29.6.2008 | 22:02
Allir komnir heim
Jæja, þá er mín elsku ektafrú komin heim frá Vín, sólbrún og sæt, en þreytt eftir langt ferðalag. Hún og tengdamamma flugu nefnilega frá Munchen, en til þess að komast þangað urðu þær að ferðast fyrst með lest og þaðan með flugi til Íslands. Ferðin hjá þeim var hin ágætasta, þrjátíuog ex margar gráður og ansi heitt fyrir víkingahúðina heiman af Fróni. Við hin, ég, Viktoría og Mummi, erum við ágæta heilsu þrátt fyrir vikulanga dvöl án fimmstjörnukokksins og heimasætunnar og berum okkur nokkuð vel miðað við aðstæður ;)
Við fórum hinsvegar 3 á tónleika SigurRósar og Bjarkar í Laugardalinn og skemmtum okkur ágætlega, fengum ofsa fínt grillkjöt hjá Kristínu systur og Bjarna á Laugarásveginum á undan og röltum svo á tónleikana heiman frá þeim. En hey... þetta er ekkert spennandi saga. Ég uppgötvaði náttúrulega þegar ég var kominn á tónleikasvæðið að ég hafði strax týnt Viktoríu. Alveg hreint týpískt! Reyndar kom það svo á daginn að ég hafði ekki týnt henni, neiii... gleymt! Já ég gleymdi henni á Laugarásveginum og þegar ég svo hringdi í gemsann hennar, þá svaraði hún, þessi elska, á kurteisislegan máta og spurði mig hvenær ég ætlaði að sækja hana . Glæsilegur ég. Ég sótti hana svo og við tókum stöðuna á SigurRós áður en við stungum af og tókum spólu fyrir kvöldið. Góður dagur í dag.
Myndin þessi er af ömmu minni, Sigríði Helgadóttur, betur þekktri sem Ömmu Siggu, á tónleikum SigurRósar. Hún er ein af þeim merkilegri ef ekki sú merkilegasta sem ég hef kynnst. Á hverjum miðvikudegi er hádegismatur hjá henni fyrir þá sem vilja, grjónagrautur eins klassískur og hann getur orðið og allskyns góðgæti með, súrmatur, harðfiskur, slátur, rúgbrauð, síld o.s.frv. 85 ára gömul færi hún létt með að klifra fjöll með mér eða ganga Laugaveginn (fjallaleiðina þ.e.a.s.) en það sem tengir hana við þessa tilteknu tónleika er að hun lék nýverið í tónlistarmyndbandi SigurRósar, Hoppípolla. Já, stórstjarna víðar en með áhugaleikhúsunum sem hún starfar svo ötullega við.
Hér á YouTube má sjá þessa frábæru manneskju, ömmu mína, ljá SigurRós hæfileika sína:
Flugskýrsla: Fór reyndar í stutt flug á föstudaginn, flaug yfir nýju brautina okkar þar sem vökvun var í gangi og stóðst ekki mátið og lenti við hliðina á henni á mölinni, ansi gott bara. Flaug svo upp að Úlfarsfelli aftur og æfði uppstreymisflug sem er baaara gaman. Sveif meira og minna með eyðslumælinn í ca. 5 ltr. á klukkustund, ekki slæmt það. Skil alltaf betur og vetur hvernig þessir fýlar fara að við að koma sér án erfiðsins upp eftir heilu fjallshlíðunum - ekkert mál! Fékk ansi gott kikk út úr því að vera fugl í klukkustund eða svo.
Nú snúast áhyggjurnar helst um að hafa vélina bundna upp við flugskýlið að Grund, enda ekki veðurvænt þessa stundina. Hún er reyndar svo vel niðurbundin að ég á meira von á að flugskýlin fjúki en að vélin fari nokkuð, gæti helst skemmst ef flugskýlið flýgur á hana :). Ætla að freista þess að fljúga um miðnætti á morgun eða um það bil austur á Selfoss og koma þessari elsku fyrir í skýli fyrir veður næstu daga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.