Kominn heim...

Rétt get ég ímyndað mér hversu mikið þið lesendur góðir hafið saknað mín undanfarið.  Ástæðan er ekki þið, heldur fór ég til Skandinavíu í sumarfrí.  Auðvitað ætlaði ég að blogga daglega og senda inn myndir en þar sem ég eyddi mestum tíma mínum í sænskri sveit þar sem netsamband er álíka hraðvirkt og íslensk stjórnsýsla, þá var ekki tíma í það eyðandi að ræsa nettenginguna, hvað þá að ráðast í ritstörf.  Ekki hjálpaði 30 stiga hitinn og því varð úr að ekkert var bloggað þá ferðina.

En ferðin var góð.  Við fjölskyldan byrjuðum á að heimsækja Rakel (systur Evu) og Badda í Köben og fengum að berja nýfætt barn þeirra (augum að sjálfsögðu) og vorum sótt á limúsínu þeirra hjóna út á Kastrup flugvöll af tengdapabba sem hafði gert sig heimakæran á þeim bænum.  Baddi er nefnilega orðinn yfirstrumpur hjá Íslandsflugi í Kaupmannahöfn og hefur það hreint ekki slæmt og er allur hinn sælasti með lífið og tilveruna ásamt spúsu sinni með nýfædda soninn við bakka Dónár, Rínar eða hvað þessi skurður nú annars heitir.  Kanallinn var hann víst kallaður meðal okkar "ekki-fræðimanna".  Skemmtileg Feneyjarstemmning þarna og ofsalega fínt útsýni í allar áttir.  Já, ekki amalegt að geta setið og horft á danska Tuborgsullandi allsbera strípalinga skoppast um á Íslandsbryggju... í bland við sólarlagið auðvitað.  Það verður víst ekki tekið af þeim hjónakornum að þau kunna að koma sér fyrir, þótt það virðist úr fjarlægð eins og þau eigi erfitt með að ákveða sig; Danmörk, England, Ísland, Noregur, Danmörk... vonandi að þau komi samt heim á endanum.  En íbúðin þeirra er öll hin glæsilegasta enda nánast eins og að við hjónin hefðum hannað hana :) ... sama eldúsinnréttingin, sömu barstólarnir, nánast sami sófinn, hehe.  Ekki skemmir að handan götunnar er Fisketorvet verslunarmiðstöðin og McDonalds að sjálfsögðu fyrir Badda.

Eftir heimsóknina stungum við hjónin af til hitt aumingjaelskandilandið, næsta land semsagt, Svíþjóð.  Þar kostar allt minna nema bjór ... og áfengi.   Já, Svíar er merkileg kvikindi.  Hafa tileinkað sér menningu annarra landa í hvívetna, t.a.m. þjónustulund frakka (sem er engin), viðbragðshraða dana (sem er engin), jafnréttisstefnu Kúbverja og þar fram eftir götunum.  En veðrið er fínt og það að búa úti í sveit, þar sem enginn lifandi svíi sýnir sig, er fínt.  Við nefnilega erum svo heppin að hafa aðgang að húsi foreldra minna í Svíþjóð, svona einskonar sumarhúsi.  Þau hjónin keyptu gamlan bóndabæ og gerðu upp fyrir nokkrum árum síðan og þar er ofsa gott að vera.  Öll aðstaða til alls, svefnpláss fyrir 14, gestahús, stærðar garður o.s.frv.  Auðvitað er ekkert fullkomið í þessum heimi en fyrir henni Evu minni er þarna stórfljót (árspræna sem gengur í gegnum landið), geitungar á stærð við haferni (henni finnst það) og svo þessi bölvuðu "festning" eða "tick", einhver ósýnileg dýr sem bera með sér svarta-dauða (ef ég skildi latnestu heitin rétt) og er erfiðara að fjarlægja en vinstri græna af þingi.  Semsagt... paradís!

Við gistum þarna næstu dagana og notðum tímann til að leyfa krökkunum að njóta sín í garðinum, svolgruðum í okkur sænskar dýrindis veigar og "meððí", og teygðum úr okkur í sólinni á pallinum.  Ég, þessi rólyndistýpa og náttúruelskandi mannvera, hafði ekki einu sinni fyrir að tengja loftnetið við sjónvarpið (sem var einöngu notað til hugeflismeðferða fyrir börnin okkar og gestkomandi)... jahá!, stalst aðeins nokkrum sinnum á netið í gegnum gemsann.  Þetta hús er nefnilega úti í skógi (þótt það sé ekki beint úti í hinu svokallaða "Rassgati") en af þeim sökum geta afslöppuðu sænsku kjötbollurnar hjá Telia ekki hugsað sér að leggja mannsæmandi símalínur að bæjunum, þrátt fyrir þeirra alþekktu janfréttisstefnu.  Ég vissi það nefnilega ekki, en hún gengur meira út á að allir eigi að hafa það jafn skítt.  

 Við vorum ekki búin að vera lengi á herragarðinum fyrr en að við fengum óvænta heimsókn en þar voru á ferðinni Tryggvi frændi minn og Katý kona hans ásamt tveimur börnum þeirra.  Þau voru á "roadtrippi" um Svíþjóð og nærliggjandi bæli og ákváðu að stinga inn höfðinu sem auðvitað endaði með heljarins matarboði og neyslu áfengra drykkja.  Það er náttúrulega ekki tækt að bjóða fólki í mat út í skóg, úti í "eiginlegaekkirassgati", og senda það svo aftur heim.  Nei... nóg er plássið og þessir þreyttu ferðalangar hvíldu beinin í sveitinni og héldu svo áfram daginn eftir.  Kærkomin heimsókn og skemmtileg enda hafði ég ekki séð þau fjölskylduna í mörg ár og þar sem þau búa reyndar úti í norsku rassgati, Bergen nánar tiltekið, hefur maður ekki beint átt leið um sveitina þeirra til svona hittings.  

Svo eyddum við næstu dögunum í að heimsækja dýragarðinn á Skáni o.fl. spennandi og fórum svo til Malmö til Siggu systur þar sem hún býr glæsilega í veglegu húsi á besta stað í göngufæri við ströndina.  Ofsa gott að koma þangað því þar er gert ráð fyrir brjáluðum börnum... og ég á nefnilega svoleiðis :)  Börnin fá semsagt stórt leikrými þar, fullt af allskyns leikföngum, og svo fer maður bara út í garð og fær sér öl og vonar að þau slasi sig ekki (alvarlega).  Og svona setningu á maður bara að enda eins og Birgir Bragason ökuþór og akstursíþróttakynnir sagði alltaf svo skemmtilega: "Sem er mjög gott að mínu mati".

Frá Malmö fórum við svo í nokkra "skreppitúra".  Fyrstu var túr til Köben þar sem við hittum tengdó og fórum í siglingu um ofangreinda á, Volgu... eða hvað hún heitir, og sáum Köben frá öðru sjónarhorni.  Fórum svo í land við Nýhöfn og keyptum rándýran hamborgara, rándýrar franskar, rándýra bjóra og rándýran ís í eftirrétt.  Svo fórum við í göngutúr um svæðið og skoðuðum einhverja 13 ára sumarvinnustarfsmenn marsera við konungshöllina en drottningin var víst ekki á svæðinu til að taka á móti okkur.  Ég held reyndar að hún hafi látið sig hverfa eftir að reykingar voru bannaðar á opinberum stöðum í Danmörku nú nýverið.  Held að hún dvelji flesta daga á Portúgal þar sem þær eru ennþá leyfðar.  Svo kíkir hún bara við með níkótíntyggjó þegar hún þarf að aðla einhvern eða slá til riddara.  En höllin er fín og Kristján X tignarlegur á hestbakinu, en þetta var svona það eftirminnilegasta í göngutúrnum.  Það er nefnilega þannig þegar maður er með börn (sko okkar týpu af þeim) að maður man ferðina eins og mors kóða... Mummi hættu - Mummi!! - Viktoría, viltu láta bróður þinn vera - Ekki þarna drengur - Viltu láta byssuna hans vera!!! - ekki svona í framan! - nei bakkaðu - svona! já... - Viktoría!! ... o.s.frv... og svo koma smá glefsur; "vá flott höll!"... og svo aftur "Mummi!!! ekki bíta hana systur þína!! - Viktoría, nennirðu að vera góð við hann...  þar til að þau fá ís eða nammi og gleyma sér í eins og 5 mínútur.  Eftir þetta hittum við svo Rakel og Badda ásamt litla kút og fengum okkur öl við bakka Thames... nú eða hvað hún þá heitir.  Fórum svo með hlykkjum aftur til Malmö og gistum þar. 

Daginn eftir fórum við í Legoland.  Þar mega danir eiga að sá garður gefur Disneyworld ekkert eftir (nema þá kannski í stærð og umfangi).  Flottur garður og skemmtilegur í alla staði og krakkarnir skemmtu sér vel.  Svona getur ferðaþjónusta virkað segi ég... skemmtigarður úti í dönsku rassgati og ekki kæmi mér á óvart að Billund-flugvöllur væri byggður út af þessum garði meira og minna.  Ótrúlegt að sjá hvað þeir gera líkönin vel og smíða þau nákvæmlega.  Nærðum börnin og komum á endanum við í búð þar sem við fylltum bílinn af ódýru áfengi áður en við stungum af aftur til Malmö.

Þessu næst héldum við í þriðju ferðina til Danaveldis þar sem við heimsóttum Ellu og Atla vinafólk okkar, en þau búa í litlum vinalegum bæ rétt utan við Köben.  Við ákváðum að hitta þau á ströndinni en skammtímaminnið mitt (sem er ígildi gúbbífisks) leiddi okkur á aðrar slóðir en þau voru þó ekki lengi að hafa upp á okkur og saman fórum við heim til þeirra.  Þar leigja þau ofsa fínt hús með glæsilegum og stórum garði en eru sorglega að kveðja það pláss þar sem þau eru að flytja heim í enda sumars.  Við fengum því að dvelja hjá þeim um nóttina og eyða með þeim degi á ströndinni daginn eftir.  Kærar þakkir fyrir það.

Nú eftir þetta var komið að því að kveðja og stinga af aftur til Svíþjóðar þar sem við dvöldum svo síðar í sumarhúsinu áðurgreinda.  Þar höfðum við uppi á frábæru vatni með strandaraðstöðu og öllum munaði þar sem við eyddum næstum tveimur dögum á, en í millitíðinni komu Guðrún systir og Hössi hennar í heimsókn ásamt vinafólki sínu frá Danmörku.  Það eru elskulegustu íslendingar og komu með börnin sín með sér sem léku sér svo við Mumma og Viktoríu.  Fín blanda það.  Ég komst reyndar að því að mágur minn verðandi er meiri nörd en ég þorði að trúa en þessi vinur hans er það líka og saman spila þeir eitthvað illskiljanlegt spil sem færir þá í heim vampíra og varúlfa en menn þurfa held ég að vera á tiltölulega sterkum lyfjum til að geta tekið þátt eða stundað svona spilamennsku... eða það held ég.  Já, nörðurinn mágur minn er ekki bara þenkjandi um alla heimsins geima heldur er hann líka að spila "Roleplay".  Það bjargar þó málum að allir spilum við hina alþjóðlegu afþreyingaríþrótt "glasalyftingar" og þannig náðum við að "bonda" líkt og bræður fram á rauða nótt.

Næsta dag tókum við til og gengum frá húsinu og komum okkur aftur til Malmö.  Þá sóttum við Siggu systur og David hennar út á völl og svo var haldin heilmikil veisla og svo tóku við strandarferðir næstu tvo daga og innkaupaferðir í kjölfarið.  Siggu systur þykir nefnilega ekkert leiðinlegt að versla.  Hún er eiginlega þindarlaus þegar kemur að því að versla.  Hún er náttúrulega týpískur kvenmaður, verslar, eyðir, skipuleggur allt og á 100 skópör (í það minnsta).  Þess utan er hún ofsa góð móðir og svo hatar hún svía.  Hið fyrrnefnda er nefnilega ekkert svo sjálfsagt. 

Já, það var gott að koma til ykkar allra, hitta þetta fólk og fá að eyða með því tíma og ánægjulegum stundum.  Krakkarnir okkar fengu að upplifa og sjá fullt af hlutum og voru alsæl með ferðina.  Þegar maður lítur til baka, þá voru þau meira að segja bara hin þægustu... a.m.k. þegar þau sváfu.  Það er nefnilega þannig með börnin mín ... og Evu.

...og meira að segja ég slappaði af. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll höfðingi.

Gaman að heyra af ævintýrum þínum í Svíaríki og aftekum í flugíþróttinni.

Vertu áfram duglegur að blogga.

 Kv. SG

Sigfus (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 11:48

2 identicon

Sæll mágur minn og takk fyrir síðast :) Hlökkum svo mikið til að koma til Íslands og hitta ykkur aftur! Endilega vertu duglegur að henda inn bloggum, þú ert alveg ótrúlega skemmtilegur penni.

knús frá Köben

Rakel í skurðinum ;) (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 10:44

3 identicon

Sæll Hrotti minn.

Skemmtileg lesning, þú hefur greinilega náð að lauma svona einsog einni belju með í töskuna á heimleiðinni. Varla varstu allsgáður við þessar skriftir? Óvenju skemmtilegur alveg. :)

Bestu kveðjur frá bökkum Nílar

Bóbó

Bedö (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband