Flughelgi að baki, og viðburðarík.

Já sorry sorry... búinn að vera upptekinn.  En hér kemur helgarskýrsla þótt seint sé.

Ég fór nefnilega að fljúga á laugardaginn en ég hef lítið flogið undanfarið þar sem ég er búinn að vera með mótorinn úr vélinni í "overhaul" þar sem skipt var um kveikjubúnað.  Vélin hafði nefnilega verið afspyrnuleiðinleg í að starta undanfarið og ekki verjandi að fljúga henni mikið meira í því ástandi jafnvel þótt hún væri gjörsamlega til friðs á flugi.

Ég hafði líka lengi ætlað að bjóða bræðrum Evu í flug og við það var staðið.  Tómas var fyrsti farþeginn og stefnan var tekin á Kjalarnes og þaðan yfir fjörð og inn í Borgarnes þar sem við snerum við.  Ég hafði tekið eftir því að stöku sinnum hægðist örlítið á snúningi vélarinnar, sem er ekki venjuleg hegðun, en loftskilyrði voru ansi hliðholl svokallaðri blöndungsísingu.  Blöndungsísing verður þegar raki í lofti er yfir 50% og hiti undir 10°C.  Við þessi skilyrði getur langvarandi keyrsla á föstum snúningi valdið uppsöfnun íss í blöndungunum og þar með teppt loftflæði, eða sem verra er, skotið inn ísbrotum sem valda gangtruflunum.

Ég var svo heppinn að hafa lært skilyrðin, einkennin og viðbrögðin í flugnámi mínu og því var ég ekkert óöruggur þegar þetta var að koma upp á.  Ég vissulega gerði meira ráð fyrir hugsanlegum truflunum eða jafnvel mótorstoppi og flaug samkvæmt því.  Það er svosum ekkert nýtt fyrir mig en lágflug var a.m.k. úr myndinni.  Tómas tók við vélinni snemma á leiðinni og stóð sig vel en þótti lítið til sýnikennslu minnar í þyngdarleysisflugi og veltingi koma.  

Stefán var öllu óheppnari greyið.  Ekki var hann aðeins búinn að bíða í 1,5 klst eftir okkur, heldur er hann öllu óöruggari þegar kemur að svona sporti... held ég.  Hann var a.m.k. passlega rólegur við hliðina á mér brjálæðingnum en var frekar snöggur að ná fyrstu hreyfingunum.  Við flugum yfir Kjalarnesið og þaðan yfir fjörðinn og út á Skaga.  Þar tókum við nokkra hringi og Stefán fékk að leika sér þar til við hugðumst fljúga til baka.  Það var þá sem Stefán missti áhugann á flugi (held ég) :)  Vélin var í um 600 fetum þegar hún sló hressilega af allt í einu og Stefán með stjórn á vélinni.  Það beinlínis birti inni í vélinni þegar Stefán hvítnaði eins og E.T. þegar hann var sem veikastur. Ég greip stýrið strax, dróg úr inngjöfinni og byrjaði að jafna út flugið og mótorinn fór aftur að virka sem skyldi.  Stefán spurði náttúrulega strax "Hvað var þetta?" og... "Er þetta ok?" o.s.frv.  Spurningar sem ég gat auðveldlega svarað játandi og reyndi að útskýra fyrir honum að þetta væri nú ekki það alvarlegasta í heimi.  Við værum með fullt af túnum fyrir neðan okkur, vegi og flatlendi sem allt væri nógu gott til að lenda á ef við lentum í einhverri neyð.  Ég sagði honum líka að við gætum haft samband við Flugturninn í Reykjavík og spurt hvort það væri ekki flugvöllur nálægt sem hægt væri að lenda á til að jafna mótorinn.  Setningu minni var ekki lokið þegar albínóinn í farþegasætinu svaraði samstundis "Viltu ekki bara kalla í þennan turn og spyrja þá hvað við eigum að gera".  Ég gat nú ekki annað en brosað en ég veit innst inni að ég hefði líklega migið á mig ef ég hefði lent í þessu með einhverjum "mági mínum" í fyrsta flugi á fisvél.  Ég kallaði vissulega í turninn og sagði þeim að við værum að eiga við smá gangtruflanir og lét vita af staðsetningu minni.  Ég fann að þetta róaði farþegann minn en á næstu 3 mínútum á lágum snúningi virtumst við hafa náð að hreinsa þetta út og gátum aftur tekið hæð og flogið til baka.  "Já eigum við ekki bara að gera það" var eina samþykkið sem ég þurfti frá Stefáni þegar ég spurði hann hvort hann vildi snúa við.  Það tók hann nokkrar mínútur að ná púlsinum niður úr 150 slaga svæðinu en hægt og bítandi komst litur í andlitið á þessum óheppna tvíburabróður sem hafði líklega gert sér aðrar hugmyndir um fisflug en þetta bauð upp á.

