11.1.2009 | 00:03
Arnar minn!
Faðir minn sendi inn lag í Eurovision sem fer fram þessa og næstu helgar. Það er svosum ekki frásögum færandi en í morgun byrjuðu nákomnir ættingjar að hringja í mig og hughreysta af einhverjum ógefnum ástæðum. Hið rétta kom svo í ljós þegar faðir minn hringdi loksins og spurði mig hvort ég hefði lesið dóminn um lagið hans í Mogganum í dag. Nei, sagði ég, enda búinn að segja upp áskriftinni í kreppunni og fékk því að heyra hana "live" frá kallinum sjálfum. Og þetta var ekki beint það sem hann vildi heyra á keppnisdaginn, en hann lét sem þetta hefði ekki nokkur áhrif á sig og bar sig vel. Ég sagði honum að hafa ekki nokkrar áhyggjur, því ég mæti sjónvarpsáhorfendur svo að þeir færu ekki að láta einhvern Arnar á Mogganum kjósa fyrir sig og að líklega væru það ófá ár síðan undirritaður hefði lesið plötudóm sem þennan síðast. Ég dæmi músikina frá því sem ég heyri... ekki Arnar.
Í kvöld fórum við svo feðginin, ég og Viktoría ásamt Sirrý vinkonu hennar í sjónvarpssal til að hvetja áfram kallinn og fylgifiska hans, og auðvitað Edgar Smára sem kom laginu glæsilega á framfæri og ætlaður rembingur Arnars hefur víst skilað sér betur en ómerkileg greinarskrif hans í Mogganum. Það verður samt að láta úrslit kvöldsins segja dóm hlustenda, og svo virðist vera sem Arnar hafi lélegra tóneyra en meirihlutinn. Spurningin er að þessu sinni hvort gagnrýnandi sem hefur svona rækilega rangt fyrir sér, þótt hann hafi að sjálfsögðu rétt á sinni skoðun, eigi erindi sem gagnrýnandi fyrir hönd allra lesenda Morgunblaðsins, eða hafi yfir höfuð eitthvert vit á tónlist. Mér er bara spurn.
En engu að síður skemmtum við okkur öll vel í sjónvarpssal, vel var tekið á móti gestum og góð stemning var meðal fólks allan tímann. Dóttir mín hafði vissulega mesta skemmtun af þessu öllu saman, fékk að fara á sviðið, mynd með Ragnhildi og Evu Maríu, og svo mætti lengi telja. En mestu skiptir að lag karlsins komst áfram og spennandi að sjá hvernig næstu kvöld þróast fyrir úrslitakeppnina.
Athugasemdir
Ekki veit ég neitt um þennan gagnrýnanda MBL,sem geisist fram á ritvöllinn og opinberar fordóma sína.Fordóma gegn aldri almennt,tónsmíðum og aldri þeirra,mismunandi raddbeitingu söngvara eftir verkefnum að ekki sé minnst á yfirlætislegan hrokann.Og það á kosningadegi.Lýðræðislegum réttindadegi,sem alltaf er virtur af sönnum lýðræðissinnum sem deginum,hvar áróðri skuli stillt í hóf og níði og bakrógi er hvarvetna vísað á dyr í fjölmiðlum,sem taka sig alvarlega.Eða þessi líka "ritdómurinn".Ekki stendur steinn yfir steini.Edgar,sem er "mjög góður söngvari" "syngur nánast á innsoginu í klaufalegum rembingi".Halló!.."..hins vegar lag sem á góða möguleika 1988." Augnablik. Er tónlistargagnrýnandi BML að lýsa þeirri skoðun sinni að fyrir 20 árum hafi verið í góðu lagi að syngja lög í klaufalegum rembingi fyrir evrópska áheyrendur, á innsoginu, lag sem væri handónýt ballaða í millitakti? Merkilegt að Mbl skuli hafa penna á sínum snærum,sem er svo gersamlega á skjön við hlustendur nútímatónlistar,sem niðurstaða valsins á ber vitni um.Blaðamenn biðja gjarnan um uppsagnir þeirra,sem uppvísir eru að dómgreindarbresti að mati almennings.Að mínu mati á umræddur tónlistargagnrýnandi engra annarra kosta völ en að spara ritstjórninni kostnaðinn við frímerkið á uppsagnarbréfið til hans,líta í spegil og sjá þann,sem uppvís er að því að vera handónýtur gagnrýnandi í milliflokki,sem aldrei hefði einu sinni átt möguleika fyrir 20 árum.
Það er hins vegar af okkur Stínu minni að frétta að bæði sátum við og fengum þessa fallegu gæsahúð við hlustun á þessari fallegu ballöðu Heimis við tregafullan texta nostalgiunnar.Og Edgar er réttur maður á nákvæmlega réttum stað í hárnákvæmri túlkun sinni á nákvæmlega réttu ballöðunni í Evrópu 2009!
Guðmundur Thorlacius (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 01:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.