Á dauða mínum átti ég von en ekki þessu...

Já, það er opinbert.  Ég átti hreinlega von á dauða mínum í kreppuástandinu en ekki því sem gerðist í dag.  Fallegur dagur og tilvalinn til flugs og viðraði því í gríni við Evu hvort hún vildi nú ekki koma með í smá brautarhopp (flugtak og lending á sömu braut).  Við höfðum jú oft rætt að það væri fyrsta skrefið en ég átti ekkert von á að á bak við það lægi nokkuð nema innantóm orð.  En hvað haldið'i?  Eva segir bara "nei heldurðu það?".  Hey... ég er búinn að vera með þessari konu í rúm 12 ár og veit að þetta þýðir ekki nei ... og nær því að heita já!.  "Þú verður þá að redda pössun".  Ekki þurfti að segja mér þetta tvisvar og úr varð að við vorum á leið á Selfoss, þar sem ég geymi vélina, nokkrum korterum síðar.

Og úr varð hið ótrúlega.  Eva fór jú hikandi með mér út á braut í vélinni, eitt brautarhopp með heimild frá Stefáni í turninum.  Gekk með ágætum, en þegar ég stakk upp á brautarhoppi númer tvö, sagði mín heittelskaða nánast eins og dauðadæmdur maður segir "fokkitt", "nei förum bara einn hring".  Augu og eyru mín stóðu náttúrulega á stilkum (ef eyru geta það) og auðvitað þurfti ekki að endurtaka þá skipun.  Út á brautarenda og í loftið!

Restin er vissulega bara fyrir hana til að monta sig af.  3 flugtök og lendingar og dágott flug um nágrenni Selfoss.  Þessi flughræddasta persóna sem ég þekki hefur að mínu mati sigrað sína verstu ógn og hræðslu með því að taka þetta skref.  Þrátt fyrir alla tölfræði og allt, er ekkert sjálfsagðara fyrir flughrædda manneskju að setjast upp í fis frekar en lofthrædda að standa á þakbrún.  

En myndirnar tala sínu máli og Eva er alsæl með flugið og nefndi það rétt áðan, til að auka enn frekar á furðu mína, að hún væri til í að fljúga á morgun verði spáin góð.  Talandi um hraðan bata!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

OMG!!! Frábært haha....Eva, þú ert hetjan mín - sådan skal det være!

Rakel (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 15:32

2 identicon

... og er ég nú einn eftir í F.J.F: "Félagi jarðbundinna flugeggjara".

Mummi senior (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband