Ok, gott er orðið gott!

Eva og tengdó farin til Vínar og ég og Mummi einir eftir í kotinu.  Tómlegt verður að segjast en þó aðeins í nokkra daga, Viktoría heim á miðvikudag og Eva aftur á sunnudaginn.  Vona að það verði frábært hjá þeim úti, alltaf svo gaman að bregða sér í smá afslöppun við og við. 

Hvað haldið þið annars?  Ég fór að fljúga í dag!  Reyndar er þetta ekki hefðbundið, enda var mér boðið af Jóa vini mínum í TF-KAR, gamla Stinson vél frá Kafteinaklúbbnum (Þyt).  Þessi vél er feiknaskemmtileg og minnir á gamla tíma, soldið eins og að setjast upp í gamlan Buick sem hefur verið haldið vel við í gegnum árin og tíðina.  Flugum frá BIRK inn í Borgarfjörð og lentum á Húsafelli þar sem við vorum sóttir í kaffi hjá yfirmanni Jóa í glænýjan og glæsilegan bústað yst í Húsafelli.  Enginn hefðbundinn bústaður þar, bárujárnsklæddur kassi með risagluggum og viðarklæðningu að hluta.  Harðviðspallur allt um kring í bland við dökkgráar steinflísar gerðu þetta að glæsilegasta húsi og líklega ögn skynsamlegra þegar kemur að viðhaldi í framtiðinni.  Glæsilegasta hús semsagt.  Jæja, ekki er þetta spennandi hjal fyrir flugáhugamenn þannig að hér kemur smá rúsína fyrir ykkur.  Jói var nefnilega að safna í PPLið sitt, þ.e.a.s. til að halda teininu gildu og þurfti því að taka lendingar á leiðinni.  Það ætluðum við að gera m.a. á Stóra-Kroppi en þar stóð vindurinn þvert á braut og því var verkið ekki hið auðveldasta (enda Stinsoninn taildragger vél, ekki það þægilegasta í hliðarvindi).  Jói hefur líklega komið inn aðeins of hratt því vélin skoppaði upp og aftur upp nokkrum sinnum og vildi bara ekki hætta að fljúga.  Á sama tíma var vindurinn iðinn við að feykja henni til vinstri og út af braut.  Jói sá hvert stefndi og ákvað að stýra henni út af brautinni út á melinn til að forða þvi að lenda á brautarbaujunum sem marka hana og geta farið illa með vélar sé ekið á þær, tala nú ekki um proppinn.  Þetta tókst semsagt ágætlega og vélin staðnæmdist nokkru utan brautar, dálítið niðurímóti en á fínum stað.  Jói fær 9,5 í einkunn fyrir snar handtök og flotta reddingu og verður að segjast pollrólegur við þessar aðstæður enda heyrði ég hann fyrst segja "Hættu nú að fljúga" nokkrum sinnum, eða ca. í hverju skoppi og svo "Heyrðu, ég ætla bara að skella mér út fyrir braut" um leið og hann fór á milli tveggja bauja.  0,5 er dregið frá þar sem hann ætlaði ekki upphaflega að lenda utan brautar!  Merkilegast fannst mér að ég kippti mér ekki einu sinni upp við þetta, treysti Jóa líklega bara svona vel og nýt næstum 50 tíma "flugreynslu" minnar.  Jæja, ljúft flug heim, upp eftir Skorradalsvatni og yfir Esjuna til Reykjavíkur.  Gott flug í góðum félagsskap.

Í kvöld skrapp ég svo kvöldrúnt og ætlaði bara rétt að kasta kveðju á Guðna kunningja minn sem hafði nýlent Úlfinum á Tungubökkum.  Eftir stutt spjall fór Storkurinn minn í fýlu og startaði ekki, hafði yfirfyllt blöndungana og við tók viðgerð á staðnum (kertin úr, þurrka, raspa, loka, ræsa, etc.)  Guðni reddaði þessu með mér og ég komst í loftið klukkustund síðar.  Vegna pössunarmála þurfti ég því að fara aftur á Grund og tjóðra vélina.  Fer vonandi aftur á morgun eða hinn.

Eitt í þessu.  Ok, ég er enginn leðurklæddur mótorhjólatöffari með neflokk og magasítt skegg, en ég er að óttast það dálitið hvað konur eru hrifnar af vélinni minni og segja mér óspart hvað hún er "dömuleg" og "gvööð hvað hún er lekker" og allt þetta.  Sjáið fyrir ykkur ofangreindan mótorhjólatöffara koma gleiðfætt töltandi að 1500 cc Harley hjólinu sinu, setja upp sólgleraugun, hrækja í hlaðið og hlamma sér svo á hjólið, kickstarta og bruna með látum út í sólarlagið.  Mér líður ekki þannig! 

Eitt svo enn.  Í gærkvöldi flugum við miðnæturflugið, ég og nokkrir drekaflugmenn, austur á Sandskeið og svo til baka með einhverjum ranghölum og útúrdúrum.  Flaug t.d. á ca 60-70 km/h yfir suðurlandsvegi í 700 fetum eða svo og virti fyrir mér traffíkina.  Skoðuðum líka Enduro-keppnina sem var á mótorhjólabrautinni í Jósefsdalnum - mjög skemmtilegt.  Hætti ekki að fljúga fyrr en í morgun :), þ.e.a.s. upp úr kl. 1 og því flaug ég tæknilega í tvo daga ;).  

Ég er svolítið fyrir að fljúga, finnst ykkur það? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: gudni.is

Gaman að lesa þessar lýsingar þínar á skemmtilegum flugtúrum sl. daga. Og mikið var nú ánægjulegt að við skildum koma storknum þínum í gang þarna í gærkvöldi eftir yfirfyllinguna á blöndungunum.

Ég er sjálfur núna hálf þreyttur og stirður eftir mjög mikið flug síðustu daga (ekki svo oft sem maður flýgur nánast yfir sig), en ég var í gærkvöldi að ljúka þriggja daga flug-tjald-útilegu fljúgandi um landið. Það er búið að vera ótrúlega gaman að fljúga í blíðu síðustu daga.

Heyrumst og sjáumst

gudni.is, 23.6.2008 kl. 13:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband