26.8.2008 | 11:28
Vilji meirihluta kjósenda!
Það hlýtur að vera öllum ljóst að meirihluti hvort sem er þjóðar og/eða borgar vilja flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni. Ég held að ég geti sagt með góðri samvisku að allar kannanir sem náð hafa út fyrir höfuðborgarsvæðið hafi kosið völlinn áfram með miklum meirihluta og sama má segja um síðustu könnun meðal borgarbúa. Og sú könnun var meira að segja framkvæmd á flugdegi Reykjavíkurflugvallar! Þegar yfir 10.000 gestir voru á Reykjavíkurflugvelli að horfa á flugsýningu og njóta staðsetningar vallarins. "Nice try" en gekk því miður ekki upp!
Margir hafa haft orð á því að flugvöllurinn eigi bara að vera í Keflavík. Það sé ekkert langt í burtu og að þar sé sjúkrahús og öll þjónusta. Aðeins er hægt að hafa þessar skoðanir að illa ígrunduðu máli. Þeir sem kynnt hafa sér málið ítarlega komast að því að flugvöllurinn er í fyrsta lagi ekki alltaf (og alls ekki alltaf) fær flugvélum, svo ekki sé talað um minni sjúkraflugvélar (annað gildir um stórar og þungar farþegavélar), enda hafa fjölmargar flugvélar viðkomu hér í Reykjavík þegar Keflavíkurflugvöllur lokar vegna veðurs. Í öðru lagi er sjúkrahúsið í Keflavík ekki nánda nærri því eins fullkomið og Landspítalinn og því erfitt að bera saman þessa tvo kosti. Vilja menn flytja hátæknisjúkrahúsið til Keflavíkur?
Og ekki er það sjaldgæfara að heyra að aðrar þjóðir séu með flugvelli sína langt frá höfuðborginni. En athugaðu lesandi góður að þar erum við að tala um alþjóðaflugvelli, millilandavelli! Það má vera að fæstir séu með hann í sjálfri miðborginni (þrátt fyrir að eiginlegur miðpunktur Reykjavíkur sé í raun í fossvoginum núna), en það er deginum ljósara að Keflavík er staðsettur lengst frá höfuðborg en allar okkar nágranna og samanburðarþjóðir. Þetta sýnir mynd Matthíasar Sveinbjörnssonar mjög glögglega og læt ég hana fylgja með hér lesendum til glöggvunar. Flestar þjóðirnar hafa yfir að ráða flugvöllum innan borgarmarka hvort sem er í fullri eða takmarkaðri þjónustu til innanlandsflugs og/eða sjúkraflugs.
En sérfræðingar almúgans hafa fundið út að lest milli Reykjavíkur og Keflavíkur muni leysa vandamálið! Já, og á Íslandi þar sem allir keppast við að nota almenningssamgöngur umfram einkabílinn! Vita þessir sérfræðingar hvað lestarsamgöngur við Gardermoenflugvöll í Noregi (Osló-Gardermoen) kostuðu og kosta reyndar enn þann dag í dag? Osló-Gardermoen lestin kostaði yfir 150 milljarða króna (á gamla genginu) og er rekin með 1,5 milljarða kr. tapi á ári hverju. Samt er þar þegar til staðar öll þjónusta við lestarsamgöngur á borð við stöðvar, þekkingu, starfsmenn, stjórnstöðvar, viðgerðarbúnað og teymi, o.s.frv. Úr hvaða rassvasa ætla borgarbúar að sækja þessa peninga og hvar á slík lest að stöðva ef ekki í Mjódd, sem myndi þá þegar lengja ferð hvers borgarbúa og akstur um rúmlega það sem þeir þurfa í dag?
Og hættan á flugslysi er jafnan nefnd í umræðu sem þessari en skoði menn aðflugsstefnur í loftmynd og þær flughæðir sem hafðar eru komast menn fljótt að því að lítil sem engin hætta er á ferð. Ég býst við að fleiri dauðsföll verði af öðrum orsökum á þessu svæði verði því breytt í byggð en ella. Það sannar tölfræðin.
Og sé þetta svæði svona verðmætt, afhverju hefur þá engum hugnast að fylla tjörnina og byggja á henni? Heilmikið svæði á besta stað og myndi geta náð út að höfuðstöðvum Íslenskrar erfðargreiningar. Og Öskjuhlíðin? Reyndar hefur fyrrverandi meirihluti séð til þess að hlíðin fari fljótlega undir byggð (en af nægu er að taka).
Og hvers er ákvörðunin? Í fyrsta lagi á ríkið um helming þess lands sem flugvöllurinn stendur á (ásamt flestum byggingum og mannvirkjum sem á honum stendur). Í öðru lagi þjónar þessi völlur öllu landinu og að auki er flest stjórnsýslan staðsett hér í borginni. Eitthvað myndu menn segja ef Sandgerðisbúar myndu nú allt í einu kjósa Keflavíkurflugvöll út af borðinu og opna verslunarmiðstöð á svæðinu þar sem það þjónaði þeirra hagsmunum betur en völlurinn? Er í lagi með fólk?
Það er þó ljóst að það má breyta vallarstæðinu og stytta brautir án teljandi vandamála en þó verður að hugsa með öryggi flugfarþega í huga. Vindur er fluginu mikilvægur og krossbraut er öruggasta leiðin. Hér er mikilvægt að meta hagsmuni fólksins í heild umfram buddu borgarinnar!
VG í Skagafirði mótmælir flutningi Reykjavíkurflugvallar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Rétt er það Þorsteinn. Eins og ég bendi á er líklega hagkvæmara að byggja á tjörninni ef þetta er spurning um verðmætt byggingarsvæði (nærtækt dæmi væri Kastrup-flugvöllur sem liggur á mjög verðmætu byggingasvæði). Menn gleyma nefnilega að flutningur á flugvelli er ekki í myndinni... leggja verður þennan niður og byggja nýjan. Það verður ekkert flutt nema að einhverjar stórkostlegar uppgötvanir verði gerðar á verkfræðisviðinu sem leyfa flutning slíkra mannvirkja.
Frosti Heimisson, 26.8.2008 kl. 23:57
Takk fyrir góða fræðandi færslu.
Fæ að geyma hana hjá mér...
Halla Rut , 2.9.2008 kl. 19:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.