1.7.2008 | 00:52
Úttekt á fisvél
Í dag var enn einum áfanganum náð í fisfluginu hjá mér. Ég var tekinn út af Hálfdáni flugstjóra, testflugmanni, flugkennara, fisflugmanni, o.s.frv. og það merkir að ég fæ núna skírteini fisflugmanns frá FMS (Flugmálastjórn) og get því farið að "logga" næstu 25 klst. af flugi sem gefa mér réttindi til farþegaflugs. Þetta færir vissulega nýtt og spennandi líf í sportið og skemmtilegt að fá að upplifa flugið með öðrum en flugmönnum í framhaldinu. Ég semsagt má fljúga með farþega í dag en sá farþegi verður að vera flugmaður með farþegaréttindi.
Prófið var með þægilegra móti. Flugum frá Grund á TF-134 og að Hafravatni og fórum í um 2000 feta hæð þar sem Hálfdán lét mig taka nokkrar æfingar, fljúga í hringi hægt og hratt, halda hæð, æfðum viðbrögð við mótorstoppi, stolluðum dálítið og enduðum á að æfa aðflug í hliðarvindslendingu og lentum svo á styttri brautinni á Grund. Gekk semsagt vel og Hálfdán, sem er "by the way" ekkert hálfdán neitt, tók í spaðann á kallinum og óskaði mér til hamingju með prófið. Svona var það þá bara. Reyndar verður að segjast að ég sé búinn að vanda til verks, enda með rúma 50 tíma í heildarflugreynslu, þar af um 27 í sóló. Flestir taka um 10 og 10 tíma í þetta m.v. að flýta sér.
Já ekkert stress hér en spenningur að fá að taka fyrsta alvöru farþegann þegar allt verður frágengið, klappað og klárt.
Sökum slæmrar veðurspár ákvað ég að fljúga austur og geyma vélina í skýlinu á Selfossi og gekk það flug fínt. Eva keyrði austur og sótti mig og dekraði svo við mig heima með kjúklingapítu og með'ví. Meira síðar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.