Icelandair (og elskulegir Íslandsdanir) að gera góða hluti...

Ferðaðist vegna ráðstefnu til Barcelona um daginn og þurfti að fljúga með Icelandair til Köben og þaðan til Barcelona með Spanair, flugfélagi sem fór nánast á hausinn um daginn og var komið á góða leið með að draga SAS með sér í svaðið.  Þetta er svosum ekki frásögum færandi út af fyrir sig, en ég má til með að hrósa Icelandair, þá sjaldan sem maður hrósar í stað þess að lasta öllu sem er ekki nákvæmlega eins og maður vill hafa það.

Maður er nefnilega orðinn svo góðu vanur.  Ég las t.d. í bók Þorsteins Jónssonar flugstjóra þegar hann segir frá því hvernig þeir voru að koma á einum hreyfli inn til lendingar án þess að það væri tiltökumál, hvernig reykfylltar vélarnar rétt drusluðust á áfangastað eftir margar milliendingar, vélarbilanir, bensínleysi o.fl.  Nú á dögum þurfa vélarnar að bjóða upp á heimsklassahámenningu og það þarf gjörsamlega að dekra við afturendann á okkur svo við hótum nú ekki lögsóknum vegna vanrækslu og brota á alþjóðlegum reglum um heilsufarsdekur... og þar fram eftir götunum.

Ég hef lengi vel sett út á tilgangslausar eggjahrærur og baunasalöt um borð í 2ja-3ja tíma ferðalögum frá t.d. Íslandi til Skandinavíu og hvað þá einhverja undarlega framkreista stéttarskiptingu í farþegarými vélanna, en kann þó vel að meta að fólk hafi valmöguleika og geti kosið að borða ommelettu eða bara samloku um borð, getað jafnvel hugsað sér að sitja án matar í 3ja manna sæti fyrir aftan væng?!!  Nú eða nuddað á sér afturendann upp úr leðurklæddu 2ja sæta sófasettisígildi og nánast fundið rakspíralyktina af flugstjóranum um leið og að viðkomandi dreypir á 3ja klassa kampavíni úr plastflösku við klassíska tónlist úr lánsheyrnartólum viðskiptafarrýmisins.  

En þetta er flug.  Fluglífstíll má segja.  Lífstíll sem hefur hægt og rólega, eins og hótellífstíllinn, gert kröfur sem eru á fáránlegum mælikvarða.  Menn fá snert af móðursýkiskasti fái þeir ekki drykkina á undan matnum, klaka í kókið, frítt snakk, litabækur fyrir börnin, og tala ég nú ekki um (og hér er ég fremstur í flokki) blauttissjú í hnífaparaservéttupakkningunni sem kemur með þríupphituðu regnblautu eggjahrærunni sem hér var áður nefnd. 

En samt sem áður er hér verið að koma okkur, 200 manneskjum, yfir Atlantshafið, til fjarlægra landa, á nokkrum klst. og það fljúgandi... eins og að það skipti engu máli?!  Halló?!

En punkturinn er þessi.  Þrátt fyrir að hafa flogið með einu flugvél Icelandair sem ekki hefur enn fengið andlitslyftingu og nýja innréttingu, naut ég flugsins alla leið og kom mér svo í tengiflugið með Spanair.  Þar beið Airbus 320 flugvél, með svo þröngt á milli sæta að meira að segja ég og mínir annars ekkert svo sérstöku 182 sentimetrar, þurftu að krumpast í þessu þrönga og ómerkilega sæti og vonlaust nema að saga hak í sköflungana að geta rétt úr fótunum til að gera flugferðina bærilegri.  Og þrátt fyrir að vera búinn ferðatölvu gat ég ekki einu sinni komið henni fyrir til að horfa á eitthvað á leiðinni, enda var ekkert sýnt nema staðsetning vélarinnar alla leiðina suður.  Flugfreyjurnar komu loksins eftir um 2ja tíma flug með hálftóman veitingavagninn og áttu til eina tegund af samlokum og hlandvolgt kók og mig langaði eiginlega (en athugið... eiginlega) í gömlu þríupphituðu regnblautu ommelettuna frá Keflvíska veislueldhúsinu aftur.  En ég náði að dotta þetta af mér og uppskar bakverki og aðra fylgifiska fyrir stuðning minn við þetta einnar evru flugfélag suðursins.

Þegar ég kom aftur til Danmerkur síðar í vikunni, beið mín ekki aðeins dýrindis Lasagne og kaldur öl hjá elskulegri mágkonu minni og svila í kóngsins Köben, heldur flaug ég svo til baka með (núna einu af mínu uppáhaldsflugfélögum) Icelandair.  Félagi sem hefur tekið ábendingum farþega sinna með svo skírum hætti að búið er að henda út regnsveittu ommelettunni og baunasallatinu fyrir öllu nútímalegri skyndibita sem er umfram allt í boði fyrir þá sem vilja.  Sætin eru þægileg og svo býður félagið upp á afþreyingu um borð sem höfðar til allra farþega.  Menn geta keypt sér þann íburð sem þeir kjósa... líklega enda þeir á að selja tánudd um borð. 

Margir hafa bölvað því að nú þurfi að borga fyrir teppi, kodda mat og drykk, en hafa ber í huga að þetta eru allt hlutir sem menn hafa hingað til tekið með sér í flest ferðalög og geta það enn.  Fyrir hina sem geta ekki hugsað sér slíka meðhöndlun er hægt að kaupa sér næsta klassa fyrir ofan, fá passlega mikið dekur og betri sæti, nú eða skottast um á SagaClass og sjá heiminn með augum alvöru viðskiptajöfra.  En mestu skiptir að þetta er allt valkvæmt.  Það þýðir í raun að maður getur sjálfum sér um kennt finnist manni ekki nógu dekrað við sig.  Mestu máli skiptir að með Icelandair getur maður a.m.k. verið viss um að það versta er sko alveg nógu gott og rúmlega það.  Þið hin getið bara "öppgreidað"!

En nú er búið að endurnýja flotann, innréttingarnar, afþreyingarkerfið og búningana... en ég kemst ekki hjá því að hafa tekið eftir að menn hafa gleymt að "öppdeita" flugfreyjurnar.  Held að það sé ekki flugfreyja undir fimmtugu lengur í Icelandair vélunum (nema Ásta nágrannakona mín auðvitað).  Hvað veldur er víst kreppan og starfsaldurinn...

Conan O'Brien fékk til sín ágætis karakter um daginn sem heitir Louis CK.  Hann hefur svipaða sýn á nútímann og ég.  Horfið á þetta, allt svo rétt:

Góðar stundir fólk... í 30þús fetunum eða á jörðu niðri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

...góð grein,en vildi bara nota tækifærið og mæla með "all day breakfast"samlokunni um borð á 500 kall- ekta sænskar rúgbökur, fylltar með bacon og eggjum og dásmlegri sósu...mmm

Mummi senior (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 20:56

2 identicon

Já og hafrakakan er alveg dúndur

Rakel (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 06:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband