26.4.2010 | 08:51
Og er þetta rétti tíminn?
Merkilegt að þetta skuli vera það eina sem menn virðast sjá skipta máli í borginni. Flugvallarkosningin var ekki bara rétt tæplega samþykkt heldur lifum við á öðrum tímum núna. Svæðið sem undir völlinn fer er eflaust dýrmætt en það fer ekki þótt völlurinn standi áfram í Vatnsmýrinni. Mýmargar greinar hafa sýnt fram á að þessi ákvörðun snýst ekki um að "flytja" flugvöllinn, heldur hvort leggja eigi innanlandsflug af eða ekki. Ég trúi ekki að enn ein samtökin ætli nú að reyna að berjast fyrir flutningi Reyjavíkurflugvallar (ef það skyldi kalla) og það á þessum tímum þegar menn ættu að einbeita sér að velferð fjölskyldunnar sem á svo sannarlega undir högg að sækja vegna ástandsins.
Reykjavíkurframboð býður fram í borginni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Auk þess sem kosningin á sínum tíma var auðvitað meingölluð. Það þýðir ekkert að spyrja hvort flugvöllurinn eigi að fara eða vera. Það verður að spyrja hvað eigi að koma í staðinn.
Ég tek alveg undir þau sjónarmið að ef þetta svæði stæði autt núna þá væri flugvöllur líklega ekki það sem mér dytti fyrst í hug að setja þarna en það breytir því ekki að málið snýst um hvað eigi að koma í staðinn en ekki bara hvort flugvöllurinn á að vera eða fara.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 26.4.2010 kl. 11:21
Hvet þig eindregið til þess að mæta á kynningarfundinn í kvöld klukkan 20:00 og skoða málið ítarlega. Þetta er einmitt rétti tíminn vegna þess að það VERÐUR að verja velferðarmálin. Það á ekki að gera með því að skera þau enn meira niður eða með gríðarlegum skattahækkunum á blankar fjölskyldur borgarinnar.
Velferðarmálin verjum við best með því að skapa borginni miklar tekjur, tekjur sem jafnvel standa undir því að bæta við í velferðamálum. Hver vill ekki bæta aftur þjónustu frístundaheimilanna til dæmis? Skapa betri úrlausnir fyrir fólk í neyð en að standa í röðum úti á götu bíðandi eftir matargjöfum?
Baldvin Jónsson, 26.4.2010 kl. 12:51
Enn eitt framboðið sem vill fjarlægja flugvöllinn. Fyrir voru það fjórflokkurinn eins og hann leggur sig en íbúar Reykljavíkur vilja halda flugvellinum. Þess utan er hellingur af auðu húsnæði í borginni og enginn á leið að byggja.
Ég á ekki orð yfir þessu rugli!
Sigurður Þórðarson, 26.4.2010 kl. 18:49
Fjórflokkurinn er ekki með nein plön um að hreyfa við flugvellinum, því miður. Þeir eru hælbundnir af kjördæmapoti landsbyggðar þingmannanna sinna og því geta fulltrúar þeirra í Reykjavík ekki einbeitt sér að hagsmunum borgarbúa, sem þeir þó lofa. Það er því um það að ræða núna að það eru a.m.k. 5 framboð í Reykjavík sem munu ekki þora að snerta við flugvellinum þrátt fyrir að borgarbúar hafi kosið um að vilja hann burt fyrir 9 árum síðan.
Það er hellingur af auðu húsnæði í borginni Í DAG Sigurður. Varla trúirðu því að það þýði að ekki verði þörf á húsnæði aftur? Miðað við spá um þróun íbúafjölda verður þörf á nýjum íbúðum í Reykjavík eftir um 3 ár. Þess er því ekki langt að bíða að menn byrji aftur að byggja. Það er því afar mikilvægt mál að undirbúa það hið fyrsta.
Stóra lausnin sem felst í Vatnsmýrinni er að sjálfsögðu það að tekjurnar af landinu geta alfarið komið í veg fyrir enn frekari skerðingu á velferðarþjónustu í borginni og í besta falli orðið til þess að hana megi bæta.
Hvort eiga borgarbúar að setja markið á skammsýni eða framtíðarsýn?
Framtíðarsýn sem fer um leið langt með að leysa núverandi gríðarlegan fjárhagsvanda borgarinnar, m.a. vegna mjög slæmrar stöðu Orkuveitunnar, er því fyrir mér afar heillandi lausn.
Hvaða hagsmuni ert þú að verja?
Baldvin Jónsson, 27.4.2010 kl. 08:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.