Þegar við nálguðumst Grund sá ég tengdapabba við brautina en ég hugsa að sál Stefáns hafi heimsótt pabba sinn í smá stund á meðan hún forðaði sér ofan af Skaga eitt augnablik 30 mínútum áður.  Hann fylgdist með okkur koma inn í duglegum vindi en lendingin gekk vel, enda ekki í fyrsta skipti sem ég lendi í vindi en ég hef ákveðið gaman af því að æfa vindlendingar, bæði á hlið og framan.  Ég svitnaði nú samt örlítið hugsandi um hvernig ég ætti nú að matreiða þetta sem rólegast, enda var ekki nema liðið um hálft ár frá því að ég var næstum búinn að fokka upp ágætu sambandi við tengdaforeldra mína þegar ég lánaði honum fjórhjól til prufu og drengnum tókst náttúrulega að aka því á vegg.  Og næstum drepa sig!  Og ekki bætti úr skák að fyrir nokkrum árum hafði Einar, elsti bróðirinn, lent á Nesjavallavegi með frænda sínum þar sem þeir lentu í bensínstíflu.  Hefði það verið týpískt ef ég hefði lent í því sama?  Kræst.

Jæja.  Eftir að hafa látið vélina bíða í um 15 mínútur og kíkt undir vélarhlífina til að ganga úr skugga um að ísingin væri horfin, hélt ég svo austur á Selfoss þar sem ég kom vélinni fyrir í skýlinu góða.  Ég tek það fram að ég hefði aldrei flogið henni austur hefði ég verið í minnsta vafa um að ekki væri allt með felldu og ég tek það líka fram að blöndungsísing sem þessi er alls ekki sjaldgæf, þót sjaldnast valdi hún mótorstoppi.  Viðbrögðin skipta miklu máli í þessu tilfelli. Þetta er engu að síður óþægilegt og því er ég búinn að finna blöndungshitunarbúnað á netinu sem er einfalt að koma fyrir og kemur í veg fyrir svona uppákomur.  

Annars fórum við svo í heimsókn til Gunnu og Kristjáns, góðvinafólks okkar sem nú nýverið flutti á Hvanneyri.  Ég veit ekki hvort ég gæti flutt í sveit en á móti kemur að þau fluttu af Álftanesi þannig að viðbrigðin eru líklega ekki eins mikil og að flytja úr 101.  Djók.  Þar búa þau í rúmgóðu húsi sem er mjög vel útlátið með flottu útsýni yfir fjallgarðinn í suður.  Við komum kannski ekki í besta veðri (25m/sek og rigning) en hlökkum til að koma í meiri blíðu og eyða þar hugsanlega einni nóttu.  

Jæja, nóg í bili. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábært hvað þú ert yfirvegaður strákur.Stebbi staðfestir það!!

Mummi senior (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 18:12

2 Smámynd: Frosti Heimisson

Það var nú ekki ástæða til annars :)  Og þetta dugar ekki sem ástæða þess að fljúga ekki með mér

Frosti Heimisson, 12.9.2008 kl. 14:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband