18.6.2008 | 02:02
17. júní allur
Jæja, þá er sá 17. allur. Við fjölskyldan skruppum í Hljómskálagarðinn og krakkarnir komu sér fyrir á fremsta bekk við Brúðubílinn klassíska. Við hjónin komum okkur fyrir utan traðaksins og létum fara vel um okkur í grasinu og 17 stiga hita þar til Eva fór að ókyrrast og fylgjast með hvort börnin væru ekki örugglega að horfa á Dúsk töfratrúð og tríó en það leið ekki á löngu þar til hún kom til mín alvarleg og tjáði mér að "Mummi væri týndur". Ég var náttúrulega hinn pollrólegasti og stóð upp og átti von á að sjá drenginn sitjandi stjarfan við undraverk Helgu Steffensen sjálfrar sem skemmti mér líklega á svipuðu reiki fyrir mööörgum árum síðan. Onei... systir hans, þessi líka frábæra barnapía, sat stjörf en Mummi var hvergi sjáanlegur og ég hljóp um svæðið eins og að drengnum hefði verið rænt af skáeygðum karatemönnum úr bíómynd og rauk náttúrulega niður að tjörn eins og konan mín hafði varað börnin við eins og 30 sinnum á leiðinni í garðinn. En fljótlega fann ég þó hjörðina mína, Mummi hafði fljótlega komið því á framfæri við einhverja velviljaða konu á svæðinu að hann væri týndur og hún við það að kalla okkur upp... væri það ekki týpískt?! Nema hvað, þessi garður óttans var snarlega yfirgefinn og berjandi bumbuslagarar og blásarar færðir sem fórnir annars ágætrar byrjunar hátíðarhaldanna í miðbænum.
Við snöruðum okkur þvínæst í Hafnarfjörðinn þar sem Hafnfirðingar héldu ekki bara 17. júní hátíðlegan heldur einnig upp á 100 ára afmælið sitt. Pólitískari gleðiræðu hef ég líklega ekki heyrt áður en Lúðvík bæjarstjóri var í essinu sínu og hugðist sækja endurkjör sitt með góðum fyrirvara og bryddaði upp á meira blómamáli en Þorvarður skólastjóri Verslunarskólans hefur nokkurn tíma gert og segir það meira en nokkur orð um blómlega málgleði mannsins. Þeir vita hvað ég meina sem þekkja.
Eftir að hafa beðið of lengi eftir að koma drengnum í hoppkastala og hlusta á Mána og Birgittu trylla lýðinn stakk ég af austur á Selfoss og hugðist nú fljúga eins og fuglinn um loftin blá og gaf skít í smá vindaspá sem svosum er ekki stóra málið þegar kemur að flugi. Það sem heftir för í svona veðri er miklu frekar termik sem er í raun hitauppstreymi sem kemur upp úr landinu eins og ímyndaðar risastórar loftbólur og henda flugvélum til og frá, einkum og sér í lagi þessum fisvélum sem ég er að fljúga. Ég þurfti því að fljúga með einni og halda mér í með hinni á nokkrum stöðum en náði þó að lenda fljótlega og ákvað að segja þetta gott hvað þetta flug snerti.
Ég kom því í bæinn og fór með krakkana á tónleika á Ingólfstorgi þar sem við hlustuðum á hana "æ hvað hún heitir Idol stjarnan með frjálslega vöxtinn og norðlenska yfirbragðið" og svo hina geðþekku Veðurguði frá ekki hverju en Selfossi. Við náðum reyndar ekki að tóra svo lengi að heyra Bahamas lagið góða sem er í sérstöku uppáhaldi hjá krökkunum en ballið var gott. Heima beið mín svo thailensk veisla sem Eva og mamma hennar höfðu snarað saman af einhverjum skyndibitastaðnum og dagurinn því ágætis "success" - allir glaðir vona ég.
Ætla að skutla Viktoríu minni í sumarbúðir á morgun og skjótast svo austur og sjá hvort mér takist ekki að fljúga eitthvað meira en í dag, enda væri nánast skömm að kalla það flug sem fram fór í dag. Reyni að taka myndir úr því flugi enda sveitin hin fallegasta núna í þessu veðri og litum sem í boði eru þessa dagana.
Athugasemdir
Haha...Mummi duglegur að bjarga sér :)
Rakel búrhvalur (IP-tala skráð) 29.6.2008 kl. 18:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.