veðri. Bjarki, eiginmaður Auju, er semsagt orðinn hálfgerður bóndi (að eigin sögn) en ræður þarna yfir allskonar tólum og tækjum og ræktar gulrófur í bland við búskapinn. Þetta auðvitað gerir að verkum að Mummi og Viktoría fengu að sjá heimalninga drekka úr pela, hræða líftóruna úr einhverjum aumingja hænum (sem höfðu þegar lent í öðrum heimilishundinum) og hlæja hrein ósköp af "kindakúk" sem lá á víð og dreif um sveitina. Ég held hreinlega að börn fái að sjá of lítið af sveitinni þegar þau alast upp í borg og það hugsa ég að sé engum hollt. Ég nefnilega var svo heppinn að pabbi hafði lúmskt gaman af sveitinni og við áttum frændfólk á bæjum hingað og þangað. Því fékk ég reglulega að sjá þegar beljum var sleppt út að vori og ekki skemmdi fyrir að ég átti frænku fyrir norðan þar sem ég sótti sumarbúðir og þar fékk ég að kynnast hestum og sveitinni eins og þau hjónin þekktu hana. Hæfilega góð blanda úr báðum áttum; kristilegt uppeldi á Ástjörn og svo sleppt til Tryggva á Hóli sem reykti eins og strompur og blótaði meira en harðasti togarasjómaður.
Á laugardeginum byrjaði dagskráin á göngutúr um sveitina og þvínæst var jafntefli við dani fagnað ógurlega. Þvínæst var svo farið í sund á Klaustri á meðan hjúkkurnar fengu að skoða Heilsugæsluna á svæðinu. Því miður fengum við karlarnir ekki að skoða... ó þú ósanngjarna veröld! Að loknu sundi og ómældri ánægju sonar míns af hárþvotti dagsins, fórum við til baka og hófum að undirbúa grillveislu kvöldsins sem endaði vissulega í fortjaldspartíi og tilheyrandi óstöðugum en áhrifamiklum danssporum hjúkkanna.
Á sunnudagsmorguninn var ákveðið af hinu æðra að ég skyldi vera píslarvottur dagsins og þar með taka á mig hausverk fyrir allar hörmungar alheimsins síðustu 10.000 árin. Og allt þetta fyrir 10-12 bjóra! Tel a.m.k. sanngjarnt að ég fái einhvern platta hið efra fyrir þetta... get ekki ímyndað mér að Jing og Jang eða hvað þetta jafnvægisdót heitir hafi verið í miklu jafnvægi þennan daginn. Svo fær maður sér pillu og allt er í himnalagi eftir 30 mínútur eða svo. It's so good to be back... alive.
Já og svo að lokum. Flugvélin mín er veik. Upp komst um veikindin þegar Steini Tótu, flugvirkinn minn, var að vinna í vélinni. Svo virðist sem að kveikjukerfi vélarinnar sé ekki við fulla heilsu (það er svosem ekki mitt heldur) og til að laga það þarf líklega að kaupa varahluti fyrir einhverja tíuþúsundkalla. Venjulegt viðhald skráist það víst og ekkert annað en að ganga í málið. Af þessu leiðri að mannfólkið er semsagt eins og flugvélar: Þegar hættir að neista þá þarf víst viðhald. Á meðan er fólki óhætt að tala við mig þar sem ég er ekki vís til þess að bjóða viðkomandi í flugferð.
Annars er allt gott að frétta af öllum hér í Einarsnesinu. Eitthvað hústökufólk við hliðina á okkur (sem fékk lánað húsið og býr í New York) hefur verið með stanslausar samkomur í húsinu og bílastæðin alltaf full eins og að það sé verið að ferma eða gifta. Ekki bætir úr skák að hjallurinn fyrir framan okkur er nú stútfullur af einhverjum gargandi spánverjum sem eru hérna í einhverjum sjálfboðaliðastörfum fyrir húseigandann. Ég á því von á einhverjum uppákomum næstu daga, byrjaði eiginlega í nótt um kl. 2 þegar þeir ákváðu að prófa trampólínið með tilheyrandi látum. Sjáum hvað setur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.8.2008 | 09:56
Góðir farþegar, vinsamlegast gangið um borð!
Jæja, miklum áfanga náð í gær. Farþegaréttindin staðfest og stimpluð í flugskírteinið mitt. Þetta þýðir semsagt að ég má núna formlega fljúga með farþega um loftin blá. Fáum dettur líklega í hug að fara upp í flugvél með mér, tja í það minnsta fyrst um sinn, en ég get lofað ykkur að vandað hefur verið til verks. Ég hef núna að baki yfir 70 tíma flugreynslu sem er ansi gott miðað við flesta sem taka sín farþegaréttindi. Þetta kann vissulega að hljóma illa, enda hefði einhver sagt mér að hann væri frábær lögfræðingur af því að hann hefði tekið 8 ár í að klára fjögurra ára námið, hefðu runnið á mig tvær grímur. Vona að lesendur mínir viti betur, jafnvel þó það væri bara gert af aumkun :) Annars er þetta ágætt fyrir flóru adrenalínsjúkra enda hér komin kærkomin viðbót við teygjustökk, fallhlífastökk, flúðasiglingar o.fl. Semsagt; "Flug með Frosta".
Eva, betri helmingur minn, á 18 ára tvíburabræður sem eru skondin eintök. Þeir eru ofsalega líkir þótt að blessunarlega sé það að breytast hægt og rólega. En ég kynntist þeim fyrst þegar þeir voru á leikskólaaldri og allt frá þeim degi hafa þeir verið sem ein sál þegar kemur að því að upplifa hluti. Tómas gat t.d. ekki horft á flugelda út um gluggann um áramót nema að kalla á Stefán bróður sinn til að upplifa útsýnið. Og öfugt. Svona dálítið eins og gin og tónik. Og þetta hef ég verið að upplifa á flugi undanfarið. Ég get huggað mig við að heyrnartólin í flugvélinni leyfa mér að heyra blaðrið í sjálfum mér og þannig get ég leikið ótrúlegustu karaktera einn og með sjálfum mér. Og sungið! Þetta er svolítið farið að líta út eins og eintak á geðdeild þegar maður er farinn að leika Anton flugstjóra og aðstoðarflugmann hans (sem svo eftirminnilega var leikinn af Sigga Sigurjóns).
Annars eru þónokkrir á listanum sem vilja fá að fara rúnt og því held ég að ég verði ekkert í vandræðum með félagsskap. Ísland er fallegt en ennþá fallegra úr lofti. Hlakka til að upplifa það með ykkur. Ég lofa ykkur samt að ég mun ekki syngja!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.8.2008 | 15:31
Pæjumót og ehemm... flug...
Þá er sumarfríið að mestu að baki og hefðbundin aðalfundarstörf hafin í Einarsnesinu. Við hjónin snerum aftur til vinnu, Mummi fór aftur í leikskólann en Viktoría fær að njóta lífsins eitthvað örlítið lengur og sækir skátanámskeið þar til skólinn hefst á ný. Að koma Mumma á leikskólann er samt búið að vera dálítið eins og að fá alka til að sleppa hönd af flöskunni enda litli gaur farinn að fíla lífið svona með alla athyglina, súkkulaðikex í morgunmat (óumbeðið vissulega) og teiknimyndagláp í óhófi. En þetta er allt að koma.
En frásögum er þó fremur færandi helgarferð okkar hjóna á Siglufjörð þar sem Viktoría Lovísa okkar keppti með 6. flokk KR-kvenna í knattspyrnu (skammstafað KKK... neeeiiii), en þar fór fram hið árlega Pæjumót. Viktoría fékk að fljóta í með vinkonu sinni á fimmtudeginum til að geta tekið þátt í leikjum föstudagsins en við hjónin stungum af eftir vinnu á föstudeginum og vorum komin á Siglufjörð seint um kvöld. (Þetta var auðvitað eftir að Eva hafði gengið úr skugga um að foreldrar vinkonunnar væru nú örugglega á einhverju "CE" (Certified by Eva) merktu ökutæki, en Toyota Hilux, 2008 árgerð, á 35 tommum fellur einmitt undir þá skilgreiningu). Þar tjölduðum við innnan um önnur KR foreldri sem slógu með móttökum sínum á þrálátan ótta okkar um að þetta yrði eitthvað bindindismót með öllu tilheyrandi. Hikk og skál fyrir því.
Viktoría, sem af sínum víðfræga aðskilnaðarkvíða hafði hringt í okkur samviskusamlega á klukkustundarfresti og kannað hvort við værum nú ekki alveg örugglega að koma, var ekki lengi að sannfæra móður sína um að fá að gista hjá okkur sem var auðvitað sjálfsagt. Við spjölluðum svo eitthvað frameftir kvöldi við þessa ágætu samkomu og fórum svo að sofa eftir að hafa drekkt sorgum dagsins en B-lið KR (lið Viktoríu) tapaði sínum tveimur leikjum. Huggun harmi gegn hafði A-liðið unnið sína. Undarlegt hvernig B-liðið var þarna "til að vera með og hafa gaman af" en A-liðið hafði einhvern veginn fengið "hva auðvitað komum við hingað til að vinna!!! komasssoooo" stimpilinn. Líklega eins merkingarlaust og "rigningin er svo góð fyrir gróðurinn".
Daginn eftir var svo haldið inn í dal þar sem mótið fór fram. Viktoría kom hin sprækasta og ætlaði sér stóra hluti með liðinu þennan daginn. Ég, þessi líka fótboltaóríenteraði spesjalisti, mætti á hliðarlínuna og ætlaði nú heldur betur að horfa á þessa æstu foreldra orga úr sér lungu og líffæri og úthúða dómaranum svo hann ætti ekki afturkvæmt ef úrslit yrðu ekki liðinu hagstæð. Dómarinn flautar til leiks og eitthvað ónýtt lið frá einhverju dreifbýli att nú kappi við dóttur mína... verulega spennandi . Ég sver það að það liðu líklega ekki meira en 30 sekúndur þar til ég hafði fundið ímyndaðan símaklefa, rokið inn í hann á hljóðhraða, rifið mig úr hversdagslega áhorfandaklæðnaðinum, smeygt mér í ímyndaða KR "outfittið" og rokið þvínæst á miðja hliðarlínuna við hlið þjálfarans. Og gerandi nema hvað? ORGAÐ úr mér lungun einhverjar setningar sem ég vissi ekki að ég ætti til í bankanum... "Í boltann!!!", "Gef'ann", "Spila upp völlinn", "Gefa fyrir" og fleiri vitsmunalegar setningar ruddust hreinlega upp úr mér um leið og ég skráði hverja einustu setningu sem heyrðist frá öðrum foreldrum á listann. Um tíma komst þjálfarinn ekki að og ég varð eiginlega (þó án ábendinga) að hafa mig hægan svo hann fengi nú smá séns á að stjórna liðinu. En ég get alveg sagt ykkur að þetta þurfti! Já þetta þurfti svo sannanlega! Önnur hver þessara stelpa átti það til að standa og glápa út í loftið af og til, nú eða það sem verra var, þorði ekki í boltann... hljóp bara svona með eins og það það væri kominn tími til að "jogga" með hinu liðinu (já, dóttir mín er samsek). Það þurfti semsagt mikinn innri sannfæringarkraft til að öskra hreinlega ekki á suma foreldrana sem horfðu bara með aðdáun á börnin sín þarna... sem á endanum eru bara 8 og 9 ára gamlar stelpur sem eru rétt að kynnast íþróttinni og koma til að eiga skemmtilega stund með öðrum 8 og 9 ára stelpum.
Og þarna stóð ég horfandi út í loftið að hugsa þetta á meðan stelpurnar skoruðu mark . Ætli athyglisbresturinn sé smitandi?
Já og þær skoruðu mark... og annað. Og ekki nóg með það, þær unnu næstu tvo leiki líka. Skyndilega varð mottóinu að "vera með og hafa gaman af" vikið fyrir hið mun skynsamlegra og þjálla "koma og sigra. Allt mér að þakka auðvitað (eða það fannst mér) og liðið allt annað og samheldnara fyrir mín orð (eða það fannst mér).
Við Eva fórum þvínæst niður í tjaldbúðir þar sem slegið var upp pylsupartíi og báðum liðum fagnað. Að því loknu fór Viktoría með hópnum í mat og sund en hjá okkur tók við 2ja tíma miðdagsblundur með Mumma á milli, og það er ekki slæmt skal eg segja ykkur. Síðar um kvöldið var svo grillað og hið forna og sænska Kubb spil spilað fram eftir nóttu. Fyrir þá sem vilja kynna sér það geta farið hingað: http://www.oldtimegames.com/
Þrátt fyrir öskur mín daginn eftir varð nú því miður svo að stelpurnar töpuðu sínum tveimur leikjum. Og Viktoría mín sem ætlaði sér nú heldur betur að standa sig var farin að efast um sjálfa sig. "Ég gerði ekkert gagn á vellinum" varð til þess að ég þurfti að endurskoða taktíkina sem snerist í einni hendingu úr því að vera froðufellandi öskur og fótstapp á hliðarlínunni í hefðbundnara faðmlag og hughreystingarorð sem voru eitthvað mildari en skrifuð höfðu verið að öskurlistann. Dóttir mín er reyndar svo sterk í mótvægi að ég held að það sé hreinlega henni auðveldara að tapa en að vinna. Hún átti því ekki í nokkrum vandræðum með að hughreysta pabba sinn með orðunum "það skiptir mestu að vera bara með" og samfagna svo með vinkonum sínum í A-liðinu þegar þær sigruðu svo Pæjumótið með glæsibrag. Ég, pabbinn sem "geri ekki mikið gagn" í fótbolta, vona að ég geri meira gagn í að vera pabbi. Ætlli ég þurfi samt ekki að rifja upp einhver grunnspor í garðinum með börnunum og sækja leiki (fínn í að öskra eins og áður segir), því ég hef í alvörunni fulla trú á að Viktoría geti orðið mjög frambærileg í fótbolta ef hún byggir upp örlítið meira sjálftraust og fer að spila meira með liðinu.
Heimferðin var þægileg þrátt fyrir mikla umferð. Fengum okkur að borða á Pottinum og pönnunni á Blönduósi (því annars bölvaða plássi ... já ég mun aldrei sætta mig við lögregluna þar) og fórum svo í sund í Borgarnesi í næstum 20°C hita og sól. Þegar við komum svo í bæinn fór ég rakleiðis upp á flugvöll og gerði nokkrar breytingar á mótorstillingum og fór svo í langþráðan flugtúr (alveg síðan á fimmtudag). Ég ætlaði að skoða umferðina úr lofti og þá sérstaklega við gangnamuna Hvalfjarðargangnanna en lenti ég í svakalegri ókyrrð við Esjurætur að ég þurfti að snúa við. Ég hugsa að Eva mín hefði ekki viljað vera með í þeirri ferð. Ég tók í stað þess stefnuna á Sandskeið og þvínæst inn að Bláfjallaskála sem ég hafði lengi ætlað mér að skoða úr lofti. Ágætis flug í alla staði og skemmtilegt. Mun taka myndavélina í næstu ferð til að leyfa ykkur að njóta en hleðslutækið gleymdist í Svíþjóð en er á leiðinni heim (eins og Halim Al).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.8.2008 | 17:02
Kominn heim...
Rétt get ég ímyndað mér hversu mikið þið lesendur góðir hafið saknað mín undanfarið. Ástæðan er ekki þið, heldur fór ég til Skandinavíu í sumarfrí. Auðvitað ætlaði ég að blogga daglega og senda inn myndir en þar sem ég eyddi mestum tíma mínum í sænskri sveit þar sem netsamband er álíka hraðvirkt og íslensk stjórnsýsla, þá var ekki tíma í það eyðandi að ræsa nettenginguna, hvað þá að ráðast í ritstörf. Ekki hjálpaði 30 stiga hitinn og því varð úr að ekkert var bloggað þá ferðina.
En ferðin var góð. Við fjölskyldan byrjuðum á að heimsækja Rakel (systur Evu) og Badda í Köben og fengum að berja nýfætt barn þeirra (augum að sjálfsögðu) og vorum sótt á limúsínu þeirra hjóna út á Kastrup flugvöll af tengdapabba sem hafði gert sig heimakæran á þeim bænum. Baddi er nefnilega orðinn yfirstrumpur hjá Íslandsflugi í Kaupmannahöfn og hefur það hreint ekki slæmt og er allur hinn sælasti með lífið og tilveruna ásamt spúsu sinni með nýfædda soninn við bakka Dónár, Rínar eða hvað þessi skurður nú annars heitir. Kanallinn var hann víst kallaður meðal okkar "ekki-fræðimanna". Skemmtileg Feneyjarstemmning þarna og ofsalega fínt útsýni í allar áttir. Já, ekki amalegt að geta setið og horft á danska Tuborgsullandi allsbera strípalinga skoppast um á Íslandsbryggju... í bland við sólarlagið auðvitað. Það verður víst ekki tekið af þeim hjónakornum að þau kunna að koma sér fyrir, þótt það virðist úr fjarlægð eins og þau eigi erfitt með að ákveða sig; Danmörk, England, Ísland, Noregur, Danmörk... vonandi að þau komi samt heim á endanum. En íbúðin þeirra er öll hin glæsilegasta enda nánast eins og að við hjónin hefðum hannað hana :) ... sama eldúsinnréttingin, sömu barstólarnir, nánast sami sófinn, hehe. Ekki skemmir að handan götunnar er Fisketorvet verslunarmiðstöðin og McDonalds að sjálfsögðu fyrir Badda.
Eftir heimsóknina stungum við hjónin af til hitt aumingjaelskandilandið, næsta land semsagt, Svíþjóð. Þar kostar allt minna nema bjór ... og áfengi. Já, Svíar er merkileg kvikindi. Hafa tileinkað sér menningu annarra landa í hvívetna, t.a.m. þjónustulund frakka (sem er engin), viðbragðshraða dana (sem er engin), jafnréttisstefnu Kúbverja og þar fram eftir götunum. En veðrið er fínt og það að búa úti í sveit, þar sem enginn lifandi svíi sýnir sig, er fínt. Við nefnilega erum svo heppin að hafa aðgang að húsi foreldra minna í Svíþjóð, svona einskonar sumarhúsi. Þau hjónin keyptu gamlan bóndabæ og gerðu upp fyrir nokkrum árum síðan og þar er ofsa gott að vera. Öll aðstaða til alls, svefnpláss fyrir 14, gestahús, stærðar garður o.s.frv. Auðvitað er ekkert fullkomið í þessum heimi en fyrir henni Evu minni er þarna stórfljót (árspræna sem gengur í gegnum landið), geitungar á stærð við haferni (henni finnst það) og svo þessi bölvuðu "festning" eða "tick", einhver ósýnileg dýr sem bera með sér svarta-dauða (ef ég skildi latnestu heitin rétt) og er erfiðara að fjarlægja en vinstri græna af þingi. Semsagt... paradís!
Við gistum þarna næstu dagana og notðum tímann til að leyfa krökkunum að njóta sín í garðinum, svolgruðum í okkur sænskar dýrindis veigar og "meððí", og teygðum úr okkur í sólinni á pallinum. Ég, þessi rólyndistýpa og náttúruelskandi mannvera, hafði ekki einu sinni fyrir að tengja loftnetið við sjónvarpið (sem var einöngu notað til hugeflismeðferða fyrir börnin okkar og gestkomandi)... jahá!, stalst aðeins nokkrum sinnum á netið í gegnum gemsann. Þetta hús er nefnilega úti í skógi (þótt það sé ekki beint úti í hinu svokallaða "Rassgati") en af þeim sökum geta afslöppuðu sænsku kjötbollurnar hjá Telia ekki hugsað sér að leggja mannsæmandi símalínur að bæjunum, þrátt fyrir þeirra alþekktu janfréttisstefnu. Ég vissi það nefnilega ekki, en hún gengur meira út á að allir eigi að hafa það jafn skítt.
Við vorum ekki búin að vera lengi á herragarðinum fyrr en að við fengum óvænta heimsókn en þar voru á ferðinni Tryggvi frændi minn og Katý kona hans ásamt tveimur börnum þeirra. Þau voru á "roadtrippi" um Svíþjóð og nærliggjandi bæli og ákváðu að stinga inn höfðinu sem auðvitað endaði með heljarins matarboði og neyslu áfengra drykkja. Það er náttúrulega ekki tækt að bjóða fólki í mat út í skóg, úti í "eiginlegaekkirassgati", og senda það svo aftur heim. Nei... nóg er plássið og þessir þreyttu ferðalangar hvíldu beinin í sveitinni og héldu svo áfram daginn eftir. Kærkomin heimsókn og skemmtileg enda hafði ég ekki séð þau fjölskylduna í mörg ár og þar sem þau búa reyndar úti í norsku rassgati, Bergen nánar tiltekið, hefur maður ekki beint átt leið um sveitina þeirra til svona hittings.
Svo eyddum við næstu dögunum í að heimsækja dýragarðinn á Skáni o.fl. spennandi og fórum svo til Malmö til Siggu systur þar sem hún býr glæsilega í veglegu húsi á besta stað í göngufæri við ströndina. Ofsa gott að koma þangað því þar er gert ráð fyrir brjáluðum börnum... og ég á nefnilega svoleiðis :) Börnin fá semsagt stórt leikrými þar, fullt af allskyns leikföngum, og svo fer maður bara út í garð og fær sér öl og vonar að þau slasi sig ekki (alvarlega). Og svona setningu á maður bara að enda eins og Birgir Bragason ökuþór og akstursíþróttakynnir sagði alltaf svo skemmtilega: "Sem er mjög gott að mínu mati".
Frá Malmö fórum við svo í nokkra "skreppitúra". Fyrstu var túr til Köben þar sem við hittum tengdó og fórum í siglingu um ofangreinda á, Volgu... eða hvað hún heitir, og sáum Köben frá öðru sjónarhorni. Fórum svo í land við Nýhöfn og keyptum rándýran hamborgara, rándýrar franskar, rándýra bjóra og rándýran ís í eftirrétt. Svo fórum við í göngutúr um svæðið og skoðuðum einhverja 13 ára sumarvinnustarfsmenn marsera við konungshöllina en drottningin var víst ekki á svæðinu til að taka á móti okkur. Ég held reyndar að hún hafi látið sig hverfa eftir að reykingar voru bannaðar á opinberum stöðum í Danmörku nú nýverið. Held að hún dvelji flesta daga á Portúgal þar sem þær eru ennþá leyfðar. Svo kíkir hún bara við með níkótíntyggjó þegar hún þarf að aðla einhvern eða slá til riddara. En höllin er fín og Kristján X tignarlegur á hestbakinu, en þetta var svona það eftirminnilegasta í göngutúrnum. Það er nefnilega þannig þegar maður er með börn (sko okkar týpu af þeim) að maður man ferðina eins og mors kóða... Mummi hættu - Mummi!! - Viktoría, viltu láta bróður þinn vera - Ekki þarna drengur - Viltu láta byssuna hans vera!!! - ekki svona í framan! - nei bakkaðu - svona! já... - Viktoría!! ... o.s.frv... og svo koma smá glefsur; "vá flott höll!"... og svo aftur "Mummi!!! ekki bíta hana systur þína!! - Viktoría, nennirðu að vera góð við hann... þar til að þau fá ís eða nammi og gleyma sér í eins og 5 mínútur. Eftir þetta hittum við svo Rakel og Badda ásamt litla kút og fengum okkur öl við bakka Thames... nú eða hvað hún þá heitir. Fórum svo með hlykkjum aftur til Malmö og gistum þar.
Daginn eftir fórum við í Legoland. Þar mega danir eiga að sá garður gefur Disneyworld ekkert eftir (nema þá kannski í stærð og umfangi). Flottur garður og skemmtilegur í alla staði og krakkarnir skemmtu sér vel. Svona getur ferðaþjónusta virkað segi ég... skemmtigarður úti í dönsku rassgati og ekki kæmi mér á óvart að Billund-flugvöllur væri byggður út af þessum garði meira og minna. Ótrúlegt að sjá hvað þeir gera líkönin vel og smíða þau nákvæmlega. Nærðum börnin og komum á endanum við í búð þar sem við fylltum bílinn af ódýru áfengi áður en við stungum af aftur til Malmö.
Þessu næst héldum við í þriðju ferðina til Danaveldis þar sem við heimsóttum Ellu og Atla vinafólk okkar, en þau búa í litlum vinalegum bæ rétt utan við Köben. Við ákváðum að hitta þau á ströndinni en skammtímaminnið mitt (sem er ígildi gúbbífisks) leiddi okkur á aðrar slóðir en þau voru þó ekki lengi að hafa upp á okkur og saman fórum við heim til þeirra. Þar leigja þau ofsa fínt hús með glæsilegum og stórum garði en eru sorglega að kveðja það pláss þar sem þau eru að flytja heim í enda sumars. Við fengum því að dvelja hjá þeim um nóttina og eyða með þeim degi á ströndinni daginn eftir. Kærar þakkir fyrir það.
Nú eftir þetta var komið að því að kveðja og stinga af aftur til Svíþjóðar þar sem við dvöldum svo síðar í sumarhúsinu áðurgreinda. Þar höfðum við uppi á frábæru vatni með strandaraðstöðu og öllum munaði þar sem við eyddum næstum tveimur dögum á, en í millitíðinni komu Guðrún systir og Hössi hennar í heimsókn ásamt vinafólki sínu frá Danmörku. Það eru elskulegustu íslendingar og komu með börnin sín með sér sem léku sér svo við Mumma og Viktoríu. Fín blanda það. Ég komst reyndar að því að mágur minn verðandi er meiri nörd en ég þorði að trúa en þessi vinur hans er það líka og saman spila þeir eitthvað illskiljanlegt spil sem færir þá í heim vampíra og varúlfa en menn þurfa held ég að vera á tiltölulega sterkum lyfjum til að geta tekið þátt eða stundað svona spilamennsku... eða það held ég. Já, nörðurinn mágur minn er ekki bara þenkjandi um alla heimsins geima heldur er hann líka að spila "Roleplay". Það bjargar þó málum að allir spilum við hina alþjóðlegu afþreyingaríþrótt "glasalyftingar" og þannig náðum við að "bonda" líkt og bræður fram á rauða nótt.
Næsta dag tókum við til og gengum frá húsinu og komum okkur aftur til Malmö. Þá sóttum við Siggu systur og David hennar út á völl og svo var haldin heilmikil veisla og svo tóku við strandarferðir næstu tvo daga og innkaupaferðir í kjölfarið. Siggu systur þykir nefnilega ekkert leiðinlegt að versla. Hún er eiginlega þindarlaus þegar kemur að því að versla. Hún er náttúrulega týpískur kvenmaður, verslar, eyðir, skipuleggur allt og á 100 skópör (í það minnsta). Þess utan er hún ofsa góð móðir og svo hatar hún svía. Hið fyrrnefnda er nefnilega ekkert svo sjálfsagt.
Já, það var gott að koma til ykkar allra, hitta þetta fólk og fá að eyða með því tíma og ánægjulegum stundum. Krakkarnir okkar fengu að upplifa og sjá fullt af hlutum og voru alsæl með ferðina. Þegar maður lítur til baka, þá voru þau meira að segja bara hin þægustu... a.m.k. þegar þau sváfu. Það er nefnilega þannig með börnin mín ... og Evu.
...og meira að segja ég slappaði af.
Bloggar | Breytt 6.8.2008 kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.7.2008 | 11:30
Af því að þú nefndir Val!
Tengdapabbi kommentaði á síðusu færslu og sagði hvað fótbolti væri nú spennandi og nefndi nátturulega Val í því samhengi. Ekkert lið er betra að hans mati en Valur (á Íslandi þ.e.a.s.) og Liverpool (annarsstaðar). Ég kannaði því málið og ákvað að hlusta á leik Breiðabliks og Vals í lýsingu Valtýs Björns nokkurs íþróttafréttamanns og stórmennis mikils. Ég læt duga að birta þriggja mínútna samantekt af lýsingunni (og tel það alveg nóg fyrir fólk með meðalgreind og í ágætu andlegu jafnvægi):
Það er náttúrulega ekki hægt að saka manninn um áhugaleysi en hann reynir bókstaflega allt til að gera þessa lýsingu spennandi í fullar 90 mínútur. Svona er fotboltnn nú spennandi... og það með Val öðru megin línunnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.7.2008 | 16:22
Ég hef lítinn áhuga á fótbolta...
...en þetta 5 minútna videó gerir það ögn skemmtilegra að horfa á hann:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.7.2008 | 15:34
Sumarblíða í Einarsnesi (og nátturulega flugfréttir)
Veðurblíða síðustu daga er náttúrulega ekki skv. öllum íslenskum reglubókum en til að gæta alls velsæmis þá hafa æðri máttarvöld skellt á okkur þoku svona við og við til að menn tapi sér hreinlega ekki úr kæti hérna í henni Reykjavík. Það er nefnilega þannig að þetta veðurfar hefur t.d. passlega góð áhrif á hlutabréfaþróun, sérstaklega í sumarbyrjun. Ég er nefnilega búinn að komast að því að íslenskur hlutabréfamarkaður ræðst af tveimur breytum; veðri og föstudögum. Já, takið bara eftir því að þegar þessir RangeRover akandi jakkafatauppar og millar (millistjórnendur banka) uppgötva það að föstudagur sé runninn upp fara þeir einhvern veginn að hugsa um allt annað en hlutabréfaþunglyndisástandið á Íslandi. Jájá, kaupa bara í Existu og DeCode... og selja bara í Landsbankanum og Eimskip svona til að breyta svolítið til. Já og veðrið gerir þetta sama. Ef sólin skín í að vori þá tryllast verðbréfamiðlarar eins og beljurnar þegar þeim er sleppt út og virðast kaupa grimmt á uppsprengdu verði og Úrvalsvísitalan góða hækkar nær undantekningarlaust.
En allt er best í hófi. Timburmenn veðurveisla líkt og undanfarna daga gera það líka oft að verkum að hlutabréfavísitölur lækka.
Annars er þetta alveg nóg um hlutabréf enda held ég að þetta séu nú ekki meiri vísindi en laxveiðimanna. Of mikið vatn í ánni... of lítið vatn í ánni... of kalt... of heitt... rigning... sól... skýjað. Allt eru þetta hin fullkomnu skilyrði til að veiði fokkist upp... nema þegar vel gengur auðvitað.
En af því verður samt ekki skafið að veðurblíðan í Einarsnesinu er búin að vera ótrúleg síðustu daga og pallurinn því farinn að verða hin ágætasta fjárfesting. Í fyrradag grilluðum við Eva dýrindis lambakótilettur og buðum pabba og mömmu í mat og borðuðum úti!. Já úti! Magnað alveg hreint. Og þessi fífldirfska var framkvæmd án hlífðarbúnaðar s.s. teppa, úlpa, kuldagalla, o.s.frv.
En hvernig væri þessi saga ef það væri ekki einhver hængur á? Mumma tókst náttúrulega eins og honum er reyndar einum lagið að klappa 300° heitu grillinu og brenna á sér hendina. Það var svosum ekkert sem tveir frostpinnar löguðu ekki. Brennt barn forðast eldinn... vona ég.
Í gær fór ég svo eftir vinnu austur á Selfoss þar sem Sindri Sigurjónsson frændi minn og flugvirki aðstoðaði mig við að setja nýja gummíhosu á blöndunginn í fisvélinni minni og nýja loftsíu. Hann fékk svo að fljúga með Þóri enda er hann að gera sig kláran til að fljúga sjálfur. Við skruppum á Hellu og svo flaug ég í bæinn og kom vélinni fyrir á Grund. Mikið af mannskap á Grund enda veðrið hið ákjósanlegasta í alla staði.
Flugtímarnir mínir héðan í frá teljast formlega í flugskírteinið mitt og því vantar mig aðeins 20 tíma til þess að geta farið að taka farþega. Efast nú um að geta staðið við loforð mitt við Davíð mág minn og flogið með hann hérna heima en á líklega eftir að geta flogið með farþega í ágúst. Það verður eftir að ég kem heim úr fríi okkar fjölskyldunnar til Skandinavíu þar sem við ætlum að dvelja í Svíþjóð og Danmörku og sjá nýja erfingja Rakelar og Badda í Köben.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.7.2008 | 14:38
Að kunna að fljúga ... eða ekki
Hálfdán Ingólfsson er mörgum flugmönnum að góðu kunnur fyrir snilli sína og hæfni þegar flygildi hverskonar eru undir hans stjórn. Hann prufuflýgur flestum fisvélum sem hingað koma og tekur út fjölda fisflugmanna á hverju ári. Þess utan er hann bæði flugkennari og flugstjóri hjá Örnum flugfélagi. Það er svolítið magnað að sjá manninn fljúga og hvað þetta er eitthvað sjálfsagt í höndunum á honum og hérna má sjá dæmi um þegar Hálfdán, eða Halli, prófaði Skyrangerinn hans Árna Gunnars fyrir nokkrum árum:
Þessi hérna kann hinsvegar ekki að fljúga, hvorki eins og Hálfdán né vængbrotinn fugl. Reyndar var hann ekki einu sinni byrjaður að fljúga þegar þetta gerðist:
Hvort tveggja eru aðferðir sem ég hef ákveðið að sleppa því að prófa, a.m.k. sú síðari (og síðri).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jæja, þá er glæsilegri flughelgi að ljúka. Ég byrjaði hana snemma á laugardagsmorgunn þegar ég sótti jeppa föður míns svo Eva gæti dregið sumarbústaðinn í Húsafell þar sem við ætluðum að eyða helginni. Þar sem þessi helgi var svo "mín helgi" stakk ég af austur á Selfoss til að setja nýhreinsaða loftsíuna á vélina aftur eftir "overhaul". Ég pakkaði öllu dotinu saman fyrir flug, myndavél - checked, batterí í headset - checked, GPS trackerinn - checked, o.s.frv. Svo brunað austur og þegar í skýlið var komið hafði bansett loftsían náttúrulega orðið eftir! Hvar var ég aftur að smíða geimflaugar?! Jæja, eftir að hafa rifið síu úr óheppinni vél í skýlinu okkar og sett í 134 var mér ekki til setunnar boðið og henst í loftið og stefnan tekin á Reykjavík áður en haldið yrði vestur. Ég líka búinn að setja bensín á 30 lítra brúsa fyrir langflugið og allt reddí. Já... planið var að fljúga hópflug á Vestfirði þar sem meiningin hjá liðinu var að gista svo einhversstaðar á leiðinni og fljúga til baka á sunnudegi. Ég ætlaði reyndar bara að elta hópinn eitthvað áleiðis og snúa aftur í Húsafell til minnar heittelskuðu og barnanna því ég fæ eitthvað útúr því að sofna seint og vakna snemma :|
Já, semsagt, út á braut og beint í loftið enda sól og blíða og baaaara gott flugveður. Tékklistinn var semsagt tekinn í loftinu þegar betur gafst tími til :). Ég var kominn í ágætis hæð yfir Kambabrún og rétt að tékka á þessu, bara byrja auðveldlega; Loftsía - checked... smá grín... mótorhiti - OK, hraði - OK, hæð - OK, radíó - OK... semsagt allt ok... já og bensín - OK! Og auðvitað voru varabensínbirgðirnar í farþegasætinu... eða hvað? Geimeðlisfræðingurinn ég var náttúrulega búinn að gleyma því á Selfossi og þetta dömur mínar og frúr er ástæðan fyrir að ég þarf að vera kvæntur, án þess að hjónaband mitt sé kvöð, nema þá kannski helst á Evu mína. Ég þarf beinlínis á konunni minni að halda eins og lífverur þurfa súrefni. Enda var það nánast eftir bókinni að þegar ég hringdi í hana og sagði henni að ég hefði gleymt árans ofangreindri loftsíunni þá sagði hún náttúrulega "Oh, ég ætlaði að minna þig á þetta... datt þetta í hug..." o.s.frv. Eva veit held ég ekkert hvað loftsía á flugvel er en samt tókst þessari völundarsmíð einhvern veginn að skynja það að ég myndi gleyma þessu "stykki" sem ég hafði dundað mér við að hreinsa í bílskúrnum daginn áður. Spurðu Evu hvaða afmælisdag einhver öldruð frænka hennar á og hún getur nefnt þér hann, líklega á hvaða vikudegi hann lendir og líklega þá tvo til þrjá aðila sem eiga afmælisdaga næst þessari manneskju. Magnað alveg hreint.
Nema hvað... ég flaug "á hljóðið" og byrjaði að pikka mótordrekastrákana upp í Borgarfirðinum eftir að hafa þurft að lágfljúga allt Kjalarnesið, yfir Hvalfjörð og inn að Borgarnesi þar sem loksins leysti úr skýjahulunni. Við tók heiðskýr Norðurárdalurinn og ótrúlegt útsýni alla leið upp á Vestfirði í aðra áttina og yfir á Langjökul og nærliggjandi jökla og fjöll í hina. Þegar ég nálgaðist svo Hrútafjörðinn ofan af Holtavörðuheiði heyrði ég strákana vera að leita að lendingarstað og lenti svo með þeim á þjóðveginum við Brú, nokkrum vegavinnumönnum og olíubifreiðastjórum til mikillar undrunar. Pylsuétandi hnébuxnaklæddum túristum á Brú fannst mikið til koma og sögðu Ísland ótrúlega frjálslegt og að þetta yrði aldrei leyft í Chicago þaðan sem þau kæmu. Nei í alvöru?! Að bensínáfyllingu lokinni tók svo við áframhaldandi flug á Hólmavík með tilheyrandi lágflugi þar sem við upplifðum fegurð Hrútafjarðar og margbrotið fugla- og dýralíf. Ætli ég hafi ekki séð um 300 seli á tveimur skerjum og var það bara brot af þeim sem ekki voru þegar á sundi eða annarsstaðar. Því miður náði ég ekki neinum spes myndum af þessu akkúrat, en myndirnar úr ferðinni eru nokkrar ansi góðar engu að síður (sjá picasavefinn). Þegar á Hólmavík var komið var lent á flugvellinum þeirra og tekið smá pissustopp og nýr farfugl boðinn velkominn í hópinn en það var Elmar á TF-119, glæsilegum Kitfox sem hann keypti frá USA fyrir um 3 árum síðan. Ég kvaddi hópinn og hélt til baka í Húsafell þar sem Eva ætlaði svo að hitta mig.
Á leiðinni heim setti ég vélina í um 4.000 fet og "trimmaði" (rétti hana af fyrir beint flug með stillingum, svona fyrir þá sem ekki nenna að setja sig inn í flugmálið) og fór svo bara að taka myndir, brjóta saman föt og pakka lausum hlutum í flugtöskuna enda ekkert betra að gera á svona langflugi. Þegar ég svo fór að nálgast Húsafell gat ég flögrað aðeins um þar sem Eva var ennþá ókomin og svo elti ég hana uppi á endanum og fylgdi í lágflugi síðustu 2-3 kílómetrana. Svo var lent og Eva rúllaði með fellihýsið að flugvellinum þar sem við tjölduðum skammt frá. Rosalega sniðugt fyrir svona dellukalla eins og mig en skelfileg staðsetning fyrir konu eins og Evu; flugvöllur, vegur, skógur og straumhörð á, svona eins og hinn fullkomni ógnunarpakki fyrir hana. Svo náttúrulega er fellihýsið án reyk- og gasskynjara. Gætum allt eins rúllað okkur fram af Hvannadalshnjúk í síldartunnu eins og að stunda þetta glæfraspil. Eva var reyndar ekkert að minnast á þetta. Held að hún hafi bara gert þetta fyrir mig, svona svo ég hefði vélina í augsýn innan um allar þessar íslensku lopapeysuklæddu "ginídónig"sötrandi fyllibyttur og brjálaða sykurfyllta og koffíndrukkna krakkagemlinga sem litu á vængstifur vélarinnar minnar sem klifurgrindur stuttu eftir að ég lenti. Já, ég hafði orð á því við Evu að ég hefði tékkað á hvort vélin væri nokkuð merkt "Ísbíll" og að á henni væri dinglandi bjalla því mér leið svona dálítið eins og landkönnuði í Afríku þegar ég lenti. Krakkaskari hlaupandi á móti mér og horfðu á mig eins og að ég hefði fundið upp flugið og smíðað þetta stórfurðulega apparat með dyggri hjálp aðstoðarmannsins míns Passepartout. Auðvitað þurfti einhver vitspíran kellingin að fokka þessú mómenti upp með því að segja mér hvað hún væri "dömuleg" og "sæt" (vélin mín) sem auðvitað dróg úr allri karlmennsku minni og fljótlega var allt komið í samt horf... krakkarnir búnir að missa áhugann og farnir að spila fótbolta, kasta steinum í stórfljótið, týnast í skóginum eða annað sem börn taka sér venjulega fyrir hendur.
Við Eva áttum svo ósköp notalega stund í fellihýsinu með krökkunum, grilluðum hamborgara, drukkum nokkra "Lite" og spjölluðum frameftir kvöldi. Um morguninn var nátturulega steikarhiti í fellihýsinu og Mumma tókst auðvitað að vakna fyrstur manna og uppgötvaði að hann þyrfti að pissa. Ég hleypti honum út úr prísundinni og hann stillti sér upp fyrir framan "nágrannana" þar sem þeir voru að háma í sig einhverja hollustumáltiðina (svona fullkomin fjölskylda sjáið þið til, óaðfinnanlegur Combi-Kamp vagn með hillusystemi, King Charles hundur í ól og þrjár nákvæmlega aldurslega jafndreifðar stífgreiddar og bleikklæddar systur við matarborðið - þetta er líklega mælikvarði á vísitölufjölskylduna). Já, út með hann og svo bara spræna! Ekkert dónalegt að mínu mati en svo fór hann aftur inn og spurði systur sína hvernig hún ætlaði að pissa. Hún átti náttúrulega til lausn á því og sagðis bara pissa í forláta pott sem fylgt hefur hýsinu lengi vel og er notaður undir að geyma tjaldhæla og dót svo það fari ekki á flakk um vagnin þegar við ferðumst. Já, sniðugt, hugsar hann. En hvað haldið þið? Eftir ca. 10 mínútur, við Eva nátturulega að rembast við að vakna helst ekki og teygja sæluna, heyrist í dreng: "Mamma! skeina mér... búinn að kúka!" Já, drengurinn er náttúrulega sjálfstæður og duglegur í alla staði og mamma spyr til baka: "Ha? Kúka?! Hvar?". Svarið kom náttúrulega til þess að kæfa okkur úr hlátri: "Í pottinn!" Ég gróf höfuðið ofan í koddann og sá vísitölufjölskylduna fyrir framan okkur með skelfingarsvipinn en gat ekki stillt mig um hláturinn. Það þarf varla að taka það fram að þessi pottur er ekki lengur á meðal vor.
Jæja, svo var farið í sund, þá sjoppan, pylsur og ís og allt það. Seinna um daginn komu svo Gonsi og Anna Rósa vinkona Evu í heimsókn en þau voru í bústað í Húsafelli og svo mætti Þórir félagi á TF-170 ásamt Öddu sinni og við sátum í sólinni og spjölluðum þar til við tókum saman og hengdum í bílinn. Eva keyrði svo í bæinn og ég flaug með Þóri á Selfoss þar sem við rétt skriðum undir þokuna áður en hún lokaði flugvellinum alveg. Glæsileg flughelgi að baki og allir sáttir með ferðalagið hvort sem var í lofti eða á malbiki.
Heimleiðin frá Selfossi var náttúrulega klassísk fyrir þessa helgi, röð frá Skíðaskálanum í Hveradölum, bíll við bíl og 30 km. hraði. Eva slapp reyndar hinummegin frá enda allir búnir að vera á Landsmóti og þar í kring og því mun minni traffík að norðan en að sunnan. Hvet ykkur til að skoða myndirnar á Picasa. Sæl að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)