Lausn vandans - EUREKA!

Jæja.  Eftir að hafa legið yfir vandamálinu í dágóða stund og fókusera á þá tækni sem bankarnir hafa notað við að afla "herlegheitanna" hef ég komist að einfaldri og mjög áhrifaríkri lausn á vandanum vel þekkta.  Markmiðið er að nýta ævagamla tækni okkar sé litið afturábak og krydda það með yfirráðs- og yfirgangsstefnu bankanna.  Líklegast hefði ég átt að tryggja mér einkaleyfi þessarar hugmyndar áður en ég birti hana en treysti að þið lesendur látið það vera að flagga henni áður en ég fæ að koma henni í framkvæmd.   Hér fer aðferðin:

Vestmannaeyjum verður veitt fullt sjálfstæði frá Íslandi og mun taka upp evru sem aðalgjaldmiðil (enda erfitt fyrir Evrópusambandið að neita þessari nýju þjóð um aðild (engar skuldir, ekkert vesen)).  Íslendingar munu láta þessa einu nýlendu sína frá sér líkt og Bretar hafa í gegnum tíðina gert við sínar.  Full aðstaða er til staðar nú þegar, bankaútibú sem getur léttilega þjónað sem Seðlabanki Vestmannaeyja, skólar, sjúkrahús, höfn og flugvöllur svo eitthvað sé nefnt.  Ráðhús bæjarins yrði þeirra stjórnarráð og alþingi (eitt svona megahagkvæmt combo).  Þjóðhátíðardagur er þegar settur (reyndar fljótandi um verslunarmannahelgi) og eyjaskeggjar þurfa ekki einu sinni að þola grautfúlan og ósyngjandi þjóðsöng enda er þjóðhátíðarlag nóg til verksins og síbreytilegt ár frá ári.  Skiptir einu hvernig árar, alltaf svona "jolly song" til að hugga sig við.  

Næsta skref er að Vestmannaeyjar fari fram á 200 mílna landhelgi (í góðu lagi að þetta sé framkæmt í t.d. 3 áföngum, enda þekkt aðferð).  Þetta veitir þeim býsna góða sneið út frá suðurströndinni að gjöfulum fiskimiðum og þar með ríkri innanlandsframleiðslu.  Á næstu mánuðum verður svo gert yfirtökutilboð í flestar eyjar á Íslandi sem náttúrulega eru allar verðlausar í þessari blessuðu kreppu enda enginn (nema Vestmannaeyingar með peninga á milli handanna).  Kosturinn við þetta er að eyjamenn fara rakleiðis fram á að 200 mílurnar eigi svo auðvitað þar við og leggja þannig undir sig flesta firði og víkur á Íslandi (t.a.m. Breiðafjörð og Skagafjörð, Grímsey myndi líklega tryggja hafsvæðið inn Eyjafjörð, Skjálfanda og út Öxarfjörð og einhver eyjagrey í Ísafjarðardjúpi myndu tryggja landhelgi flestra vestfjarðanna.  

Nú, til að halda uppi alþjóðasamgöngum myndi einungis þurfa að lengja flugbraut í eyjunni um ca. kílómeter eða svo og svo mætti stórbæta hafnaraðstöðuna fyrir stórsiglingar.  Þetta er mjög mikilvægt þar sem Íslendingar myndu sækja eyjurnar í stórum stíl til að kaupa ódýr og ótolluð matvæli, áfengi og aðrar nauðsynjar.  Einnig væri hægt að sigla Herjólfi út fyrir 200 mílna landhelgina á laugardagskvöldum þar sem skipinu yrði breytt í spilavíti og tollfrjálst verslunarsvæði. 

Sökum yfirgnæfandi hættuástands vegna mögulegra eldsumbrota í eyjunum færi eyjan fram á stuðning úr hinum og þessum viðlagasjóðum og stuðningssjóðum um alla veröld.  Þetta myndi að sjálfsögðu gefa af sér mikinn gengis- og vaxtaálagssafslátt vegna samúðar í garð þessarar smáu eyþjóðar sem þyrfti að lifa við þennan hrylling dag frá degi.

Með tíð og tíma verður þetta smáa en ört þróaða eyríki orðið svo vellauðugt á ábyrgri fjármálastefnu og stöðugleika að það getur hægt og rólega tekið yfir Ísland.  Eignir verða þá yfirteknar af Íbúðalánasjóði Vestmannaeyja og Sparisjóður Vestmannaeyja tæki yfir aðrar bankaskuldbindingar, þ.e.a.s. það sem Seðlabanki Vestmannaeyja þyrfti ekki að yfirtaka að öðru leiti.  Sá infrastrúktúr sem fyrir er á Íslandi gagnaðist þá Vestmannaeyjum vel til að taka við öllu þessu fólki sem fylgdi eyjunni og svo væri til staðar allar virkjanir, stóriðja, o.fl. til að mæta atvinnuþróun.  Einungis þyrfti svo að vísa um 25 óhæfum einstaklingum úr landi svo hægt væri að reka eðlilegt þjóðfélag á þessari nýjustu landareign Vestmannaeyja án meiriháttar efnahagshremminga í framtíðinni.

Lifið heil. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Guðný

Hvað ertu búinn að hugsa þetta lengi? Hugmyndaflugið maður

Anna Guðný , 8.10.2008 kl. 20:19

2 Smámynd: Frosti Heimisson

Hehe... já það er margt og merkilegt sem manni dettur í hug í svona ástandi.

Frosti Heimisson, 8.10.2008 kl. 20:21

3 identicon

...þú gleymdir því að Bíldudalskrónan,sem veslað var með þar í kaupfélaginu í den var,held ,ég aldrei lögð niður.Upplagt andlag við evru,svo menn hafi einhver raunveruleg viðmið.

Mummi senior (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 22:01

4 Smámynd: Anna Guðný

Nú er ekkert kaupfélag að meika það nema á Sauðárkrók. Geirmundur sveiflukóngur tekur við peningum í grínð og erg þessa dagana. Hvar ætli kaupfélagskontorinn geymi peningana? Kannski í bankanum?

Anna Guðný , 8.10.2008 kl. 23:57

5 identicon

Ég vænti þess að það vanti "forseta" til eyja, ég gæti alveg hugsað mér að flytja þangað..

Þórir T (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 09:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband