Pæjumót og ehemm... flug...

Þá er sumarfríið að mestu að baki og hefðbundin aðalfundarstörf hafin í Einarsnesinu.  Við hjónin snerum aftur til vinnu, Mummi fór aftur í leikskólann en Viktoría fær að njóta lífsins eitthvað örlítið lengur og sækir skátanámskeið þar til skólinn hefst á ný.  Að koma Mumma á leikskólann er samt búið að vera dálítið eins og að fá alka til að sleppa hönd af flöskunni enda litli gaur farinn að fíla lífið svona með alla athyglina, súkkulaðikex í morgunmat (óumbeðið vissulega) og teiknimyndagláp í óhófi.  En þetta er allt að koma.

En frásögum er þó fremur færandi helgarferð okkar hjóna á Siglufjörð þar sem Viktoría Lovísa okkar keppti með 6. flokk KR-kvenna í knattspyrnu (skammstafað KKK... neeeiiii), en þar fór fram hið árlega Pæjumót.  Viktoría fékk að fljóta í með vinkonu sinni á fimmtudeginum til að geta tekið þátt í leikjum föstudagsins en við hjónin stungum af eftir vinnu á föstudeginum og vorum komin á Siglufjörð seint um kvöld.  (Þetta var auðvitað eftir að Eva hafði gengið úr skugga um að foreldrar vinkonunnar væru nú örugglega á einhverju "CE" (Certified by Eva) merktu ökutæki, en Toyota Hilux, 2008 árgerð, á 35 tommum fellur einmitt undir þá skilgreiningu).  Þar tjölduðum við innnan um önnur KR foreldri sem slógu með móttökum sínum á þrálátan ótta okkar um að þetta yrði eitthvað bindindismót með öllu tilheyrandi.  Hikk og skál fyrir því. 

Viktoría, sem af sínum víðfræga aðskilnaðarkvíða hafði hringt í okkur samviskusamlega á klukkustundarfresti og kannað hvort við værum nú ekki alveg örugglega að koma, var ekki lengi að sannfæra móður sína um að fá að gista hjá okkur sem var auðvitað sjálfsagt.  Við spjölluðum svo eitthvað frameftir kvöldi við þessa ágætu samkomu og fórum svo að sofa eftir að hafa drekkt sorgum dagsins en B-lið KR (lið Viktoríu) tapaði sínum tveimur leikjum.  Huggun harmi gegn hafði A-liðið unnið sína.  Undarlegt hvernig B-liðið var þarna "til að vera með og hafa gaman af" en A-liðið hafði einhvern veginn fengið "hva auðvitað komum við hingað til að vinna!!! komasssoooo" stimpilinn.  Líklega eins merkingarlaust og "rigningin er svo góð fyrir gróðurinn".

Daginn eftir var svo haldið inn í dal þar sem mótið fór fram.  Viktoría kom hin sprækasta og ætlaði sér stóra hluti með liðinu þennan daginn.  Ég, þessi líka fótboltaóríenteraði spesjalisti, mætti á hliðarlínuna og ætlaði nú heldur betur að horfa á þessa æstu foreldra orga úr sér lungu og líffæri og úthúða dómaranum svo hann ætti ekki afturkvæmt ef úrslit yrðu ekki liðinu hagstæð.  Dómarinn flautar til leiks og eitthvað ónýtt lið frá einhverju dreifbýli att nú kappi við dóttur mína... verulega spennandi GetLost.  Ég sver það að það liðu líklega ekki meira en 30 sekúndur þar til ég hafði fundið ímyndaðan símaklefa, rokið inn í hann á hljóðhraða, rifið mig úr hversdagslega áhorfandaklæðnaðinum, smeygt mér í ímyndaða KR "outfittið" og rokið þvínæst á miðja hliðarlínuna við hlið þjálfarans.  Og gerandi nema hvað?  Devil ORGAÐ úr mér lungun einhverjar setningar sem ég vissi ekki að ég ætti til í bankanum... "Í boltann!!!", "Gef'ann", "Spila upp völlinn", "Gefa fyrir" og fleiri vitsmunalegar setningar ruddust hreinlega upp úr mér um leið og ég skráði hverja einustu setningu sem heyrðist frá öðrum foreldrum á listann.  Um tíma komst þjálfarinn ekki að og ég varð eiginlega (þó án ábendinga) að hafa mig hægan svo hann fengi nú smá séns á að stjórna liðinu.  En ég get alveg sagt ykkur að þetta þurfti!  Já þetta þurfti svo sannanlega!  Önnur hver þessara stelpa átti það til að standa og glápa út í loftið af og til, nú eða það sem verra var, þorði ekki í boltann... hljóp bara svona með eins og það það væri kominn tími til að "jogga" með hinu liðinu (já, dóttir mín er samsek).  Það þurfti semsagt mikinn innri sannfæringarkraft til að öskra hreinlega ekki á suma foreldrana sem horfðu bara með aðdáun á börnin sín þarna... sem á endanum eru bara 8 og 9 ára gamlar stelpur sem eru rétt að kynnast íþróttinni og koma til að eiga skemmtilega stund með öðrum 8 og 9 ára stelpum. 

Og þarna stóð ég horfandi út í loftið að hugsa þetta á meðan stelpurnar skoruðu mark Woundering.  Ætli athyglisbresturinn sé smitandi?  

Já og þær skoruðu mark... og annað.  Og ekki nóg með það, þær unnu næstu tvo leiki líka.  Skyndilega varð mottóinu að "vera með og hafa gaman af" vikið fyrir hið mun skynsamlegra og þjálla "koma og sigra.  Allt mér að þakka auðvitað (eða það fannst mér) og liðið allt annað og samheldnara fyrir mín orð (eða það fannst mér).  

Við Eva fórum þvínæst niður í tjaldbúðir þar sem slegið var upp pylsupartíi og báðum liðum fagnað.   Að því loknu fór Viktoría með hópnum í mat og sund en hjá okkur tók við 2ja tíma miðdagsblundur með Mumma á milli, og það er ekki slæmt skal eg segja ykkur.  Síðar um kvöldið var svo grillað og hið forna og sænska Kubb spil spilað fram eftir nóttu.  Fyrir þá sem vilja kynna sér það geta farið hingað: http://www.oldtimegames.com/ 

Þrátt fyrir öskur mín daginn eftir varð nú því miður svo að stelpurnar töpuðu sínum tveimur leikjum.  Og Viktoría mín sem ætlaði sér nú heldur betur að standa sig var farin að efast um sjálfa sig.  "Ég gerði ekkert gagn á vellinum" varð til þess að ég þurfti að endurskoða taktíkina sem snerist í einni hendingu úr því að vera froðufellandi öskur og fótstapp á hliðarlínunni í hefðbundnara faðmlag og hughreystingarorð sem voru eitthvað mildari en skrifuð höfðu verið að öskurlistann.  Dóttir mín er reyndar svo sterk í mótvægi að ég held að það sé hreinlega henni auðveldara að tapa en að vinna.  Hún átti því ekki í nokkrum vandræðum með að hughreysta pabba sinn með orðunum "það skiptir mestu að vera bara með" og samfagna svo með vinkonum sínum í A-liðinu þegar þær sigruðu svo Pæjumótið með glæsibrag.  Ég, pabbinn sem "geri ekki mikið gagn" í fótbolta, vona að ég geri meira gagn í að vera pabbi.  Ætlli ég þurfi samt ekki að rifja upp einhver grunnspor í garðinum með börnunum og sækja leiki (fínn í að öskra eins og áður segir), því ég hef í alvörunni fulla trú á að Viktoría geti orðið mjög frambærileg í fótbolta ef hún byggir upp örlítið meira sjálftraust og fer að spila meira með liðinu.

Heimferðin var þægileg þrátt fyrir mikla umferð.  Fengum okkur að borða á Pottinum og pönnunni á Blönduósi (því annars bölvaða plássi ... já ég mun aldrei sætta mig við lögregluna þar) og fórum svo í sund í Borgarnesi í næstum 20°C hita og sól.  Þegar við komum svo í bæinn fór ég rakleiðis upp á flugvöll og gerði nokkrar breytingar á mótorstillingum og fór svo í langþráðan flugtúr (alveg síðan á fimmtudag).  Ég ætlaði að skoða umferðina úr lofti og þá sérstaklega við gangnamuna Hvalfjarðargangnanna en lenti ég í svakalegri ókyrrð við Esjurætur að ég þurfti að snúa við.  Ég hugsa að Eva mín hefði ekki viljað vera með í þeirri ferð.  Ég tók í stað þess stefnuna á Sandskeið og þvínæst inn að Bláfjallaskála sem ég hafði lengi ætlað mér að skoða úr lofti.  Ágætis flug í alla staði og skemmtilegt.  Mun taka myndavélina í næstu ferð til að leyfa ykkur að njóta en hleðslutækið gleymdist í Svíþjóð en er á leiðinni heim (eins og Halim Al).   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég verð að taka hattinn ofan fyrir þér Funi minn. Ég vissi þetta allan tímann að þú hefðir brennandi áhuga á fótbolta, og best að byrja þarna til að vekja áhugann aftur. Ég var að vísu farinn að efast eftir að ég hélt að þú værir nú loks orðinn knattspyrnuáhugamaður; hafandi innréttað rétt fokhelt Einarsnesið og gert að paradís áhugamannsins, þ.e. gervihnöttur, sófi og öldæla. Ekki nóg með það heldur var áhuginn líka fyrir hendi á framgangi HM 2006, eða var það ekki? Síðan hefur að vísu ekki farið fyrir knattspyrnu commentum.... fyrr en núna. Læt eftirfarandi fylgja með svona þér til aðstoðar: http://en.wikipedia.org/wiki/Soccer

Góðar stundir,

Bóbó von Volga

Bóbó (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 20:50

2 identicon

Óborganlegir pistlar!Sammála Bóbu frá Volgu um leyndan knattspyrnuáhuga þinn.Þetta með óróann undan Esjurótum kemur engum flugeggjara á óvart í N-A hæglætinu.Eða þyrillinn við Tíðarskarð... Vona að summan af sjö sé sú sama og 7x0 = 0. Annars birtist þetta aldrei.

Mummi Senior (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband