Rauðhnakkar sóttir heim...

Það er búið að vera lengi á óskalista barnanna og reyndar okkar hjónanna líka að fara í helgarfrí með fellihýsið í eftirdragi.  Úr þessu var bætt um helgina en þar sem ég er ekki sá skipulagðasti og standsetja þurfti hýsið áður en haldið var af stað, hófst ferðin ekki fyrr en um 9 leitið og því vorum við náttúrulega síðust út úr bænum.  Þetta þýðir jafnframt að öll betri tjaldstæði landsins eru þéttsetin af glæsihjólhýsum landans og við þurftum því að leita uppi eitthvað það allra slakasta tjaldsvæði á suðurlandi og þótt víða væri leitað.

P1060928Tjaldsvæðið við Iðu, eða Hótel Hvítá eins og það er merkt, varð fyrir valinu (ef val mætti kalla).  Við hefðum svosum alveg geta sagt okkur það strax þar sem við heimkeyrsluna var að finna skilti sem auglýsti hamborgara og franskar á 790 og það á hótelveitingastaðnum... þeir þyrftu að taka þessa verðlagningu til fyrirmyndar hjá Hilton og Ritz!  Nema hvað, við tjölduðum þarna og tókum eftir að þarna var strax orðin heilmikil stemning og harmonikkuspil og alles í nærliggjandi þjónustumiðstöð.  Eftir að við höfðum tjaldað fellihýsinu, sett upp fortjaldið, búið um rúm og opnað fyrsta bjórinn kíkti ég yfir í miðstöðina og sá þar rauðhnakkastemningu Íslands samankomna á einn stað.  Samansafn af gömlum köllum og kellingum með gin og tónik í plastbrúsum, nú eða Faxe bjór í litlum dósum, strompreykjandi og gargandi ofaní hvort annað.  Svo sátu við endann 6 eða 7 gamlir harmonikkuspilarar og kepptust við að spila "Undir bláhimni" í mismunandi takti og sögðu þess á milli klúra brandara, ef þeir þá mundu þá alla.  Svo virðist sem þetta hafi ekki bara verið einhver slembi"lukka" með þessar tvær harmonikkur fyrr um daginn heldur var þarna um eitthvað árlegt mót harmonikkugeggjara að ræða.  Já merkilegt nokk, það er hægt að spila allt á harmonikku!  Ég get sagt ykkur að þjónustumiðstöðin þessi er líklega hrörlegasta húsnæði á Íslandi, umhverfið eins og það er fallegt er látið gjörsamlega afskiptalaust og því hefur spítnabrak og drasl síðustu ára safnast þar upp og leiktækin sem eflaust áttu sína góðu tíma eru við það að fúna í sundur og líklega eru sum þeirra fengin af leikskólanum mínum gamla sem hætti starfsemi fyrir líklega 25 árum síðan.  Ég og Eva héldum okkur bara í fortjaldinu og spjölluðum Undecided.

P1060979Laugardagurinn var fínn, fórum á Selfoss, kíktum í mjólkurbúðina og heimsóttum Þóri og frú.  Fórum svo þaðan í sund á Minni-borg og enduðum svo í Rauðhnakkabælinu þar sem við grilluðum og spjölluðum frameftir kvöldi.  Sunnudagurinn var svo notaður í að heimsækja Rauðhnakkadýragarðinn Slakka þar sem hálf sorglegt er um að líta, því lítið er eftir af þessum ágæta dýragarði, flest illa hirt og í niðurníslu, svona svolítið eins og yfirgefinn skemmtigarður.  Hvað er með fólk?  Það kostaði okkur 2.000 kr. að fara í garðinn og líklega hafa yfir 1.000 manns heimsótt þennan garð þessa helgi en samt virðist ekki vera hægt að hafa þetta skaplegt.  En krakkarnir eru fordómalausir og skemmtu sér því ágætlega, Viktoría fékk að halda á hundum og kettlingum og Mummi fann safn leikfangabíla, sem eins og flestir sem hann þekkja ættu að vita, féll ekki í grýttan jarðveg. 

Frá því að við lögðum af stað í ferðina tuðaði Mummi um að fá að hitta Tryggva frænda sinn og af því varð þegar við komum í bæinn.  Þá hafði Mummi ákveðið að ef við fengjum okkur hund, þá skyldi hann heita Tryggvi.  Það voru því fagnaðarfundir hjá þeim frændunum þegar þeir hittust en við Eva fengum í staðinn eldað fyrir okkur á staðnum og sluppum því við heimilisverkin þetta kvöldið, enda af nógu að taka að ganga frá eftir svona líka ferðalagið.  Ég náði rétt svo að sofna frá sönglinu í hausnum á mér ... "...undir bláhimni...kræst!".  Og gat nú skeð... við það að rifja þetta upp fyrir ykkur fór hvað að söngla í hausnum á mér?! Fjárinn!


BISF-BIFL-BIHE-BISF

Já, ég og Þórir fórum ágætis rúnt í gærkvöldi á TF-134 og TF-170.  Flugum frá Selfossi yfir að Vatnsnesi en urðum frá að hverfa vegna túrbulansa frá Hestfjalli.  Þaðan lá leiðin í gegnum Laugarás yfir á Flúðir þar sem við lentum.  Við flugum svo yfir að Heklu og upp á topp hennar og renndum okkur svo niður á Geitamel og lentum svo á Hellu.  Ræddum við tvo Hell(i)sbúa og skunduðum svo eftir þjóðveginum í 500 fetum yfir á Selfoss. Flugtími 2,3 klst.  Veðrið var ágætt þrátt fyrir smá vind og flugið gekk áfallalaust fyrir sig. Feril ferðarinnar úr SPOT-inu hans Þóris er að finna á myndinni hér til hliðar.

05466270 0496 4a9e bfd4 d74268454cabÞað er svolítið skrítið að upplifa TF-134 eftir að hafa verið að fljúga mun hraðfleygari vélum, t.a.m. 136 og 137.  Báðar þær vélar krúsa nokkuð auðveldlega á 200-250 km hraða en Storkurinn (134) er ekki að krúsa á mikið meira en 120-130 þegar best lætur.  Í raun er optimal flughraði á henni um 100 km/h.  Þetta jafnast líklega á við ágætis mótordreka.  Ég hef áður sagt að þetta sé í senn kostur og ókostur.  Ókosturinn er ferðahraðinn ef fara á yfir langan veg en kosturinn eru vissulega fólginn í mjög góðum hægflugseiginleikum (stoll á ca. 40km/h) og því mjög gott að trimma hana bara af og taka svo myndir.  Það er samt alveg merkilegt hvað hún er dugleg að klifra með þessum mótor ef maður bara gefur í botn.  Gerði smá rannsókn á þessu í gær og sá að það er létt verk að klifra 1000-1200 fet á mín án þess að tapa hraða.

Jæja, nóg um það.  Þessi flugdella mín er farin að hafa áhrif á fjölskyldulífið þannig að helgin verður tekin í faðmi fjölskyldunnar í sveitinni.  Við ætlum að stinga af með fellihýsið í eftirdragi og sleikja sólina ef hún heiðrar okkur með nærveru sinni.  Með góðum hug fæ ég kannski að tjalda einhversstaðar í stuttri fjarlægð frá Selfossi þannig að ég fái mögulega færi á að skjótast og taka loftmyndir af tjaldsvæðinu ef vel viðrar.  Sjáum hvað setur. 

 


Loksins orðin mín...

IMG 0244Jæja, þá er TF-134 orðin mín (og reyndar þriggja meðeigenda minna).  Við festum kaup á henni í gær af Einari nokkrum Bjarnasyni en hann hefur átt hana um nokkuð skeið frá því að hann flutti hana inn frá Noregi.  Vélin er öll í ágætis ástandi og á Einar þar stóran þátt í enda hefur hann dekrað við gripinn frá því að hann komst undir hans hendur og margt að finna í vélinni sem hann hefur dundað sér við undanfarin ár.

Það sem setur þessa vél í sérflokk frá þeim vélum sem ég hef verið að fljúga og venjast er að hún getur flogið mjög hægt.  Hún er flapalaus en "stollar" samt ekki nema í um 40km/h sem verður að teljast mjög gott miðað við svona vél.  Hún er mjög "responsive" og vinnur ótrúlega vel m.v. að í henni er aðeins 65 hestafla Rotax 582 mótor.  Útsýnið úr vélinni er með því besta sem gerist í svona vélum og því frábær til myndatöku.  Mælaborðið er svolítið sérstakt, manni líður meira eins og að sitja í stjórnklefa á þyrlu en flugvél fyrst um sinn.  Það litla sem mig langar að gera við hana úr þessu fyrir utan að hreinsa hana alla upp og gera sætari er að bæta við myndavélaglugga farþegamegin og svo fljótlega að skipta út proppnum fyrir létta skiptiskrúfu.

IMG 0249Ég fór semsagt í gær austur og tók vélina út og græjaði lauslega áður en ég setti hana í gang og prófaði.  Svo dokaði ég við á BISF þar til Árni Gunnars fismaður með meiru og ágætis kunningi minn kom á svæðið í mótordrekafylgd og tók mig út.  Árni lét duga að fara með mér einn hring og lendingu eftir að ég hafði beðið eftir honum í líklega 3 klukkutíma... merkileg úttekt það :)  

Eftir þetta fór ég á flug og skaust í Grímsnesið og lágflaug yfir bústaðinn.  Ég ætla ekki að segja ykkur hvað það er mikill munur að fljúga þessu flygildi hægt m.v. DynAero vélina sem er náttúrulega "spíttvél" í samanburði við þessa.  Þetta er einfaldlega tvö gjörólík tæki.  Svo hringdi Þórir  (TF-170) (afmælisbarn) í mig og var ekki lengi að skjótast út á völl og taka rúnt með mér.  Held að hann sé nokkuð sáttur við vélina og klárt að við félagarnir eigum eftir að fljúga stíft saman um ókoma tíð.  Hann verðlaunaði mig svo með kökusneið eftir flugið en hann býr glæsilega á Selfossi og gerir vél sína út þaðan.  


Viðgerð dregst...

Jæja, fátt um vélina góðu að segja annað en að frakkarnir hjá DynAero (framleiðandanum) eru að fara yfir málið svo allt sé rétt gert.  Þeir senda svo nákvæmt aðgerðaplan og menn vinna eftir því. 

Fór um helgina til að taka myndir af innviðum vélarinnar en svo virðist sem flest sé í góðu lagi þótt hugsanlega þurfi að styrkja stélhlutann smávægilega.  Það gæti orðið dálítið verkefni en ekkert óyfirstíganlegt.  Nú er bara að bíða og vona að frakkinn verði fljótur að taka við sér... "if only I was so lucky..."

136stelAnnars er ég búinn að vera iðandi í skinninu að fá að fljúga síðan í gær þegar fór að lægja.  Flestir danskir fánar á landinu virðast vera í verkfalli og afleitt að geta ekki stolist úr vinnunni, hoppað upp í vél og krúsað um landið.  En svona er nú lífið.


Fallegt var það ekki!

IMG 9855Á sunnudaginn var hringt í mig og mér tjáð af Skúla nokkrum Svifflugfélagsmanni að TF-136 lægi á bakinu uppi á Sandskeið.  Ég hélt fyrst að hann væri að grínast en heyrði fljótt að svo var ekki.  Kvöldið áður hafði ég lokið rúmlega þriggja tíma flugtúr vestur á Snæfellsnes á Sandskeiði og bundið vélina þar enda var spáin ekki slæm.  Um nóttina hvessti allhressilega og niðurstaðan varð að vélin sleit upp festurnar og fauk yfir sig og lenti á bakinu.  Ég brunaði því uppeftir á Sandskeið og við mér blasti ljót sjón sem engum flugmanni hugnast að sjá nokkurn tíma.  Vélin á bakinu, glerið mölbrotið og skemmdir eftir henni allri. 

Ég á ekkert í þessari vél sem gerir málið ennþá erfiðara.  Faðir minn og tveir bræður hans eiga hana og enginn vafi leikur á að þessi vél er flaggskip íslenska fisflotans, ef flugvél getur einhvern tíma orðið skip.  Þetta er því eins sárt hugsa ég og sárt getur orðið.  Auðvitað getur maður huggað sig við að engin slys hafi orðið á fólki en þetta er samt svo sárt.  

Það sárasta við þetta atvik er að TF-136 á glæsilegt upphitað skýli í fluggörðum en Flugmálastjórn neitar vélfisum að lenda á Reykjavíkurflugvelli nema að fenginni undanþágu sem fæst ekki nema með sólarhringsfyrirvara.  Þessi lög eru eingöngu til þess gerð að útbúa lög, svona "afþvíbara-regla".  Menn myndu líklegast skilja ef þetta væri sett niður vegna ætlaðs "reynsluleysis" fisflugmanna eða skorts á réttindum en þetta gildir einu hvort sem um ræðir fisflugmenn eða reyndustu atvinnuflugmenn landsins.  Í hartnær ár hefur verið reynt að kreista út úr Flugmálastjórn svar hversvegna þessar reglur eru settar en ekkert virðist bóla á þeim.

Því sit ég núna uppi með skaða upp á nokkurhundruðþúsund króna viðgerð sem hefði aldrei þurft að koma til ef ég hefði bara fengið að lenda á Reykjavíkurflugvelli og sett vélina í skýlið.  Takk fyrir það þið sem reglurnar setjið.

Ég get þó kannski huggað mig við þá staðreynd að vélin er ekki meira skemmd en það að það verður hægt að gera við hana hér heima og að líklega verður hún komin í loftið innan fárra vikna.  Ég get hinsvegar ekki sætt mig við "afþvíbara-reglu" FMS og vona að þeir sjái að sér áður en frekari tjón verða á dýrmætum vélum, ef ekki slys.


Kominn með sóló!

Sólóið handsalaðÁ miðvikudaginn síðasta flaug ég í langþráða ferð með Styrmi flugkennaranum mínum og það á Selfoss þar sem ætlunin var að æfa lendingar og freista þess að ljúka sólófluginu mínu.   Þetta gekk eins og í sögu og áður en kvöldið leið var undirritaður kominn með sóló og nú hefst því flugið fyrir alvöru. 

Myndin sem fylgir sýnir "sólóið" handsalað af undirrituðum og kennaranum knáa:

 


Jæja...

Jæja, þá er undirritaður farinn að blogga.  Ég hét því einhvern tíma að gera þetta aldrei en pressa frá samferðamönnum mínum í fisfluginu hefur kallað á dagbókarskráningu svo menn séu nú örugglega með puttana á öllu sem er að gerast.   Við skulum vona og sjá hvernig úr verður.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband