Helgarferð og flugveiki

Helgin síðasta var hin skemmtilegasta en við fjölskyldan skruppum austur fyrir Kirkjubæjarklaustur, nánar tiltekið 25 km austar, ásamt hjúkkuklúbb Evu að Maríubakka þar sem Auja vinkona Evu og Bjarki maður hennar búa á sveitabæ.  Tilefnið var það sama og flestir saumaklúbbar og uppákomur þessa hóps ganga út á; koma saman, hafa gaman, skála... og uppskera svo bara eftir því sem niður var sett.  Og niður var jú sett... og upp var jú skorið.

En áður en ég útskýri það mikið frekar er gaman að segja frá staðarháttum, en Maríubakki stendur eins og áður segir um 25km austur af Klaustri og stendur á 1.400 hektara jörð sem nær að ég held frá fjallgarði niður að sjó og langt í vestur (og þá líklega jafnlangt í austur, þ.e.a.s. frá vestri... ehemm Shocking).  Þrátt fyrir þungskýjað og ómerkilegt veður lét Hvannadalshnjúkur sjá í sig af og til með stórfenglegum sólstöfum að ofan, okkur til aðdáunar.  Það er nokkuð klárt mál að þangað verðum við að koma aftur í betra veðri.  Bjarki, eiginmaður Auju, er semsagt orðinn hálfgerður bóndi (að eigin sögn) en ræður þarna yfir allskonar tólum og tækjum og ræktar gulrófur í bland við búskapinn.  Þetta auðvitað gerir að verkum að Mummi og Viktoría fengu að sjá heimalninga drekka úr pela, hræða líftóruna úr einhverjum aumingja hænum (sem höfðu þegar lent í öðrum heimilishundinum) og hlæja hrein ósköp af "kindakúk" sem lá á víð og dreif um sveitina.  Ég held hreinlega að börn fái að sjá of lítið af sveitinni þegar þau alast upp í borg og það hugsa ég að sé engum hollt.  Ég nefnilega var svo heppinn að pabbi hafði lúmskt gaman af sveitinni og við áttum frændfólk á bæjum hingað og þangað.  Því fékk ég reglulega að sjá þegar beljum var sleppt út að vori og ekki skemmdi fyrir að ég átti frænku fyrir norðan þar sem ég sótti sumarbúðir og þar fékk ég að kynnast hestum og sveitinni eins og þau hjónin þekktu hana.  Hæfilega góð blanda úr báðum áttum; kristilegt uppeldi á Ástjörn og svo sleppt til Tryggva á Hóli sem reykti eins og strompur og blótaði meira en harðasti togarasjómaður.

Á laugardeginum byrjaði dagskráin á göngutúr um sveitina og þvínæst var jafntefli við dani fagnað ógurlega.  Þvínæst var svo farið í sund á Klaustri á meðan hjúkkurnar fengu að skoða Heilsugæsluna á svæðinu.  Því miður fengum við karlarnir ekki að skoða... ó þú ósanngjarna veröld!   Að loknu sundi og ómældri ánægju sonar míns af hárþvotti dagsins, fórum við til baka og hófum að undirbúa grillveislu kvöldsins sem endaði vissulega í fortjaldspartíi og tilheyrandi óstöðugum en áhrifamiklum danssporum hjúkkanna.

Á sunnudagsmorguninn var ákveðið af hinu æðra að ég skyldi vera píslarvottur dagsins og þar með taka á mig hausverk fyrir allar hörmungar alheimsins síðustu 10.000 árin.  Og allt þetta fyrir 10-12 bjóra!  Tel a.m.k. sanngjarnt að ég fái einhvern platta hið efra fyrir þetta... get ekki ímyndað mér að Jing og Jang eða hvað þetta jafnvægisdót heitir hafi verið í miklu jafnvægi þennan daginn.  Svo fær maður sér pillu og allt er í himnalagi eftir 30 mínútur eða svo.  It's so good to be back... alive.

Já og svo að lokum.  Flugvélin mín er veik.  Upp komst um veikindin þegar Steini Tótu, flugvirkinn minn, var að vinna í vélinni.  Svo virðist sem að kveikjukerfi vélarinnar sé ekki við fulla heilsu (það er svosem ekki mitt heldur) og til að laga það þarf líklega að kaupa varahluti fyrir einhverja tíuþúsundkalla.  Venjulegt viðhald skráist það víst og ekkert annað en að ganga í málið.   Af þessu leiðri að mannfólkið er semsagt eins og flugvélar:  Þegar hættir að neista þá þarf víst viðhald.  Á meðan er fólki óhætt að tala við mig þar sem ég er ekki vís til þess að bjóða viðkomandi í flugferð.

Annars er allt gott að frétta af öllum hér í Einarsnesinu.  Eitthvað hústökufólk við hliðina á okkur (sem fékk lánað húsið og býr í New York) hefur verið með stanslausar samkomur í húsinu og bílastæðin alltaf full eins og að það sé verið að ferma eða gifta.  Ekki bætir úr skák að hjallurinn fyrir framan okkur er nú stútfullur af einhverjum gargandi spánverjum sem eru hérna í einhverjum sjálfboðaliðastörfum fyrir húseigandann.  Ég á því von á einhverjum uppákomum næstu daga, byrjaði eiginlega í nótt um kl. 2 þegar þeir ákváðu að prófa trampólínið með tilheyrandi látum.  Sjáum hvað setur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Talandi um þig og Evu og sveitina.Ég gleymi seint þegar bóndi við Bitrufjörð,sem leyfði okkur að gista í tjaldvagninum okkar á bæjarhlaðinu- á síðasta fjórðungi síðustu aldar- horfði tregafullum, társtokknum augum á mig að lokinni fjósakynningu með Evu og sagði:"Blessað borgarbarnið. Hún spurði mig hvers vegna við notuðum ekki bara mjólkurfernur".

Mummi senior (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband